Svartur blettur á íslenskri íþróttasögu

Fordómar í íþróttum hafa alltaf verið til staðar, því miður, það gerir þá hins vegar ekki ásættanlega. Hingað til hefur umræðan hérlendis þó aðallega verið bundin við útlönd og við á litla saklausa Íslandi talið okkur laus við svona fáfræði hjá unnendum íþróttanna. Þessi umræða hefur hingað til aðallega verið bundin við útlönd, þá aðallega England, Spán og Ítalíu þó önnur lönd hafi vissulega komið við sögu.

Í gærkveldi fór undirritaður á knattspyrnuleik í Landsbankadeild karla, úrvalsdeildinni á Íslandi, og varð fyrir miklum vonbrigðum. Leikurinn sem um ræðir var leikur FH og ÍBV á Kaplakrikavelli. Það sem fór fyrir brjóstið á undirrituðum voru fordómar sem hluti stuðningsmanna FH-inga, svokölluð Mafía, sýndu í garð einstaklings af öðrum litarhætti en okkar í liði ÍBV, þ.e. leikmaðurinn var dökkur á hörund. Þó þessi “hróp” eða “framíköll” í leiknum hafi ekki verið almenn eða algeng meðal stuðningsmanna FH voru þau mjög greinileg og komu reglulega.

Tekið skal fram að undirritaður er stuðningsmaður FH-inga og hefur verið það alla tíð þó þátttaka hans í Mafíunni sé tiltölulega ný af nálinni. Undirritaður getur heldur ekki verið óánægður með úrslit leiksins þar sem FH-ingar unnu leikinn 3–1 eftir að hafa lent marki undir eftir innan við einnar mínútu leik og náðu í kjölfarið 7 stiga forustu á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Kynþáttafordómar í íslenskri fótboltasögu eru frekar nýjir af nálinni, það þýðir hins vegar ekki að þeir hafi ekki verið til staðar. Kynþáttafordómar á Íslandi hafa, því miður, alltaf verið til staðar. Ástæðan fyrir auknum kynþáttafordómum í íslenskri knattspyrnu eru mjög líklega tilkomin með aukinni þátttöku útlendinga í íslenskri knattspyrnu, óháð þjóðerni eða litarhætti. Útlendingar, svo ekki sé talað um einstaklinga af öðrum litarhætti en okkar, hafa þangað til nýlega ekki verið algengir í íslenskri knattspyrnu. Einhverjir myndu því segja að eðlilegt væri að fordóma hefðu því aukist samfara því en fordómar eru aldrei ásættanlegir!

FIFA og UEFA, stærstu Alþjóða samtök í knattspyrnunni hafa árum saman barist gegn kynþáttafordómum í íþróttinni. Þó rót vandans sé að finna hjá þjóðum eða hópunum sjálfum hafa samtökin áttað sig á þörfinni til að taka á þessum vanda skipulega og alþjóðlega. Til þess hafa samtökin aðallega notað auglýsingar, svokallaðar “FIFA fair play” og “Leikur án fordóma” auglýsingaherferðir, sem m.a. eiga að berjast gegn kynþáttafordómum. Í þessum auglýsingum fá samtökin m.a. fræga leikmenn til að berjast gegn kynþáttafordómum. Samtökin hafa ásamt ímyndarherferðinni sektað þau knattspyrnufélög þar sem stuðningsmennirnir gerast sekir um kynþáttafordóma. Þessar sektir hafa verið allt frá peningasektum til heimaleikjabanns eða að liðið þurfi að leika heimaleiki sína fyrir luktum dyrum. Þær raddir gerast þó æ háværari að sektirnar sem samtökin beita félögin séu ekki nógu háar eða þungar. Margir telja meira að segja að fordómar í íþróttinni hafi aukist á undanförnum árum, þó erfitt sé að fullyrða um slíkt.

Það yrði veruleg synd ef knattspyrnuyfirvöld á Íslandi þyrftu að grípa til róttækra aðgerða vegna kynþáttafordóma á íslenskum knattspyrnuvöllum. Róttækar aðgerðir fælu þá í sér t.d. fjársektir, heimaleikjabann eða að félög þyrftu að leika heimaleiki fyrir luktum dyrum.Slíkar aðgerðir koma einungis niður á unnendum íþróttarinnar.

Við ættum því öll að taka okkur á og uppræta þetta vandamál áður en það nær fótfestu í knattspyrnumenningu þjóðarinnar.

Latest posts by Jóhannes Runólfsson (see all)