Baráttan við langtímaatvinnuleysi

Gríðarleg aukning atvinnuleysis er helsta efnahagslega birtingarmynd Covid-19 faraldursins á Íslandi og víðar. Faraldurinn hefur leikið margar atvinnugreinar grátt en þó ferðaþjónustuna sýnu verst. Ferðaþjónustan er mannaflsfrek en í ársbyrjun störfuðu 23.500 í einkennandi atvinnugreinum ferðaþjónustutengdum skv. upplýsingum Hagstofunnar. Til samanburðar var fjöldinn 13.900 í ársbyrjun 2013. 

Því varð snemma ljóst þegar landinu var svo gott sem lokað, að gríðarleg aukning atvinnuleysis væri framundan. Fjöldi atvinnuleitenda í lok júlí mánaðar var rúmlega 17.000 en var rúmlega 7.000 í sama mánuði 2019. Höggið er þyngra á vissum landssvæðum en öðrum, en sem dæmi þá fjölgaði atvinnuleitendum á Suðurnesjum úr rúmlega 500 í júlí 2019 í rúmlega 1.400 árið eftir, enda ferðaþjónustan hvergi eins stór þáttur atvinnulífsins og á því svæði. Hópur þeirra sem eru í hinni svokölluðu hlutabótaleið teljast ekki með í þessum tölum.

Atvinnuleysi er meinsemd fyrir samfélagið sem og atvinnuleitendur. Langvarandi atvinnuleysi kostar samfélagið mikla fjármuni og getur haft mikil áhrif til hins verra þegar kemur að heilsu fólks, líkamlegri sem og andlegri. Það eru því mikil samfélagsleg verðmæti fólgin í því að sporna við langtímaatvinnuleysi. Í júlí 2019 voru 1.300 einstaklingar sem höfðu verið atvinnulausir í heilt ár eða lengur, sá hópur taldi 2.850 í júlí 2020. 

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands skrifaði góða grein í fréttablaðið 2. september sl. þar sem hann fjallar m.a um hvernig hlutfall launakostnaðar fyrirtækja af verðmætasköpun hefur aukist síðustu ár, og bendir réttilega á að við núverandi efnahagsástand er lítið bolmagn hjá fyrirtækjum til að ráða inn til sín nýtt starfsfólk án einhvers konar ráðningarhvata. Slíkir hvatar myndi auka möguleika fyrirtækja að vaxa og dafna, hraðar en ella. 

Það má því segja að í þessu efnahagsástandi sem við búum við í dag, fari hagsmunir fyrirtækja og atvinnuleitenda saman. Ef upphafskostnaður ráðninga starfsmanna lækkar hjá fyrirtækjum eru þau líklegri til þess að ráða nýja starfsmenn og að sama skapi mun það draga úr fjölda atvinnulausra. Þessi útfærsla kallar ekki á aukningu á útgjöldum ríkisins, heldur beinir útgjöldunum í frjórri farveg.

Þessi útfærsla var farin eftir bankahrunið með góðum árangri og hefur Vinnumálastofun síðan boðið fyrirtækjum að ráða atvinnuleitendur með styrk. Ráðningarstyrknum er ætlað að auðvelda atvinnurekendum að ráða nýtt starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Í því úrræði getur atvinnurekandi fengið 100% grunnatvinnuleysisbætur ásamt 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði. Atvinnurekandi fær því allt að 322.804 kr. styrk á mánuði, fjárhæð sem ella hefði verið greidd í atvinnuleysisbætur og hinn nýji starfsmaður finnur kröftum sínum viðnám.  

Umrætt úrræði er mjög áhrifaríkt í baráttunni gegn langtímaatvinnuleysi. En á bilinu 70-80% þeirra sem fara í nýtt starf á þessum grundvelli eru ekki á atvinnuleysisskrá þremur mánuðum eftir að ráðningastyrk lýkur. Því má áætla að ef atvinnurekendur telja þessa leið sér hagstæða muni það hjálpa til við uppbyggingu íslensks vinnumarkaðar sem verður að öllum líkindum kröftug þegar birtir til í Covid heimi.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.