Hvers vegna er staða Íslands sterk í jafnréttismálum?

Þegar lög um fæðingarorlof voru sett fyrir 20 árum var litið til Íslands fyrir framsækna jafnréttislöggjöf. Árangur Íslands í jafnréttismálum náðist fram með markvissum aðgerðum og lagasetningu um það að stuðla að, tryggja og verja jafnrétti. Ísland trónir efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti. Það höfum við gert í rúman áratug og af því getum við verið stolt. Sú staða getur hins vegar leitt til þess að einhverjir trúa því að við séum komin í höfn og að jafnrétti kynjanna sé náð.

Staðan á Íslandi í jafnréttismálum er vissulega góð og góð í samanburði við önnur ríki en þegar við rýnum sviðið sést hins vegar því miður að kynjajafnrétti hefur ekki náðst. Íslenskir heimsmeistarar í kynjajafnrétti hafa bara upplifað konu sem forseta einu sinni og forsætisráðherra tvisvar. Enn hefur það heldur aldrei gerst að hlutfall kynja sé jafnt á þingi. Kynjahlutfall í Hæstarétti líka hefur alltaf verið konum í óhag og þess vegna skipti nýleg skipun tveggja kvenna í Hæstarétt miklu. Og kynbundinn launamunur hefur verið vandamál á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum.

Því má ekki gleyma að góður árangur sem Ísland státar af náðist ekki bara með tímanum. Tíminn leiddi okkur ekki þangað og biðin ekki heldur. Þessum breytingum var náð í gegn með baráttu og framsækinni lagasetningu. Við eigum framsækin fæðingarorlofslög, framsækin lög um jafnlaunavottun sem og lög um kynjakvóta í stjórnum. Erum meðvituð um þýðingu þess að dagvistun sé aðgengileg. Og stjórnmálaflokkar sem vilja láta taka sig alvarlega gæta að kynjahlutföllum.

Í þessu ljósi ættum við að sjá frumvarp um fæðingarorlof sem Alþingi hefur nú til meðferðar og verður að lögum að líkindum að lögum í dag. Þar er um að ræða löggjöf sem lengir fæðingarlof foreldra í 12 mánuði og tryggir báðum foreldrum sjálfstæðan rétt til orlofs, í þeim tilvikum þar sem tveir foreldrar eru til staðar. Framseljanlegur hluti orlofs verða 6 vikur.

Þegar gildandi lög um fæðingarorlof voru sett fyrir 20 árum var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs. Lögin voru því þýðingarmikil réttarbót fyrir karlmenn og fólu í sér viðurkenningu á mikilvægu hlutverki þeirra sem hafði vantað af hálfu löggjafans. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að á þeim tíma var réttur til fæðingarorlofs bundinn við gagnkynhneigð pör. Árið 2000 viðurkenndi löggjafinn ekki pör af sama kyni sem foreldra að þessu leyti.

Öll Norðurlöndin hafa fært foreldrum 12 mánaða fæðingarorlof og sú breyting er þess vegna tímabær. Ísland rekur lestina. Nú skiptir hins vegar máli að tekjuhámark verði hækkað, því fengju fjölskyldur betri stuðning myndu flestir foreldra vilja nýta sér fæðingarorlof. Hámarksgreiðsla fæðingarorlofs er nú t.d. um 65% af meðalheildarlaunum karlkyns sérfræðinga með háskólamenntun en 80% af meðalheildarlaunum kvenna í sama flokki.

Miklu skiptir að hækka tekjuhámarkið svo fjölskyldur verði ekki fyrir miklu tekjufalli við það að nýta þennan rétt. Til þess að löggjöf um sjálfstæðan rétt foreldra nái fram markmiðum sínu þarf tekjumarkið að vera hærra og þannig að fjölskyldur sjái sér fært að taka fullt fæðingarorlof. Vitaskuld er það í þágu barna að foreldrar þurfi ekki að láta hluta fæðingarorlofs niður falla. Þess vegna er bæði eðlilegt að styðja betur við barnafólk með því að hækka tekjuhámarkið og þá myndi það styðja við jafnréttismarkmið frumvarpsins að tekjumarkið verði hærra. Að þessu leyti er frumvarpið töluverð vonbrigði.

Forsenda fæðingarorlofslanganna var og er að réttur til launa í fæðingarorlof er einstaklingsbundinn réttur. Nálgunin er sú að barn, sem á tvo foreldra eigi rétt til samvista við þá báða á fyrstu mánuðum lífsins. Jafn réttur tryggir hagsmuni barns sem og foreldra. Þá er það algjört grundvallaratriði um jafnrétti á vinnumarkaði sem og inni á heimilum að gert séð ráð fyrir því að mæður jafnt sem feður hverfi um tíma af vinnumarkaði vegna fæðingarorlofs. Það er jafnframt grundvallaratriði að í frumvarpinu er komið til móts við þá foreldra sem eru einir, að forsjárforeldri geti þá fengið 12 mánaða fæðingarorlof.

Að 20 árum liðnum er staða Íslands í jafnréttismálum því miður ekki þannig að rétt eða tímabært sé að afnema sjálfstæðan rétt foreldra til fæðingarorlofs. Það hefði líklega framkallað þau neikvæðu áhrif að feður tækju fæðingarorlof í minna mæli, veikja hlut mæðra á atvinnumarkaði og skerða rétt barna til samvista við báða foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar. Samfélag sem vill verja hag barna, foreldra og jafnréttis getur ekki farið þá leið að afnema sjálfstæðan rétt foreldra til fæðingarorlofs.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.