Að kasta flugu í straumvatn er að tala við Guð

Af öllu því sem Bubbi Morthens hefur samið eða sagt á ferli sem nú spannar fjóra áratugi þá er fátt betra en þessi titill á bók sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Það er ekki hlaupið að því að útskýra þetta fyrir þeim sem ekki þekkja til, ekki þekkja þess tilfinningu.

Af öllu því sem Bubbi Morthens hefur samið eða sagt á ferli sem nú spannar fjóra áratugi þá er fátt betra en þessi titill á bók sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum. Það er ekki hlaupið að því að útskýra þetta fyrir þeim sem ekki þekkja til, ekki þekkja þess tilfinningu.

Fyrir ekki mjög mörgum árum var ég við veiðar í Elliðaánum ásamt Valdimar vini mínum. Þetta var við Hundasteina, gjöfulan veiðistað ofarlega í ánni, við göngubrú sem tengir Árbæinn og Breiðholtið saman. Degi var tekið að halla, ég veiddi frá vesturbakkanum og kvöldsólin varpaði skugga á vatnsflötinn.

Þar sem ég stend og kasta flugunni í strenginn sé ég út undan mér hvar manneskja kemur gangandi að mér í rólegheitum. Ég leit við og sá að þetta var ung og ansi hreint hugguleg kona. Hún staðnæmdist skammt frá mér, utan gönguleiðarinnar, og fylgdist með mér kasta flugunni.

Ég færðist vitaskuld aðeins í aukana, lengdi soldið í köstunum og reyndi að leggja línuna tignarlega í strauminn. Eftir smá stund gekk unga konan nær mér og spurði mig hvort ég væri góður að veiða. Ég sagði að ég væri alla vega góður að reyna. Síðan ræddum við eitt og annað sem tengdist veiði á meðan ég hélt áfram á kasta flugunni.

Mér varð ljóst að unga konan var ekki eins og fólk er flest. Hún sagði hluti sem fólk segir ekki lengur. Síðan þagnaði hún og fylgdist áfram með, þar sem hún stóð við hliðina á mér. Þetta var ein af þessum stundum, birtan og áin, flugulínan í loftinu og í straumnum á víxl.

Skyndilega leit hún á mig og spurði:

– Hefurðu talað við Guð?

Og ég svaraði án þess að hugsa mig um:

– Ég er að því.

Hún leit á mig og brosti, gekk svo sína leið eftir göngustígnum frá ánni.

Valdimar vini mínum hefur oft fundist ég vera á útjaðri veruleikans en aldrei eins og þegar hann snéri til baka úr sjoppuferðinni og ég sagði honum söguna af ungu konunni sem hafði heimsótt mig við árbakkann.

En svona var þetta nú samt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.