Frá Rushdie til Charlie

Nú þegar tæp þrjátíu ár eru liðin frá því að andlegir leiðtogar múslima í Íran kröfðust þess og hvöttu til að Salman Rushdie yrði drepinn fyrir guðlast hafa menn vaknað upp við vondan draum og sameinast að því er virðist um að verja og upphefja tjáningarfrelsið andspænis hótunum og ofbeldi.

Árið 1989 gaf íslamska klerkastjórnin í Íran undir út tilskipun (fatwa) til allra sanntrúaðra múslima um að breski rithöfundurinn Salman Rushdie skyldi drepinn fyrir guðlast. Rushdie hafði árið áður gefið út bókina Söngvar satans, þar sem ýjað var að því spámaðurinn Múhameð væri kannski ekki eins heilagur og múslimar höfðu viljað láta.

Í stuttu máli fjallaði bókin um að spámaðurinn hefði freistast til að bæta nokkrum versum við kóraninn, þar sem þrjár gyðjur voru tilbeðnar í Mekka. Síðar átti Múhameð að hafa tekið versin út og afsakað sig með því að djöfullinn hefði freistað hans til að setja þau inn. Þetta var nú allt guðlastið í stuttu máli.

Í kjölfar dauðadóms íslamistanna í Teheran fór Rushdie huldu höfði um tíma. Aðeins nokkrum mánuðum eftir að tilskipunin var gefin út sprakk sprengja á hótelherbergi London. Í ljós kom að sprengjusmiðurinn, Mustafa Mahmoud Mazeh, hafði ætlað sér að ráða Rushdie af dögum en fyrir vangá sprengt sjálfan sig í loft upp við ráðagerðina. Lýstu samtök íslamista í Líbanon yfir ábyrgð á þessu misheppnaða tilræði. Frá því er greint á vef Wikipedia að sérstakur helgistaður sé í Teheran tileinkaður hinum mislukkaða sprengjusmið.

Dauðadómurinn yfir Rushdie hefur aldrei verið afturkallaður, þvert á móti hefur klerkastjórnin ítrekað að Rushdie sé enn réttdræpur. Til að liðka fyrir bættum samskiptum við Bretlandi undir lok síðustu aldar lýsti íranska stjórnin því hins vegar yfir að hún myndi í verki hvorki styðja né hindra morð á Salman Rushdie. Diplómatískari verða yfirlýsingarnar varla.

Eftir dauðadóminn vildi enginn Söngva satans kveðið hafa – eðlilega. Raunar voru fjölmargir sem gagnrýndu Rushdie harðlega fyrir að vega með þessum hætti að múslimum og reita þá til reiði. Leiðtogar múslima um heim allan kepptust við að bannfæra rithöfundinn og útgáfa bókarinnar var bönnuð í fjölmörgum löndum þar sem múslimar eru fjölmennir. Rushdie var óvíða aufúsugestur á þessum árum, enda fólk ekki mjög ágjarnt í vera innan um menn sem til stendur að sprengja í loft upp. Í raun má segja að fatwa-hótunin hafi virkað í næstum tuttugu ár, eða þar til nokkrum miðaldra blaðamönnnum á Jótlandi datt í hug árið 2005 hug að birta teiknimyndir af Múhameð í tilefni af ítrekuðum hryðjuverkum öfgasinnaðra múslima. Þeim var einnig hótað lífláti og raunar tilraunir gerðar til þess.

Einn af fáum fjölmiðlum í heiminum sem endurbirti teikningar Jótlandspóstsins var skopmyndatímaritið Charlie Hebdu í París. Hinir voru fleiri sem átöldu dönsku hippana fyrir þetta uppátæki. Ýmsir málsmetandi menn hér á landi tóku meira að segja upp hanskann fyrir hina móðguðu múslima og sögðu rangt að birta teiknimyndirnar. Charlie Hebdu sagði hins vegar að það væri bara ekki þeirra mál þótt múslimar móðguðust, útgáfan lyti frönskum lögum sem ólíkt hinum íslömsku veitti mönnum frelsi til að tjá sig. Þeirri deilu lauk að einhverju leyti í París sl. miðvikudag með því að teiknararnir voru skotnir með hríðskotabyssu af sjálfskipuðum verndurum spámannsins.

Það segir sig sjálft að menn sem labba inn á ritstjórnarfund á skopmyndablaði og skjóta viðstadda í spað eru ekki með réttu ráði í þeim skilningi sem flest venjulegt fólk leggur í það hugarástand. Það er líka rétt að múslimar almennt bera enga ábyrgð á slíkum einstaklingum. Raunar eru múslimar langsamlega fjölmennastir í hópi fórnarlamba herskárra íslamista þegar tekin eru saman ódæðisverk síðustu ára og áratuga.

Það er aftur á móti rangt og í raun hættuleg afneitun að segja að hin misheppnuðu tilræði við Rushdie og dönsku teiknara annars vegar og morðin á frönsku blaðamönnunum á Charlie Hebdu hins vegar tengist íslam ekki á neinn hátt. Það er ennfremur rangt og varasamt að halda því fram að hér sé einungis um að ræða frumkvæði sturlaðra einstaklinga.

Nú þegar tæp þrjátíu ár eru liðin frá því að andlegir leiðtogar múslima í Íran kröfðust þess og hvöttu til að Salman Rushdie yrði drepinn fyrir guðlast hafa menn vaknað upp við vondan draum og sameinast að því er virðist um að verja og upphefja tjáningarfrelsið andspænis hótunum og ofbeldi.

Sú barátta snýst ekki um útlendingahatur eða kynþáttahatur. Hún snýst heldur ekki um andúð á einstökum trúarbrögðum. Góðu fólki stendur auðvitað á sama um það hvort menn krjúpa á mottu við sína tilbeiðslu eða horfa á Eirík á Ómega. Þessi barátta snýst um að standa vörð um opið og lýðræðislegt samfélag, þar sem mannréttindi eru ofar öllu, deilumál eru leyst með friðsamlegum hætti fyrir dómstólum og veraldlegt vald ríkir framar trúarbrögðum.

Þeir sem ekki fallast á það og vinna gegn þessu fyrirkomulagi eiga aðra búsetukosti.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.