Hvers konar mannamót á best við þig?

Það samfélag er væntanlega ekki til í heiminum sem er jafn vel endurspeglað á samfélagsmiðlum og hið íslenska. Fjöldi og virkni Íslendinga á sér eflaust ekki hliðstæðu í víðri veröld og verður líklega ekki viðjafnað um fyrirsjáanlega framtíð.

Það samfélag er væntanlega ekki til í heiminum sem er jafn vel endurspeglað á samfélagsmiðlum og hið íslenska. Fjöldi og virkni Íslendinga á sér eflaust ekki hliðstæðu í víðri veröld og verður líklega ekki viðjafnað um fyrirsjáanlega framtíð.

Íslendingar er Facebook þjóð. Þar líður þeim best, þar eru þeir í essinu sínu. Á Facebook njóta sín öll helstu þjóðareinkenni Íslendinga. Mikið eru um mont og frægðarsögur, yfirleitt hulið einhvers konar búum-til-betri-heim slykju. Þar er líka mikið þras, öllu minna hulið. Börnin leika stórt hlutverk og auðvitað hinir látnu.

Facebook er þannig eins og hefðbundin íslensk fermingarveisla, jafnvel ættarmót. Menn segja sögur og allir hafa sína skoðun, hvort sem það er hver á öðrum eða á málefnum líðandi stundar. Framgangur barnanna á lífsins göngu er tíundaður og sjaldan gert minna úr þeim hlutum en efni standa til. Löng hefð er fyrir því í íslenskum fermingarveislum að gestir geri hver öðrum grein fyrir helstu utanferðum og þeirri venju er vel við haldið á Facebook.

En almennt eru menn bæði vingjarnlegir og lausir við hvers kyns stæla í svona boðum, eins og fermingarveislum og ættarmótum. Og það er ákveðið jafnræði með gestum, það eru allir saman í veislunni. Menn kasta líka grímunni á ættarmótum. Pokahlaup og stórfiskaleikur er ekkert mál, og þátttaka í vísindatilraunum með viðkvæmar persónuupplýsingar ekki heldur, ef á annað borð er hægt að hafa stundargaman að því að bera saman niðurstöður sínar við aðra gesti á mótinu.

Íslenska twittersenan er hins vegar öðru bergi brotin. Þar gilda önnur lögmál. Twitter er kokteilboð. Í öllum góðum kokteilboðum er í það minnsta reytingur af frægu fólki. Og á Íslandi er reglan í kokteilboðum sú að bara frægir mega tala við fræga. Hinir mega fylgjast með samtalinu, jafnvel að skjóta inn einni og einni athugasemd en þeim er aldrei svarað. Það er grundvallarregla.

Þeir sem eru verseraðir í kokteilboðum vita að þau snúast um sniðugheit og gott er að vera búinn að undirbúa að minnsta kosti gott eitt innslag í hverju boði. Nokkrar hláturrokur merkja að menn hafa skilað sínu í kokteilboðinu. Og ef einhver frægur skyldi taka eftir sniðugheitunum og jafnvel hafa þau eftir við aðra í boðinu, þá hefur afar vel tekist til.

Sama fólkið sækir auðvitað fermingarveislur og kokteilboð að mestu leyti. Það hagar sér samt mismunandi eftir því hvort mannamótið á í hlut. Sami maður getur verið opinn, einlægur og fölskvalaus í fermingarveislunni, sagt sögur af ferðalögum og börnunum, en svo brugðið fyrir sig hótfyndni og kaldhæðni á heimsmælikvarða þegar hann mætir í kokteilboðið, jafnvel sama dag.

Það er einungis hægt að vona að algóritmarnir aðlagi sig smám saman íslenskum þjóðareinkennum. Ekki er gott að segja hvernig fer ef það verður á hinn veginn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.