Ekkert eftir nema sjónarspilið

Saga heimsins sýnir því miður að flestir sem fljóta að feigðarósi kjósa að sofa eins lengi og þeir geta á leiðinni.

Auðvelt er að hneykslast á hinni fáránlegu atburðarás í Bandaríkjunum síðustu daga. Sumar af myndunum úr þinghúsinu voru svo fáránlegar að brandarinn um að þetta væri Eurovison atriði hefði alveg getað átt við. Það—eða einhvers konar skemmtiatriði á árshátíð í menntaskóla, hugsanlega MH. En myndskeið sem hafa komið fram í kjölfarið sýna fram á að atubrðirnir voru óhugnanlegri og ógeðslegri en virtist.

Við verðum þessi misserin trekk í trekk vitni að atburðum í heiminum sem fyrir örfáum árum hefðu verið óhugsandi. Kannski náði sú þróun hápunkti þegar stríðsmálaður maður sem kallar sig „shaman fyrir QAnon“ íklæddur bjarnarfeldi og með horn á höfði stóð stutta stund sigri hrósandi inni í þinghúsi Bandaríjanna; líklega haldandi að hann hafi náð einhvers konar völdum. Hann hefur nú verið handtekinn.

Þótt gaurinn með hornin hafi verið einna eftirminnilegastur en hann var sannarlega ekki sá eini sem var klæddur á mjög óhefðbundinn hátt miðað við fullorðna manneskju. Þetta lið sem ruddist með ofbeldi inn í þinghúsið virðist að jafnaði annað hvort fyrir löngu hafa hætt að gera sér grein fyrir að það væri orðið ruglað, eða algjörlega sama um að allir sæju það.

Ýmis konar hættur steðja að heiminum um þessar mundir. Alls konar flókin vandamál hrannast upp og flest af því er þess eðlis að þörf er á yfirvegun, forystu, þekkingu og jafnvel visku. En í Bandaríkjunum, voldugasta ríki veraldar, keppast stjórnmálamenn við að toppa hvern annan í æsingi. Þeir taka nánast allir þátt í sjónarspilsvæðingu stjórnmálanna þar sem innihaldið er aukaatriði, en yfirborðið er aðalatriðið. Helsta valdafólkið í báðum flokkum tekur fullan þátt í sturluninni. Því miður virðist manni sem of margir þeirra fullkomlega tilbúnir til þess að klæða sig upp í bjarnarfeldi og með horn, eða mála sig í framan í fánalitunum, ef þeir teldu það vera það sem þyrfti til þess að eltast við almenningsálitið.

Stærsta vandamálið í bandarískum stjórnmálum og þjóðlífi er ekki endilega að hópur rugludalla hafi verið með dólg og ofbeldi í Washington í nákvæmlega þessari viku. Slíkir hópar geta ætíð myndast, einkum á tímum óvissu og óöryggis. Hið raunverulega vandamál liggur miklu dýpra og hefur verið að gerjast um langa hríð. Kannski hefði dugað að staldra við þegar Sarah Palin var útnefnd varaforsetaefni Johns McCain—en í staðinn fyrir að hafa hugrekki til þess að reyna að snúa við sjónarspilsþróuninni í bandarísku þjóðlífi hafa flestir stjórnmálamenn tekið fullan þátt í atburðarásinni.

Það er ekkert víst að atburðirnir á miðvikudaginn marki nein endalok. Ef þessi hraksmánarlega uppákoma í vikunni vekur ekki bandarískt stjórnmálafólk úr báðum flokkum til umhugsunar um raunverulega forystuábyrgð þá verði hún enn ein viðvörunarbjallann sem ekki var tekin nægilega alvarlega.

Saga heimsins sýnir því miður að flestir sem fljóta að feigðarósi kjósa að sofa eins lengi og þeir geta á leiðinni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.