Einokun sár

Ég sé að ÁTVR hafi séð ástæðu til að bregðast við grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið þann 11. október. En ábendingar ÁTVR um að stofnunin veitti öllum sem vildu upplýsingar um starfsemi sína væru ögn marktækari ef hún þá gerði það.

Þann 1. ágúst send ég eftirfarandi póst á fyrirtækið:

“Sæl,

Í auglýsingum frá vínbúðinni koma fram ýmsar tölur eins og þær að 14% allra skilríkja eyðileggjast í þvottavélum. Mig langar að vita… Eru þetta alvörutölur eða grín?

Með kærri kveðju Pawel Bartoszek”

Þessum pósti var aldrei svarað. Ég þykist vita af hverju það var. Tölurnar virka auðvitað uppskáldaðar en það myndi hljóma asnalega að viðurkenna það. Síðan þá skrifaði ég aðra grein um málið og virðist mér sem auglýsingin hafi nú farið úr spilun og prósenturnar skoplegu teknar niður úr verslunum. Ég ætla þó ekki að draga ályktanir um mátt minn af þeim atburðum, það er líklega bara tilviljun.

Í greininni lagði ég út frá þeim punkti að það væri barnalegt að halda að menn gætu tekið græðgina út úr jöfnunni með því að ríkisvæða söluaðilann. Mér finnst augljóst að frummarkmið með rekstri ÁTVR sé ekki að minnka sölu áfengis. Ef það væri raunverulega tilfellið myndu stjórnendur ÁTVR að koma fyrir þingnefndir og gefa sveittir útskýringar hvers vegna stofnunni hafi mistekist svona hrikalega að draga úr sölu áfengis. En þess í stað fá Vínbúðirnar nokkuð frítt spil við að fara í auglýsingaherferðir sem hafa auðvitað þann tilgang að fólk muni eftir vörumerki þeirra, og versli þá við þær.

Í grein sinni segja Vínbúðirnar:

“Í tilefni af hugleiðingu Pawels Bartoszek í Fréttablaðinu laugardaginn 11. október, meðal annars um uppröðun og staðsetningu vöru í Vínbúðum, vill ÁTVR benda á að við veitum fúslega upplýsingar um hvaða reglur gilda um uppröðun og staðsetningu vöru.”

Það er vel og því er sjálfsagt að hvetja ÁTVR til að standa við þau fyrirheit og birta þær upplýsingar á heimasíðu sinni. Ég held að allir hefðu gagn af slíku.

Einnig fer ég fram á að ÁTVR svari fyrri fyrirspurn minni um uppruna þeirrar staðhæfingar að “14% allra skilríkja eyðileggjast í þvottavélum”. Og fyrst að heimasíða stofnunarinnar er orðin að vettvangi fyrir málefnalega rökræðu við röflara landsins er vitanlega sjálfsagt að það svar birtist einnig þar, sem fyrsta frétt. Helst með fyrirsögninni „Staðreyndir um eyðileggingu skilríkja“.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.