Hæðumst að andstæðingnum, það tryggir okkur sigur

Það koma oft upp mál sem skipta landsmönnum upp í tvö lið eins og ESB aðild, flugvöllur í Vatnsmýri og frjáls verslun fyrir áfengi, til að nefna nokkur dæmi. Það vill þá gerast að fólk dregur sig saman og ræðir hversu vitlaus hinn hópurinn er og reynir að plotta leiðir til að fá fleiri með í liðið sitt. Upp koma eflaust hugmyndir um hvernig er best að klekkja á andstæðingnum og hvernig er hægt að gera stórkostlegt grín að þessum fáránlegu skoðunum.

En er þetta vænlegt til árangur? Jón Gnarr og Besti Flokkurinn kunni sitt fag að ná til fjöldans með gríni. Afhverju? Jú, Jón Gnarr er einn vinsælasti grínisti allra tíma á Íslandi og með honum í hóp var einmitt stór hópur af fyndnasta fólki landsins. Þau gátu gert grín að öllu og tóku í raun öll hefðbundnu pólitísku vopnin úr höndum andstæðinganna. Þau náðu fólki með sér í lið með því að lofa bulli. Það skipti nefnilega ekki máli hvern þú kysir, það uppfyllir enginn loforðin sín. Fólki fannst það sannarlega fyndið því í þessu var sannleikskorn og var því tilbúið að kjósa djókið. Djókið var líka trúverðugt, djókið var pólitíkin þeirra og það var hægt að bera virðingu fyrir því. Þannig unnu þau borgina.

Besti flokkurinn gat þetta, gert gys að pólitík og pólitíkusum en geta hefðbundnu flokkarnir það? Ég er ekki svo viss.

Nú yfirflæðir Facebookið mitt af alls kyns skopmyndum sem tengjast flugvellinum í Vatnsmýri og brostnum loforðum Dags og meirihlutans í þessu máli. Þar á undan flæddu myndir af börnum í innkaupakerrum að reyna að ná í vodkaflösku. En á það að skjóta á borgarstjóra með einhverskonar háðsgríni að fá mig með hreyfingunni Hjartað í Vatnsmýrinni? Eða til að halda að með tilkomu frjálsrar verslunar með áfengi fari ungabörn að reyna að detta í það? Ef þetta átti að fá mig í lið með þessum tveimur hópum misheppnaðist það herfilega. Að stórum hluta er það vegna þess að þetta grín er bara ekki nærri því jafn fyndið og hjá Jóni Gnarr og í stað þess að fá mig með þeim í lið verð ég enn harðari í hina áttina. Því ólíkt Besta flokknum þá fannst mér grín þeirra aldrei ljótt eða ætlað til að fá mig með þeim í lið, heldur bara grín sem ég hló að, meira að segja þó ég væri hugsanlega stuðningsmaður andstæðinga Besta Flokksins.

Ennþá heldur fólk áfram að nota hæðnisgrínið sitt, því það upplifir að það sé með því að fá fólk með sér í lið. Þau upplifa sig sem hluti af stórum hóp, en ef grannt er skoðað þá er þetta bara nákvæmlega sami hópur og áður, bara háværari hlátrasköll í garð hins svokallaða andstæðings.

Vissulega mega allir reyna að vera fyndnir en vandinn er bara sá að það eru ekki allir jafn góðir í að fá fjöldann til að hlæja. Það að gera grín að alvarlegum málum gerir lítið úr málstaðnum. Jón Gnarr gerði einfaldlega grín að pólitíkinni sem slíkri, en með hæðnisgríninu er gert lítið úr pólitík og þeim málstað sem þessir hópar standa fyrir. Lausnin er ekki að skjóta með hæðnisgríni til að fá fólk með þér í lið, heldur tala af af auðmýkt, með rökum, hlusta á andstæðinginn og reyna svo að fá hann á þitt band með góðu, frekar en að ýta honum enn frekar út í sitt horn.

Svo til að segja þetta beint út: hættið þessum stælum og talið bara frá hjartanu, það virkar alltaf best.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.