Ekki (hætta að) benda á mig

Í fyrra fagnaði mannkynið því að hálf öld var liðin frá því magnaða afreki að senda manneskjur í stálhólk út í geim þar sem þær lentu á tunglinu, gengu þar um og sneru svo aftur heim. Mannkynið státar einnig af því að hafa fundið upp internetið, skapað gervigreind, þróað meðferðir úr stofnfrumum og búið til lítil tæki sem eru í senn sími, tölva, tónlistarspilari, dagbók, einkaþjálfari og veðurstöð. Þessi litlu tæki gera okkur enn fremur kleift að panta pizzu, borga í stöðumæli og sækja um yfirdrátt.

Með alla okkar kunnáttu í hugviti, vísindum og tækni þá er eitthvað dásamlega fallegt og jafnvel frumstætt við það hvernig tveir stærstu stjórnmálaflokkum Bandaríkjanna, lands sem leiðir á heimsvísu í vísindum og tækni, framkvæma þá aðgerð að velja forsetaframbjóðanda í fylkinu Iowa í miðvesturríkjunum. Forkosningar flokkanna í Iowa vekja ávallt mikla athygli sem fyrsti stóri slagurinn og góð úrslit þar geta gefið frambjóðendum mikilvægan meðbyr inn í kosningabaráttuna.

Algengasta form atkvæðagreiðslu er að kjósandi mætir á kjörstað, skráir atkvæði sitt á atkvæðaseðil og svo er atkvæðinu skilað með því að stinga seðli í kassa. Tæknivæddari aðferðir geta falið í sér kosningatölvur eða rafrænar kosningar. En Iowa búar binda bagga sína öðrum hnútum og notast við aðferð sem hefur kallast „samkoma nágranna.“ Það er munur á útfærslu milli flokkana en hér fylgir nánari lýsing á því hvernig Demókratar haga valinu. Á kjördag safnast þeir saman á tilteknum stöðum s.s. kirkjum, skólum, bókasöfnum eða jafnvel í heimahúsum og gefa svo til kynna hvaða frambjóðanda þeir styðja með því að stilla sér svo upp á tilteknu svæði. Í 30 mínútur reyna þátttakendur síðan að sannfæra nágranna sína um að styðja sinn frambjóðanda. Óákveðnir þátttakendur geta valsað á milli svæða og leyft nágrönnum að sannfæra sig. Eftir þessar 30 mínútur stöðvast allt og gamaldags hausatalning er gerð á hverju svæði. Ef einhver frambjóðandi er með undir 15% þátttakenda þá heltast þeir úr lestinni og þeir þátttakendur sem þar voru þurfa að velja nýjan frambjóðanda. Þetta ferli tekur aðrar 30 mínútur og svo er loka hausatalning. Þær tölur eru svo færðar yfirstjórn Demókrataflokksins í ríkinu sem reiknar út hvaða stuðning hver frambjóðandi hefur fengið og flytur fjölmiðlum fregnirnar.

Þessi fallega aðferð hefur dugað Iowa búum síðan á 19. öld. En svo ákvað einhver í stjórnsýslu Demókrataflokksins að nú væri kominn tími fyrir aðra en geimfara og farsímanotendur með síhækkandi yfirdrátt að njóta tækniframfara undanfarinna áratuga og því skyldi smáforrit nú taka við af gömlu góðu hausatalningunni. En tæknin reyndist svikul eftir allt. Fólk lenti í ýmis konar vandræðum, s.s. með að hala forritinu niður, að skrá sig inn í það, gögn sem bárust úr forritinu stemmdu ekki o.fl. Fyrirtækið Shadow Inc. (gaf nafnið enga vísbendingu?) sem hannaði forritið notaði mögulega prófana-vettvang (e. testing platform) til að deila smáforritinu í stað þess að nota hefðbundnar smáforritaveitur (e. app stores) sem getur valdið vandræðum. Samsæriskenningar eru komnar um að Peter Buttigieg eða fólk honum tengt hafi stutt við fyrirtækið sem hafi á móti tryggt honum góð úrslit og að Hillary Clinton hafi staðið á bakvið allt saman til að leggja stein í götu síns fyrrverandi keppinautar, Bernie Sanders.

„I am not a member of any organized political party. I’m a Democrat,“ sagði Will Rogers á fjórða áratug síðustu aldar. Þessi orð hafa átt vel við undanfarna daga. Það sem átti að vera stökkpallur fyrir sigurstranglegasta forsetaframbjóðanda Demókrata hvarf í vandræðalega bið og deilur, og svo tókst Donald Trump að fanga fjölmiðlaathyglina með því að bauna á Demókrataflokkinn fyrir fúsk, dæla út ásökunum um svindl og að lokum með stefnuræðu sinni á þriðjudagskvöld.

En í stað þess að benda fingri á sökudólga má benda á að einu mistökin í þessu máli voru að hætta að benda fingri og telja hausa.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.