Ekki hvort – heldur hvert

Á stríðsárum var byggður flugvöllur í Vatnsmýri. Land var tekið eignarnámi, hús flutt og heilu hverfi skipt í tvennt með flugbraut. Síðan þá hefur oft verið rætt um flytja flugvöllinn og taka landið undir byggð. Sú umræða náði nýjum hæðum fyrir akkúrat 20 árum, með sérstakri, ráðgefandi kosningu um framtíð hans. Niðurstaðan með þeirri ráðgefandi kosningu var að völlurinn ætti að fara. Síðan þá hafa allar borgarstjórnir stutt þá niðurstöðu og enginn flokkur sem sett hefur óbreytt ástand á oddinn hefur hefur náð “flugi”.

Ef eitthvað er má gagnrýna okkur sem viljum fá flugvöllinn í burtu fyrir að vinna ekki nægilega nægilega hratt að flutningi hans. Vissulega hefur margt gerst: Hlíðarendahverfið er að byggjast upp. Byggðin hefur verið að færast að flugvellinum HÍ-megin. Verið er að skipuleggja byggð í Skerjafirði. En um aldamótin var samt rætt eins og völlurinn gæti verið farinn 2012.

Það er betra að leysa hluti í sátt ef sátt er í boði. Þess vegna er skynsamlegt að ríki og borg skoði málin saman, leiti að nýjum stað og framlengi dvöl vallarins á meðan. Það er bara ábyrgt. En það er samt pólitísk afstaða flestra borgarfulltrúa að það sé ekki spurning hvort völlurinn eigi að fara – heldur hvert.

Það er staðreynd að flugvellir í miðjum borgum þrífast ekki sérlega vel. Ef nýta á þá til fulls þá eykst ónæðið. Ef menn geta ekki nýtt þá ekki til fulls þá minnka vaxtamöguleikarnir. Flugvell finna sér stað í jaðri byggðar. Markaðsöflin þjarma svo að þeim eftir því sem landið verður verðmætara. Þetta lögmál er staðreynd. Vinsældir Reykjavíkurflugvallar eru ekki að fara að vaxa á núverandi stað. Vaxtarmöguleikar hans eru ekki að fara að aukast. Verðmæti landsins er ekki að fara minnka.

***

Nú er í umsagnarferli aðalskipulagsbreyting í Reykjavík sem framlengir veru flugvallarins í Vatnsmýri um einhver ár til viðbótar. Þau okkar sem stutt hafa þá nálgun (og fengið stundum bágt fyrir hjá öðrum flugvallarandstæðingum) hafa gert það í þeirri góðu trú að betra sé að vinna málið í sátt heldur en að stofna til óábyrgra átaka við ríkið.

Nýjar tillögur samgöngurráðherra um að taka skipulagsvald í flugvallarmálum af sveitarfélögum þarf kannski að skoða í ljósi þess að það eru þingkosningar á leiðinni. En það verður engu að síður að taka tillögurnar alvarlega. Tillögurnar þrengja að skipulagsvaldi sveitarfélaga eru ekki í anda þeirrar samvinnu sem átt hefur sér stað milli ríkis og borgar um framtíð flugvallarins.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.