Af hreimnum skulið þið þekkja þá

sdfdÁ þessum góðviðrisdegi er komið víða við í helgarnestinu enda hafa fréttir vikunnar verið uppfullar af skemmtilegum atburðum og vandræðalegum augnablikum sem helgarnestið hefur sankað að sér af mikilli samviskusemi

Frá vinstri: Frú Linda Walker eftir heilablóðfallið. Það er óneitanlega nokkur svipur með henni og Bob Marley.

Lífið er uppfullt skemmtilegum tilviljunum og óheppilegum andartökum. Það skemmtilegasta við framrás hlutanna er auðvitað sú staðreynd að einstaka sinnum lendir maður í eða les um óhöpp annarra sem eru svo súrrealísk að mann sundlar eiginlega við tilhugsunina og skellir ósjálfrátt uppúr. Það þarf oft ekki mikið til að lyfta manni upp frá gráma hversdagsleikans og oftar en ekki leika þau systkin óheppni og klaufaskapur stóra rullu í slíkum viðburðum.

Óheppni ríður ekki við einteyming. Það skal fúslega viðurkennt eins og frú Lynda Walker frá norðaustur-Englandi fékk að reyna á dögunum. Eins og sönnun Englendingi var frú Walker bara að rölta út í kjörbúð dag einn – eflaust til að kaupa efnivið í Yorkshire-búðing eða aðrar krásir enskrar matargerðarlistar – þegar hún hrasar skyndilega og fellur í götuna.

Hér hefði flestum sögum lokið, en eins og frú Linda Walker fékk að reyna – þá er það einfaldlega rangt að það skipti ekki máli hversu oft maður hrasar, svo lengi sem maður standi í fætur á nýjan leik. Í fallinu fékk frú Walker heilablóðfall sem getur verið mjög pirrandi. En það sem meira er: þegar hún rankaði við sér talaði hún með svo sterkum Jamaískum hreim að Bob Marley hefði komið illa út í samanburði við hana.

Kunnugir segja að frú Linda þjáist af heilkenni sem kennt er við erlendan hreim (e. foreign accent syndrome), en frú Walker talaði alla sína ævi með Geordie-hreim.

Walker hefur látið hafa það eftir sér að atvikið hafi orðið til þess að hún fljúgi blindflug í samskiptum við annað fólk enda hafi hún glatað stórum hluta úr handriti lífsins. Sennilega eru áhrifin djúpstæðari enda virðist leikmanni sem hún hafi tapað handritinu, aðalleikaranum, leikstjóranum, framleiðandum, ljósamanninum og kvikmyndatökumanninum.

Haha, ég sé kerlingarsniftið alveg ljóslifandi fyrir mér – eða ættingja hennar: Öðruvísi þeim áður brá!

Atvik frú Walker hlýtur að vekja fleiri spurningar en það svarar. Fyrir það fyrsta er óhugnalegt til þess að vita hvernig heilinn getur leikið menn grátt án nokkurs fyrirvara. Að sama skapi er þetta sennilega fyndnasta atvik sem ég hef nokkru heyrt um.

Nema auðvitað ef menn undanskilja þær fréttir að Ice-T hafi ákveðið að framleiða rappplötu hvar David Hasselhoff þenur raddböndin. Já, hinn eini sanni – ef einhverjir velktust í vafa. Í kringum útgáfu Hasselhoffs hefur vefsíðu verið hleypt af stokkunum sem ætlað er að styðja við útgáfuna á rappplötu hans.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum. En fyrst David Hasselhoff á möguleika á því að ná efsta sæti breska vinsældarlistans með nýju rapplagi er kannski ekki seinna vænna fyrir frú Walker að láta setja fléttulokka í hárið, vefja jónu og byrsta röddina í taktfastri hrynjandi:

“No woman no cry.”

Plata frú Walker kemur í verslanir eftir helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)