Í tilefni af umræðu um kynfæralimlestingu kvenna

Þær útskýrðu fyrir henni að þarna væri verið að sækja kornungar stúlkur úr umskurðarathöfn og fylgja þeim til baka. Þegar konan rýndi betur í myndirnar sá hún að fyrir miðju voru þar stjarfar stúlkur, hvítmálaðar í framan. Allt í kringum þær var verið að fagna, en stúlkurnar fyrir miðju liðu líflausar áfram, starandi fram fyrir sig tómum augum.

Á Íslandi er staða mannréttinda góð í alþjóðlegum samanburði. Það á við um flest ríki í hinum vestræna heimi þótt við höfum þurft að vera á varðbergi að undanförnu. Á Vesturlöndum hefur tekist að festa í sessi grunngildi og mannréttindi eins og frelsi og jafnrétti, gildi sem við erum jafnvel farin að taka sem sjálfsögðum.

Víða annars staðar er staðan allt önnur. Í fjölmörgum ríkjum er misskipting og fátækt útbreidd og ofbeldi og mismunum gegn konum viðgengst þar sem jafnrétti kynjanna er verulega ábótavant og skaðlegar menningarhefðir eru útbreiddar. Í Malaví er t.d. við lýði hefð fyrir því að karlmönnum, svokölluðum hýenum, sé greitt fyrir kynferðismök við stúlkur eftir að þær hafa fyrst á klæðum. Hugmyndin á bakvið þessa viðurstyggð er sú að um hreinsunarathöfn sé að ræða.

Önnur útbreidd og skaðleg menningarhefð er kynfæralimlesting kvenna. Þar er um að ræða ofbeldi þar sem mismikill hluti kynfæra kvenna er fjarlægður og síðan er saumað fyrir. Í verstu tilfellum eru snípur og ytri og innri skapabarmar fjarlægðir og saumað fyrir utan að skilið er eftir gat fyrir þvag og tíðablóð. Samkvæmt heimasíðu UN Women á Íslandi hafa 200 milljónir kvenna sætt kynfæralimlestingum, þ.m.t. hálf milljón kvenna í Evrópu.

Sierra Leone er meðal þeirra landa þar sem kynfæralimlesting kvenna er hvað útbreiddust, en um 88% kvenna þar eru umskornar. Þegar ég heimsótti nýlega Sierra Leone, þar sem Ísland hefur unnið að þróunarsamvinnuverkefnum, heyrði ég sláandi frásögn af slíku. Íslensk kona sem býr þar í landi hafði verið í bíl með bílstjóra þar sem þau keyrðu fram á líflega skrúðgöngu. Þegar hún spurði bílstjórann hverju væri verið að fagna var furðulega fátt um svör. Konan brá því á það ráð að mynda skrúðgönguna og leitaði síðar svara hjá vinkonum sínum. Þær útskýrðu fyrir henni að þarna væri verið að sækja kornungar stúlkur úr umskurðarathöfn og fylgja þeim til baka. Þegar konan rýndi betur í myndirnar sá hún að fyrir miðju voru þar stjarfar stúlkur, hvítmálaðar í framan. Allt í kringum þær var verið að fagna, en stúlkurnar fyrir miðju liðu líflausar áfram, starandi fram fyrir sig tómum augum.

Annað land þar sem umskurður kvenna er útbreiddur er Egyptaland, en þar eru yfir 90% kvenna umskornar. Í Egyptalandi, líkt og í velflestum nágrannaríkjum þess, er réttindastaða kvenna bágborin og kynfæralimlesting kvenna hefur þar verið hluti af víðtækum mannréttindabrotum gegn konum. Umskurður kvenna var í raun að hluta bannaður þar í landi fyrir rúmum tveimur áratugum og síðan þá hefur löggjöfinni verið breytt endurtekið til þess að stemma stigu við slíkum verknaði. Þrátt fyrir það er umskurður enn við lýði og útbreiddur í Egyptaland enda, líkt og í Sierra Leone, inngreyptur í menningu landsins. Meirihluti aðgerðanna er þannig framkvæmdur af heilbrigðisstarfsfólki en vegna breytinga á lagaumgjörðinni eru þær framkvæmdar leynilega.

Stúlkur sem verða fyrir kynfæralimlestingu bera ævilangt ör, bæði líkamlegt og sálrænt. Þær eru beittar ólýsanlegu ofbeldi og ákvörðunarvaldið um það er iðulega í höndum foreldra þeirra. Í Egyptalandi, svo dæmi sé tekið, hafa yfirvöld og jafnvel trúarleiðtogar reynt að höfða til foreldra og vakið athygli á þeirri hættu sem limlestingin getur haft í för með sér, bæði líkamlegri og sálrænni. Umskurður kvenna geti  í versta falli leitt til dauða, í besta falli til mikils skaða fyrir dætur þeirra. Breytt löggjöf og herferðir með slíkum skilaboðum til foreldra hafa borið árangur og aðgerðum hefur fækkað en þó ekki nógu hratt.

Þessar skaðlegu menningarhefðir eru ekki bundnar við ákveðinn heimshluta þótt þær séu útbreiddastar í Afríku. Líkt og áður sagði er talið að um hálf milljón kvenna í Evrópu hafi sætt kynfæralimlestingum. Við þekkjum jafnvel dæmi um slíkt hrottafengið ofbeldi á Norðurlöndunum og árið 2005 þótti okkur því ástæða til að gera breytingu á almennum hegningarlögum þar sem við bönnuðum limlestingu á kynfærum kvenna að viðlagðri refsingu. Slík lagaákvæði er nú að finna í flestum okkar nágrannalöndum þar sem innflytjendum hefur fjölgað frá löndum þar sem umskurður stúlkubarna tíðkast. Í greinargerð með fyrrnefndum breytingarlögum er þeim áhyggjum jafnframt lýst að foreldrar ferðist með dætur sínar til útlanda til þess að láta framkvæma á þeim kynfæralimlestingu, og vísað í dæmi um slíkt frá Danmörku og Englandi. Í frumvarpi til breytingarlaganna var því lagt upp með að undantekning yrði gerð á meginreglunni um tvöfalt refsinæmi, þ.e. að íslensk refsilögsaga næði yfir brotin og refsað yrði fyrir þau samkvæmt íslenskum lögum þótt verknaðurinn væri ekki refsiverður í landinu sem hann væri framinn í. 

Kynfæralimlesting kvenna er hryllileg samfélagsleg venja. Hafandi heimsótt ung fórnarlömb slíks ofbeldis getur maður ímyndað sér að það sé þeim óskiljanlegt að foreldrar þeirra hafi lagt á þær slíka kvöl. Þetta er nefnilega ekki kynbundið ofbeldi framið af ókunnugum, öllum að óvörum, heldur kerfisbundið ofbeldi með samþykki og fyrir tilstuðlan forráðamanna. Það er þyngra en tárum taki og vonandi kemur aldrei til þess að við þurfum að beita þessu refsiákvæði hegningarlaga hérlendis.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.