Ef engin jurt vex í þinni krús

Það er merkilegt með hvaða hætti sumt í lífinu rekur á fjörur manns. Löngu áður en ég las stafkrók eftir nóbelsskáldið hlustaði ég sem smástrákur á ljóðin hans í flutningi og við frumsamin lög Árna Johnsen af plötunni Ég skal vaka.

Það er merkilegt með hvaða hætti sumt í lífinu rekur á fjörur manns. Löngu áður en ég las stafkrók eftir nóbelsskáldið hlustaði ég sem smástrákur á ljóðin hans í flutningi og við frumsamin lög Árna Johnsen af plötunni Ég skal vaka.

Raunar hafði platan verið afrituð á segulband svo hlusta mætti á hana á bílnum á langferðum um landið. Þannig lærði ég ljóð skáldsins smám saman í aftursætinu í reikfylltum Ford Fairmont árgerð 1978, gráum amerískum kagga með rauðum sætum og mahóní í mælaborðinu, oftast á leiðinni milli Akraness og Reykjavíkur, sem í þá daga lá fyrir Hvalfjörð.

Flutningur og túlkun Árna varð í huga mér sem barns óaðskiljanlegur hluti af inntaki ljóðanna. Ég áttaði mig til dæmis ekki á því fyrr en löngu síðar að Maístjarnan var harmþrungið baráttukvæði en ekki léttur og leikandi óður til vorkomunnar.

Síðasta lag á B-hlið plötunnar var hins vegar án aðkomu Árna. Skáldið sjálft las þá upp ljóð sitt Stríðið sem ég lærði af þeim upplestri einum og hef aldrei gleymt síðan. Þetta ljóð, einkum lokaerindi þess, sótti á mig í dag vegna atburða sem ég nenni eiginlega ekki að fara út í en hafa varla farið framhjá neinum skyni gæddum manni sem fylgst hefur með fréttum innanlands á þessum degi sem nú er að kvöldi kominn.

Spurt hef ég tíu milljón manns
séu myrtir í gamni utanlands
sannlega mega þeir súpa hel
ég syrgi þá ekki, fari þeir vel.

Aftur á móti var annað stríð
í einum grjótkletti forðum tíð
og það var allt út af einni jurt
sem óx í skjóli og var slitin burt.

Því er mér síðan stirt um stef
stæri mig lítt af því sem hef
því hvað er auður og afl og hús
ef engin jurt vex í þinni krús.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.