Hvernig verður heimurinn árið 2030?

Framtíðin á Vesturlöndum verður að teljast grá þar sem íbúar á þriðja æviskeiðinu verður fjölmennasti íbúahópurinn í mörgum löndum. Þetta verður ný tegund eldri borgara, virkari, hraustari og með meiri kaupmátt.

Það er skemmtileg dægradvöl að velta fyrir sér hvernig veröldin breytist bæði í senn of hratt og of hægt. Þó það sé vissulega erfitt að spá fyrir um framtíðina þá er í mörgum tilfellum ákveðin þróun í gangi sem má með ágætri vissu gera ráð fyrir að haldi áfram. Með það í augum og með þann fyrirvara að ávöxtun á hlutabréfum í fortíð sé ekki ávísun á ávöxtun í framtíð getum við með smá kæruleysisblæ skellt á okkur sólgleraugu, hoppað upp í Delorean flugbíl og litið aðeins inn í framtíðina, til ársins 2030.

Það fyrsta sem við munum veita athygli er að heimurinn er mættur til Asíu. Á meðan fólksfjöldi dregst saman í okkar litla heimshorni heldur íbúum áfram að fjölga í heiminum, mest í Asíu og Afríku. Í Asíu mun millistéttin vaxa gríðarlega og munu tveir þriðju hlutar millistéttar heimsins búa þar árið 2030.

Leikreglur alþjóðaviðskipta verða þá ekki lengur skrifaðar af Bandarískum og Evrópskum markaðsaðilum heldur Indverskum og Kínverskum þar sem framleiðendur byrja á því að þróa vörur fyrir stærstu markaðina og skoða svo hvort það borgi sig að fara inn á smærri markaði. Framkoma stórfyrirtækisins Disney sem bauð íslenskum börnum upp á enskt eða danskt tal (því flest íslensk smábörn tala einmitt dönsku) gæti gefið ákveðin tón um það sem koma skal.

Framtíðin á Vesturlöndum verður að teljast grá þar sem íbúar á þriðja æviskeiðinu verður fjölmennasti íbúahópurinn í mörgum löndum. Þetta verður ný tegund eldri borgara, virkari, hraustari og með meiri kaupmátt.

Tækniþróun mun halda áfram að fækka störfum víða en ekki er ljóst hvort okkur takist að tryggja að sem flestir njóti afrakstursins. Drónar sem geta borið fólk verða farnir að þjóta um erlendar heimsborgir en líklegast ekki í mörgum lýðræðisríkjum. Slíkt myndi enda kalla á margar grenndarkynningar, íbúafundi og flóknar deiliskipulagsbreytingar sem taka meira en áratug.

Kannski að stærsta spurningin sé hvernig okkur muni ganga að takast á við það verkefni að berjast gegn hlýnun jarðar. Kannski verðum við búin að ganga í verkið hratt og vel en kannski verður einfaldlega enn ein heimsráðstefnan haldin í einni af nýjum stórborgum Afríku þar sem leiðtogar heims fara aftur yfir málin.

Það hefur það verið ákveðinn taktur í síðari tíma mannkynssögu að á hverjum áratug verður atburður sem hefur straumhvörf í för með sér: 2020 var það Covid, 2008 – Fjármálahrun, 2001 – árásin á tvíburaturnana, 1989 fall járntjaldsins.

Út frá því má ætla að til viðbótar við allar spár muni eitthvað allt annað gerast á komandi áratug sem breytir öllu því sem við teljum okkur vita um heiminn.

Hvað sem það kann að vera.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.