Baráttan fyrir heilbrigðu legi

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hversu illa til tókst að færa skimanir fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélaginu yfir til heilsugæslunnar. Leita þarf lengi að öðrum eins mistökum. Við höfum líklegast öll lesið fréttir af 2000 sýnum í pappakassa og einhverjar okkar hafa hugsað „vá hvað ég er fegin að þetta var ekki ég“. En við þekkjum öll einhverja sem var í þessu kassa, og því er það mál okkar allra að hægt verði að greina þessi sýni sem allra, allra fyrst og ef hið sorglega gerist að sýni sé jákvætt fyrir frumubreytingum að við séum ekki of sein að greina.

Heilbrigðisráðherra hefur verið í einhverskonar herferð gegn því að fleiri aðilar en Landsspítalinn og Heilsugæslan sjái um einhvers konar heilbrigðisþjónustu, það er hennar pólitíska sýn og virðist vera að samstarfsflokkar hennar í ríkisstjórn geri ekkert til þess að minna hana á að það eru ekki allir sem veita heilbrigðisþjónustu að reyna að græða á tá og fingri, þau eru bara að reyna að lækna fólk. Krabbameinsfélagið leiddi hér baráttu um það fyrir áratugum síðan að greina konur fyrr og hefur það heldur betur náð góðum árangri og ég og kynsystur mínar þökkum þeim fyrir. Krabbameinsfélagið er ekki vonda einkarekna kerfið sem við sjáum í Bandaríkjunum, hér er engum neitað þjónustu.

En heilbrigðisráðherra og þar að leiðandi ríkisstjórnin ákvað að færa þessa þjónustu, var þá til of mikils ætlast að það væri vel undirbúið, þannig að þessi flutningur verkefna myndi skapa traust í samfélaginu? Þegar þú veist að eftir 12 mánuði þarft þú að sjá um að greina x mörg sýni á dag að þú farir í það verkefni að semja við þann sem á að greina. Að svörin við því hvort kvensjúkdómalæknirinn megi taka sýnið og hvert hann eigi að senda það til greiningar sé til kannski einhverjum mánuðum fyrir breytingar?

Staðreyndin er sú að ekkert af þessu var tilbúið og í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag kenndi heilbrigðisráðherra nánast Krabbameinsfélaginu um að þessi 2000 sýni voru ekki greind. Þegar það lá fyrir og til eru bréfaskrif um það að Krabbameinsfélagið gæti ekki klárað að greina þessi sýni því þau voru ekki lengur með samning við Sjúkratryggingar Íslands, þau gátu því ekki greitt sínu starfsfólki laun.

Lykilatriðið þegar horft er fram á veginn er að hér skapist traust og að konur geti treyst því að ef þær fara í skimun þá sé það afgreitt fljótt og örugglega. Ég hef töluverðar áhyggjur að þessi risavöxnu mistök muni gera það að verkum að færri konur fari í skimanir með augljósum afleiðingum og hver var þá sigur ráðherra? Við verðum að passa upp á heilbrigði lega þessa lands.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.