Bólusetja, búið, bless!

Þegar markmið Sameinuðu þjóðanna er að bólusetja fimmtung heimsbyggðarinnar, þá hljómar það svolítið eins og forréttindafrekja að hneykslast yfir því að ekki sé búið að tryggja öllum íslendingum bóluefni fyrir páska. En væntanlega verður þetta þannig, venju samkvæmt. Forréttindaþjóðirnar, þar á meðal við, munu tryggja sér bóluefni fyrir áttatíu prósent íbúanna á meðan þriðjaheimslöndin bólusetja tuttugu.

Déskoti sem það verður næs að klára þessa bólusetningu. Þurfa ekki lengur að kúldrast í kulda og trekki á klakanum. Þekkja þá sem heilsa manni í búðinni. Mega fara á pöbbinn og skreppa á listasýningar án þess að allt verði vitlaust. Toppurinn væri að vera fremst í bólusetningarröðinni og ná að kíkja á Römbluna eða Spænsku þrepin án túristanna. Fara í Louvre og kíkja á Mónu Lísu án þess að þurfa að bíða í röð. 

Það verður auðvitað stórkostlegt þegar hjarðónæmi verður náð með bólusetningu. Foreldrar, ömmur og afar geta hitt barnabörnin. Við getum heimsótt sjúka ættingja og notið samvista hvert við annað, áhyggjulaus. Tala nú ekki um ef þeir fá vinnu aftur, sem misstu. Hjólin fara að snúast aftur á fyrri hraða og keyra okkur upp úr kreppu.

Það er því auðvitað alveg til skammar þegar það er óljóst hvort búið er að tryggja þjóðinni nægt bóluefni. Eða er kannski eitthvað sem vantar í þá umræðu? Er þessi mynd jafneinföld og hún virðist vera í fjölmiðlum? Þeir sem eru með og á móti telja upp samninga og haka við. Hvenær verður prófunum lokið? Hvenær verður markaðsleyfi gefið út? Ofan á sérþekkingu þjóðarinnar í smitsjúkdómum höfum við nú orðið okkur úti um doktorsgráður í lógistík og lyfsölu.

Það er gott og vel ef tekst að bólusetja íslensku þjóðina. En slagurinn er ekki búinn þá. Það er eins og þríeykið hefur sagt: Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið allsstaðar! Út frá algerlega sjálfmiðuðu sjónarmiði nægir að benda á að bóluefnin veita á bilinu 70 til 95% vörn og yngsta kynslóðin verður ekki bólusett – a.m.k. ekki strax. Ekki er vitað hve bóluefnin virka lengi. Bólusetning á Íslandi er því skammgóður vermir.

Á þessum tímapunkti er áætlað að hægt verði að útvega um þriðjungi jarðarbúa COVID-bóluefni fyrir árslok 2021 og það taki í það minnsta tvö ár að útvega nægt bóluefni fyrir alla. Það er því ágætt að hugsa um hvernig við viljum standa að kapphlaupinu. Nú er talið að Kanada standi þjóða fremst með því að tryggja sér 8 skammta á hvern íbúa, sem dugar til að bólusetja þjóðina fjórum sinnum.

COVAX er átak á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) til að tryggja sem hraðasta og jafnasta dreifingu á COVID-bóluefnum. Þegar þetta er skrifað eru aðilar að átakinu 92 þjóðir, sem eru skilgreindar sem ríkari og 98, sem eru skilgreindar fátækari. Átakið hefur safnað 2 milljörðum bandaríkjadala á árinu 2020 og þarf um 5 til viðbótar árið 2021 til að ná markmiði sínu um að bólusetja 20% jarðarbúa fyrir árslok 2021. Líklegt er að þjóðir á borð við Kanada og Noreg, sem virðast vera að hamstra bóluefni, muni með einhverjum hætti framselja umframbirgðir sínar til COVAX. Báðar þjóðirnar hafa í það minnsta veitt fjárstuðningi til átaksins. Það er þó umhugsunarefni hvort þjóðir eiga að hamstra bóluefni og hvaða pólitísku völd það getur fært þeim.

Þegar markmið Sameinuðu þjóðanna er að bólusetja fimmtung heimsbyggðarinnar, þá hljómar það svolítið eins og forréttindafrekja að hneykslast yfir því að ekki sé búið að tryggja öllum íslendingum bóluefni fyrir páska. En væntanlega verður þetta þannig, venju samkvæmt. Forréttindaþjóðirnar, þar á meðal við, munu tryggja sér bóluefni fyrir áttatíu prósent íbúanna á meðan þriðjaheimslöndin bólusetja tuttugu.

Í lok nóvember kom fram í skýrslu WHO að í Afríku voru 117 þekkt tilfelli af smitsjúkdómum (infectious disease) og 106 tilfelli af farsóttum (outbreak) auk 13 skilgreind tilvik af mannúðarneyð. Af þessum tilfellum eru innan við 50 vegna COVID. Mislingar, gula, hitasóttir, kólera, ebóla, flóð og stríð eru meðal áskoranna sem þessar þjóðir eiga við samhliða COVID.

Þótt mörgum Afríkuþjóðum – og eflaust ýmsum öðrum þriðja heims þjóðum – hafi tekist vel upp í sóttvörnum og prófunum, getum við ekki horfti til þess að það bara reddist hjá þeim. Við verðum að vera virkir þátttakendur í samfélagi manna. Horfa upp úr eigin nafla, út úr jólakúlunni okkar. Þetta er hvergi búið fyrr en það er búið alls staðar. 

Heimild: Vikuleg skýrsla WHO um smitsjúkdóma í Afríku
Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)