Fjallið tók loks jóðsótt

Tilgáta Deiglunnar byggði á þeim einfalda sannleika að annað hvort gerist eitthvað eða það gerist ekki.

Eldgos hófst í kvöld, föstudaginn 19. mars 2021, í Geldingadal við Fagradalsfjall, örfáa kílómetra frá Grindavík. Fyrir fáeinum dögum var því haldið fram hér á Deiglunni að helmingslíkur væru á því að gysi á þessu svæði en á þeim tíma og allt þar til í kvöld voru sérfræðingar svo að segja á einu máli um að líkur á gosi væru mun minni, allt að því engar að álit sumra.

Tilgáta Deiglunnar byggði á þeim einfalda sannleika að annað hvort gerist eitthvað eða það gerist ekki. Það eru þannig alltaf tveir möguleikar í hverri stöðu og einfaldur útreikningur segir okkur þá að helmingslíkur eru á hvorum möguleika. Að þetta hafi farið framhjá okkar færustu sérfræðingum er auðvitað með talsverðum ólíkindum. Auðvitað sjá allir núna að það hlaut að gjósa þarna, rétt eins og allir sáu hrunið fyrir, eftirá.

Almannavarnahlutverk Deiglunnar hlýtur auðvitað vaxa í kjölfarið, þótt vissulega sé erfitt að keppa við Ríkisútvarpið í þeim efnum sem varpar í þessum skrifuðu orðum út til landsmanna alveg hreint ágætum þætti úr þáttaröðinni um Séra Brown á meðan gosmökkurinn færist í átt að höfuðstaðnum.

Áður hefur verið fjallað um hlutverk Ríkisútvarpsins á raunarstundu hér á Deiglunni og má benda lesendum á ágætan pistil frá 20. júní 2000 þar sem fjallað var um viðbrögð við þessa ómissandi öryggistækis við stóra skjálftanum sem varð á Suðurlandi þremur dögum áður:

Rúmum hálftíma eftir skjálftann birtist Ingólfur Hannesson, forstöðumaður íþróttadeildar RÚV, á skjánum og sagði útsendingu frá leik Portúgala og Rúmena á EM í fótbolta hafa verið rofna til að segja fólki frá jarðskjálfta sem orðið hafi austur í sveitum. Fljótlega var síðan skipt aftur yfir til Belgíu, þar sem menn voru við hugann við allt annað en atburði í uppsveitum Rangárvallasýslu á Íslandi.

Þannig kom ríkisútvarpið landsmönnum til bjargar þennan eftirminnilega þjóðhátíðardag. Þegar þjóðin snéri sér að viðtækjum sínum í von um upplýsingar sem veitt gætu ró eða nauðsynlegar leiðbeiningar, fékk hún að heyra upptöku af tónleikum og sjá beina útsendingu frá einum af 32 leikjum Evrópumóts landsliða í fótbolta.

Til allrar mildi lítur allt út fyrir á þessu stigi að Geldingadalsgosið verði meinlaust túristagos, þótt náttúruöflin megi vitaskuld aldrei vanmeta. Eflaust mun Ríkisútvarpið ekki láta sitt eftir liggja í umfjöllun um gosið á meðan það undirbýr sig enn betur fyrir öryggishlutverk sitt í næstu náttúruhamförum sem yfir þessa þjóð munu ganga.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.