Annað og meira en fótboltaleikur

Hann var ekki sérlega merkilegur fótboltinn sem Skotar og Englendingar léku á þjóðarleikvangi hinna síðarnefndu í kvöld þegar þjóðirnar mættust á Evrópumótinu í fótbolta. Miklu merkilegri er saga þessara þjóða þegar knattspyrnan er annars vegar og hvernig aldagamlar erjur þeirra voru beinlínis upptaktur fyrir leikinn.

Hann var ekki sérlega merkilegur fótboltinn sem Skotar og Englendingar léku á þjóðarleikvangi hinna síðarnefndu í kvöld þegar þjóðirnar mættust á Evrópumótinu í fótbolta. Miklu merkilegri er saga þessara þjóða þegar knattspyrnan er annars vegar og hvernig aldagamlar erjur þeirra voru beinlínis upptaktur fyrir leikinn.

Skotar og Englendingar mættust einmitt í fyrsta opinbera landsleiknum í knattspyrnu, eins og sérfræðingar og lýsendur rifjuðu reglulega upp í útsendingunni í kvöld. Sá leikur fór fram hinn 30. nóvember 1872 á krikketvellinum í Hamilton Crescent vestur af Glasgow í Skotlandi. Merkilegt nokk lyktaði leiknum með markalausu jafntefli, rétt eins og á Wembley í kvöld.

Það sem hinum sömu sérfræðingum og lýsendum yfirsást kannski og hefði mögulega aukið enn á hina dramatísku lýsingu á sögulegri þýðingu viðureignarinnar var að benda áhorfendum á að fylgjast sérstaklega með þjóðsöngum ríkjanna sem venju samkvæmt voru leiknir áður en flautað var til leiks og báðum tilvikum kyrjaðir bæði af stuðningsmönnum og leikmönnum liðanna.

Það er ekki oft sem þjóðir mætast á knattspyrnuvellinum þar sem þjóðsöngvarnir beinlínis tala hvor til hins með sögulegum skírskotunum og undirstrika aldagamla baráttu þeirra þjóða sem eigast við. Ólíkt hinum íslenska er í þessum tveimur söngvum fátt um óræðar myndlíkingar eða hálfkveðnar vísur.

Í kvöld riðu Skotar á vaðið með sitt tæra og hreina ættjarðarljóð:

O Flower of Scotland
When will we see your like again?
That fought and died for
Your wee bit Hill and Glen
And stood against him
Proud Edward’s Army
And sent him homeward tae think again

Those days are past now
And in the past they must remain
But we can still rise now
And be the nation again
That stood against him
Proud Edward’s Army
And sent him homeward tae think again

Ekki á að þurfa mikla söguþekkingu til að átta sig á því að ljóðið fjallar um sjálfstæðisbaráttu Skota gegn Englendingum. Edward sá sem vísað er til er enginn annar en Játvarður fyrsti, skankalangi og Skotasleggja, og þeir atburðir sem um er fjallað hinir sömu og Mel Gibson færði okkar kynslóðum á hvíta tjaldinu í kvikmyndinni Bravehart.

Andspænis þessum innblásna baráttusöng fylgdi á eftir hinn betur þekkti þjóðsöngur Bretlands, sem Englendingar brúka sem sinn, vitaskuld. Þar kveður við annan tón.

God save our gracious Queen!
Long live our noble Queen!
God save The Queen!
Send her victorious
Happy and glorious
Long to reign over us
God save the Queen!

Sjálfstæðisbarátta Skota stendur enn yfir, rúmum sjö hundruð árum eftir að William Wallace og Játvarður skankalangi leiddu saman hesta sína. Það er svo önnur saga hvernig á því stendur að þjóðir sem ekki teljast sjálfstæðar, þ.e. Skotar, Walesverjar og Norður-Írar, og auðvitað Englendingar ef því er að skipta, eru gjaldgengar í alþjóðlegum knattspyrnumótum. Ef allt væri eðlilegt tefldi konungsríkið fram einu liði en það hefur auðvitað sína kosti að hafa fundið upp fótboltann.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.