Að hætta með góðu eða illu

Stjórnmálamenn hætta iðulega annað hvort með góðu eða með illu. Þessar tvær leiðir fléttast svo stundum saman þegar ákvörðun um að hætta er tekin af ótta við að ná ekki kjöri. Það er eðlilegt að stjórnmálamenn kjósa að hætta þegar þeir meta stöðu sína þannig að þeir njóti ekki lengur fylgis til að ná endurkjöri. Halldór Ásgrímsson hefur metið stöðu sína rétt. En hvernig maðurinn fer að því að hætta er með ólíkindum. Hvernig í ósköpunum er hægt að klúðra jafn einföldum hlut og hætta í stjórnmálum?

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tók af skarið í gærkvöldi og tilkynnti að hann myndi hætta sem forsætisráðherra og sem formaður Framsóknarflokksins í haust á flokksþingi. Brotthvarf Halldórs úr ríkisstjórn eru mikil tíðindi. Vel er á því að stærsti flokkur landsins fari aftur með forystu í ríkisstjórn. Eðlilega mæltist það ekki vel fyrir að formaður eins minnsta flokks landsins gegndi embætti forsætisráðherra.

Ætli Machiavelli gæfi Halldóri góða einkunn fyrir stjórnkænsku?

Þegar Halldór tilkynnti loks formlega að hann væri að hætta höfðu liðið þrír sólarhringar frá því að staðfestar fregnir bárust af því að hann væri á leið út úr pólitík. Hvað var maðurinn eiginlega að gera þessa þrjá daga? Það er óskiljanlegt af hverju Halldór boðaði ekki strax til blaðamannafundar um leið og hann var búinn að taka ákvörðun um að hætta. Þess í stað lak fregnin út og furðulegur orðrómur, um að Finnur Ingólfsson myndi taka við, fór af stað. Þar sem þetta mál varðar Framsóknarflokkinn fór auðvitað allt í háa loft og framsóknarmenn um land allt fóru að álykta hingað og þangað um næsta formann. Maður sem ákvað að hætta m.a. vegna óánægju eigin flokksmanna og sundrungar innan flokksins, tókst á furðulegan hátt að gera flokksmenn óánægða með brotthvarfi sínu og jók á sundrung meðal þeirra við það að hætta. Það er pólitískt afrek í sjálfu sér.

Þetta er eitthvað svo dæmigert fyrir stjórnunarstíl Halldórs. Alltaf örlítið hikandi og of meðvitaður um almenningsálitið. Ofan á það fá svo sögusagnir um þröngan og lokaðan valdakjarna í kringum Halldór byr undir báða vængi þegar staðfest er að leitað hafi verið til Finns um að hella sér aftur út í pólitík og gefa væntanlega kost á sér til formanns. Líklegt má þykja að Halldór hafi ákveðið að hætta við að hætta alveg strax sem formaður fyrst flokksmenn voru ekki að taka Finni opnum örmum. Jafnframt er það athyglisvert að Halldór virðist ekki treysta Guðna Ágústsyni til að taka við formannsembættinu. Niðurstaðan er því sú að Halldór hættir strax sem forsætisráðherra, hættir sem formaður Framsóknarflokksins í haust en vill ekki gefa út hvenær hann hættir þingmennsku. Hættur en svona samt ekki alveg því hann vill hafa áhrif á hver verður arftaki sinn. Vandræðalegri geta þessi leiðarlok Halldórs í stjórnmálum ekki verið.

Davíð Oddsson hætti með stæl. Tilkynnti brotthvarf sitt, hætti og málið úr sögunni. Ekkert vesen og engin óvissa um eftirmann. Enginn neyddi Davíð til að hætta. Hvað svo sem segja má um Davíð Oddson þá var hann alltaf skrefinu á undan öðrum og lent því ekki í þeirri stöðu Halldór Ásgrímsson er í nú; Óvinsæll og neyddur af almenningsálitinu og flokkmönnum til að segja af sér. Það er alltaf vandræðalegt þegar stjórnmálamenn þekkja ekki sinn vitjunartíma.
Það er Halldóri til tekna að hafa skynjað það að hann þyrfti að hætta, hann var bara aðeins of lengi að komst að þeirri niðurstöðu og sú ákvörðun að hætta er illa framkvæmd.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.