Enda er þetta ekkert líf

Lífsgæði okkar ráðast af mörgum þáttum. Heilsan er eflaust stærsti áhrifaþátturinn, án hennar er allt annað marklaust í raun. Allt okkar starf, launað og ólaunað, allt okkar erfiði og allt okkar erindi í lífinu, lýtur í raun þeim tilgangi að auka lífsgæði okkar, allt eftir því hvað hver og einn telur eftirsóknarvert.

Lífsgæði okkar ráðast af mörgum þáttum. Heilsan er eflaust stærsti áhrifaþátturinn, án hennar er allt annað marklaust í raun. Allt okkar starf, launað og ólaunað, allt okkar erfiði og allt okkar erindi í lífinu, lýtur í raun þeim tilgangi að auka lífsgæði okkar, allt eftir því hvað hver og einn telur eftirsóknarvert.

Fyrir þau okkar sem eiga erfitt með skilja alheiminn og eilífðina, þá er hversdagslegt amstur ákveðinn prófsteinn á lífsgæðin. Kostir og gallar þess að búa í samfélagi manna verða aldrei eins áberandi og í hinu hversdagslega amstri. Um þetta geta borgarbúar vitnað þegar þeir verja heilu og hálfu morgnunum fastir í bílunum sínum á leið í vinnu, og svo sömu leið til baka þegar afplánun er lokið þann vinnudaginn.

Þannig líða dagarnir. Allir þessir dagar. Eins og sænska skálið sagði: „Allir þessir dagar sem komu og fóru, ekki vissi ég að þeir væru lífið.“

Það eru engin lífsgæði fólgin í því að sitja í umferðarteppu, jafnvel þótt bíllinn sé góður og ágæt músík í útvarpinu. Þetta myndi enginn kjósa sér sem liti svo á að tíminn væri mjög takmarkaður. Sá myndi velja sér annað hlutskipti.

Það hefur lengi virst vera þannig að umferðarteppa sé óhjákvæmilegur hluti af borgarsamfélaginu. Því eftirsóttara sem það verður að búa í slíku samfélaginu, því meira fjölgar fólki – og um leið bílunum. Litlu virðist breyta þótt göturnar séu breikkaðar, þótt vissulega hjálpi ekki heldur að leggja beinlínis stein í götu fólks.

Nýlega las ég grein í blaði um að Finnar væru að finna á þessu lausn; að búa svo um hnútana að fólk þyrfti að minna að fara að heiman vegna vinnu, enda er það erindi flestra sem lenda í teppunni að morgni eða síðdegis.

Þetta minnti mig reyndar á pistil sem þá ungur maður skrifaði á Deigluna fyrir 20 árum (úff, já, það eru komin 20 ár). Þar sagði:

En mætti ekki hugsa sér að hluti lausnarinnar á umferðarvanda borgarinnar lægi í sjálfri tilurð hans? Ef hægt væri að minnka þörf fólk til að ferðast á milli staða innan borgarinnar, myndi þá álagið á gatnakerfið ekki minnka? Umferð er afskaplega dýr og innanbæjarferðalög borgarbúa er þjóðhagslega mjög óhagkvæmd. Bensín, slit á götum, slys á fólki og skemmdir á munum sem valda hærri iðgjöldum trygginga, tímasóun og svo mætti lengi telja. Að gera ört vaxandi umferð öruggari er eilífðarverkefni og geysilega dýrt. Ef hægt væri að minnka þörfina sem veldur umferðinni væri mikið unnið.

Einn þáttur í því að minnka þessa þörf gæti falist í aukinni fjarvinnu fólks. Líkamleg nærvera á vinnustað er í flestum tilvikum stórlega ofmetin, auk þess sem hún er dýr fyrir viðkomandi fyrirtæki. Ef hægt væri að gera fyrirtækjum og starfsfólki þeirra fjarvinnu raunhæfan kost mætti draga verulega úr umferð á helstu álagstímum – með tiltölulega litlum tilkostnaði. Í stað þess að einblína á vandamálið eins og það blasir við er oft hyggilegra að beina sjónum að tilurð þess. Aukin fjarvinna myndi ekki leysa umferðarvandamál höfuðborgarinnar í einu vetfangi – en fólk gæti stundað vinnu sína án þess að leggja í meiriháttar ferðlaga á hverjum degi, þá myndi það eflaust hjálpa mikið til.

Ferðaþörfin er rót vandans var yfirskrift þessa pistils sem hér er vitnað til. Tuttugu árum síðar erum við enn í þeim sporum að tugþúsundir Reykvíkinga þeysast á bílum sínum út á göturnar á hverjum morgni og heim aftur seinni partinn.

Ég hygg að um þetta megi segja það sama og hygginn maður sagði við skattinn á sínum tíma þegar ýjað var að undanskotum af hans hálfu, að uppgefnar tekjur dyggðu ekki fyrir lágmarksframfærslu:

„Ég veit það, enda er þetta ekkert líf.“

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.