Fyll’ann?

Eldneytisverð stendur nú í sögulegu hámarki og virðist sem hækkanir á heimsmarkaðsverði ætli engan endi að taka. Ljóst er að þessar hækkanir eru komnar til að vera og munu því líklega tekjur ríkisins af eldsneyti halda áfram að hækka. Þessa tekjuaukningu vegna eldneytishækkana ætti ekki að nota til beinna niðurgreiðslna á eldsneytisverði heldur er nær að nota þá fjármuni til að hvetja fólk til minni bensíneyðslu.

Eldneytisverð stendur nú í sögulegu hámarki og virðist sem hækkanir á heimsmarkaðsverði ætli engan endi að taka. Fréttatilkynningar birtast okkur í fjölmiðlum um boðaðar verðhækkanir og svitinn tekur að spretta á enninu þegar við rennum í hlað á bensínstöðvunum. Hvað ætli tankurinn kosti í dag?

Verðhækkanir á olíu má meðal annars rekja til spennuástands í heimshlutum þar sem olíuframleiðsla er hvað mikilvægust. Einnig hefur aukin eftirspurn á heimsvísu eftir eldsneyti orsakað hækkanir. Verðlagning eldsneytis á Íslandi tekur mið af heimsmarkaðsverði og hækkar í samræmi við það. En verðlag á eldsneyti er einnig hátt vegna skattlagningar ríkisins.

Ríkið leggur sérstakan skatt á bensín og olíu og er skattlagning á bensíni með þeim hætti að á verð eldsneytis leggjast vörugjöld og bensín- og olíugjöld. Við bætist síðan 24,5% virðisaukaskattur. Eftir að skattar og gjöld hafa verið lögð ofan á eldneytisverð við komuna til landsins fer 60% af verði hvers bensínlítra í skatta, þ.e. almennt vörugjald, sérstakt vörugjald (bensíngjald) og virðisaukaskatt.

Í mörgum löndum er bensín meðal þess sem hvað mest er skattlagt í hagkerfinu. Slík skattlagning hefur verið réttlætt með því að skattur á bensín er grænn-skattur en slíkum skatti er ætlað að leiðrétta aðgerðir sem fela í sér neikvæð ytri áhrif. Grænn-skattur á bensín hefur það að markmiði að leiðrétta neikvæð ytri áhrif sem hljótast af akstri. Bensínskatti er þó einnig ætlað að standa undir framkvæmdum og viðgerðum á vegakerfi landsins auk þess sem bensínskattur hefur einnig verið mikilvægur liður í almennri fjáröflun ríkissjóðs og í dag má rekja um 12% af tekjum ríkissjóðs til gjalda og skatta af ökutækjum.

Þrátt fyrir að skatti á olíu hafi verið breytt árið 1999 í fasta krónutölu eru tekjur ríkissjóðs af hverjum bensínlítra hlutfallslegar vegna innheimtu virðisaukaskatts. Þannig hagnast ríkissjóður því meira sem innkaupsverðið er hærra. Samkvæmt upplýsingum frá FÍB stefnir verðþróun á heimsmarkaði frá áramótum í að tekjuaukning ríkissjóðs af virðisaukaskatti á eldsneyti verði hátt í 500 milljónir króna miðað við eitt ár og eldsneytisútgjöld almennings í landinu vaxi um tvo milljarða. Þannig er um að ræða verulega útgjaldaaukningu fyrir íslensk heimili auk þess sem verðhækkanir á bensíni hafa mikil áhrif á vísitöluna og þar með verðbólguna.

FÍB hefur bent á að á þessu ári verður einungis varið 13 milljörðum kr. til vegagerðar af 40 milljarða kr. heildartekjum ríkisins af bílasköttum. Þýðir það að einungis 32,5% af skatttekjum ríkissjóðs af bensíngjöldum er notuð til uppbyggingar vegakerfisins. Ljóst er að þeir fjármunir sem eftir standa má nýta til ýmissa góðra verka.

Ljóst er að verðhækkanir á eldsneyti eru komnar til að vera og munu því líklega tekjur ríkisins af eldsneyti halda áfram að hækka. Þessa tekjuaukningu vegna eldneytishækkana ætti ekki að nota til beinna niðurgreiðslna á eldsneytisverði heldur er nær að nota þá fjármuni til að hvetja fólk til minni bensíneyðslu. Dísilbílar eyða mun minna eldsneyti en hefðbundnir bensínbílar. Slíkir bílar eru þó töluvert dýrari í innkaupum en bensínbílar og er munurinn á nýjum smábílum oft um 300.000 krónum. Því væri kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórnina að lækka skatta á dísilbíla þannig að innkaupsverð verði sambærilegt við bensínbíla. Slík skattalækkun væri í fullu samræmi við markmið grænna skatta. Þannig má lækka eldsneytiskostnað heimilanna á umhverfisvænan hátt.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.