Hækkum persónuafsláttinn

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar um 15% skattþrep og breytingar á eftirlaunakerfi þingmanna og ráðherra eru óraunhæfar og óskynsamlegar. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkun persónuafsláttarins eru mun skynsamlegri. En ríkisstjórnin á að vera mun rausnarlegri en fréttir herma að hún hafi verið fram að þessu.

Nokkur óvissa ríkir um þessar mundir um kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkisstjórnin liðki fyrir framlengingu þeirra með því að gera breytingar á skattkerfinu. Hún hefur sett fram kröfu um 15% skattþrep á tekjur undir 150 þúsund og vill þar að auki að breytingar verði gerðar á eftirlaunakerfi þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna. Ríkisstjórnin er sögð hafa boðið hækkun á persónuafslættinum sem að mestu væri verðlagsuppfærsla. Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar segjast svartsýnir á lausn.

Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eru óraunhæfar og að hluta óskynsamlegar. Það er vel þess virði að veita þingmönnum og ráðherrum góð eftirlaun til þess að þeir sækist síður í alls kyns stöður hjá hinu opinbera á sínum efri árum.

Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um hækkun persónuafsláttarins eru mun skynsamlegri. Ríkisstjórnin á hins vegar að vera mun rausnarlegri en fréttir herma að hún hafi verið fram að þessu. Á undanförnum árum hafa nánast allar breytingar á skattkerfinu gagnast þeim tekju- og eignahæstu í samfélaginu mest. Eignaskattur hefur verið afnuminn. Hátekjuskattur hefur verið afnuminn. Stærstur hluti skattalækkana síðustu 15 ára hafa verið í formi lægri skattprósentu. Þetta hefur haft þau jákvæðu áhrif að jaðarskattar hafa lækkað mikið. En á móti kemur að hlutur þeirra tekjulægstu í heildarskattbyrðinni hefur hækkar talsvert.

Geir Haarde lýsti því yfir í ræðu sinni á 17. júní að það væri hlutverk stjórnmálamanna að vaka yfir hag og velferð þeirra sem lakar eru settir en aðrir. Við þetta bætti hann: “Það mun mín ríkisstjórn gera.” Nú hefur Geir tækifæri til þess að sanna að þessi orð voru meira en bara falleg yfirlýsing á hátíðisdegi. Það væri ánægjulegt ef ríkisstjórnin setti fram rausnarlegar tillögur um hækkun persónuafsláttarins.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.