Hver er einfaldur?

Almenningur ber lítið traust til Alþingis samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi fyrir Alþingi (Traust til Alþingis, maí 2013). Þá hefur almenn kosningaþátttaka farið minnkandi. Hvorugt er gott í lýðræðisríki. Í sömu rannsókn kom fram að umrætt vantraust beindist að mestu leyti að samskiptamáta þingmanna, framkomu þeirra, vinnulagi á Alþingi og ómálefnalegri umræðu á kostnað samvinnu. Ef bætt yrði úr þessum þáttum myndi traust fólks til Alþingis aukast samkvæmt niðurstöðunum.

Það má ætla að umræðuhefðin sem skapast hefur á Alþingi sé ekki í samræmi við þær kröfur sem almenningur gerir til stjórnmálamanna. Umræðuhefð á Íslandi má bæta og ef vilji er til þess að breyta henni kallar það á breytta nálgun.

Í umræðu um hvað þurfi að bæta hefur meðal annars verið nefnt að það vanti auðmýkt í stjórnmál og auka þurfi samvinnu stjórnmálamanna. Það virðist hins vegar vera talið veikleikamerki og eftirgjöf að sýna auðmýkt. Skoðanir fólks sem kallar eftir breyttum stjórnmálum eru álitnar einfaldar og afgreiddar á þann veg að þær muni breytast þegar það sama fólk skilur hvernig pólitík er og hefur alltaf verið. Þetta viðhorf mun ekki auka traust almennings og er í besta falli einfeldningslegt.

Verði stjórnmálamenn ekki við þeirri eðlilegu kröfu að stjórnmálamenn rökræði, hlusti og nálgist málefni með gagnrýnum hætti er það veikleikamerki. Það er hins vegar styrkleikamerki að horfast í augu við að kallað hefur verið eftir annars konar nálgun stjórnmálamanna. Að því er hægt að vinna með aukinni samvinnu og auðmýkt, án þess að fórna pólitískri umræðu, skýrum pólitískum línum og staðfestu. Áhrif yfirvegaðri rökræðu yrðu óhjákvæmilega betri ákvarðanataka. Að því hljótum við öll að stefna.

Stjórnmálamenn eiga að vera leiðtogar. Góðir leiðtogar hlusta og taka leiðbeiningum. Í grundvallaratriðum snúast stjórnmál um það að ákvarða umfang og efni leikreglna samfélagsins. Sá sem vill ná fram áhrifum í stjórnmálum hlýtur að horfa til þess hvernig hann nýtti hlutverk sitt og áhrif til að móta umfang og efni þessara leikreglna.

Latest posts by Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir (see all)