Rasisti eða bara kjáni?

Fyrrverandi þingmaður Borgarflokksins, Ásgeir Hannes Eiríksson lét framkvæma fyrir sig könnun um umfang rasisma á Íslandi. Þessa könnun hyggst hann nota til að láta einhvern stofna fyrir sig einhvers konar íslenskan þjóðernisflokk. Ásgeir kynnti hugmyndir sínar í Kastljósinu seinasta miðvikudag.

Fyrrverandi þingmaður Borgarflokksins, Ásgeir Hannes Eiríksson lét framkvæma fyrir sig könnun um umfang rasisma á Íslandi. Þessa könnun hyggst hann nota til að láta einhvern stofna fyrir sig einhvers konar íslenskan þjóðernisflokk. Ásgeir kynnti hugmyndir sínar í Kastljósinu seinasta miðvikudag.

Þeir sem þekkja til skrifa okkar hér á Deiglunni vita að við höfum mestu óbeit á málflutningi eins og þeim sem Ásgeir kynnti í umræddum þætti. Það er agalegt að sú hugmyndafræði að ein mannvera sé annarri æðri vegna uppruna eða fæðingarstaðar njóti enn fylgis meðal fólks sérstaklega í ljósi þess hve hræðilegar afleiðingar hennar hafa verið.

En lítum á nokkur textabrot úr áðurnefndu viðtali. Reyndar var Ásgeir ekki sá eini sem átti vondan dag enda voru spyrjendur þáttarins frekar slappir og spurningar þeirra bitlausar. Einum þeirra tókst meira að segja (vonandi óvart) að líkja væntanlegum straumi útlendinga til landsins við fuglaflensufaraldur. En engu að síður var það speki Ásgeirs sem var í aðalhlutverki.

Ásgeir um eigin rasisma

„Á: Já, já. Það má kalla mig rasista, hvað sem er. Það breytir mér ekki.“

S: „Er þetta ekki einhvers konar kynþáttafordómar?“

Á: „Lítið bara á Dani, þeir eru í einhvers konar fangelsi í sínu eigin landi.“

Flestir sem ég þekki mundu líklegast þvertaka fyrir að þeir væru rasistar. Það gengur ekki allt of vel hjá Ásgeiri. Þvert á móti gefur hann til kynna að skortur á kynþáttafordómum hafi gert Dani að föngum í eigin landi, eins og hann kallar það. Á einum stað tekst honum reyndar að neita því að hann sé rasisti en bætir fyrir það nánast samstundis:

S: „Ertu að boða einhverskonar rasisma: Ísland fyrir Íslendinga?“

Á: „Nei, ekkert svoleiðis. Ég vil náttúrlega að Íslendingar njóti Íslands, það er engin vafi, og hafi hér forgang í sínu landi. „

Sko, engin rasismi! Bara að Íslendingar njóti Íslands og hafi hér forgang. Þess má geta að ég sjálfur er ekki trúleysingi en ég bara trúi ekki á Guð. Svo þekki ég líka þýska stelpu sem er ekki grænmetisæta en borðar bara ekki kjöt.

Atvinnuhagfræði Ásgeirs

Ásgeiri tókst auðvitað, eins og öllum haturberum, að koma atvinnuþjófnaðarklisjunni sígildu að. Sú klisja gengur út á það að fjöldi starfa í þjóðfélaginu sé að eilífu fastur og að nýtt fólk á vinnumarkaðnum skapi atvinnuleysi. Hann taldi að fólk væri „hrætt, hrætt um vinnuna sína“ og þegar honum var bent á að hér væri nánast ekkert atvinnuleysi svaraði hann:

„Það styttist nú í að það verði kreppa, og hverjir halda þá vinnunni? Íslendingarnir eða útlendingarnir?“

Svarið við þessari spurningu er líklegast „Íslendingarnir“. Það mun þó ekki valda Ásgeiri og honum líkum neinum hugmyndafræðilegum vanda ef af því kemur. Hann getur þá einfaldlega farið að staglast á því að útlendingarnir sitji auðum höndum meðan Íslendingarnir striti í kreppunni.

Ásgeir um gagnkvæmni í opnun landamæra

Ásgeir hefur miklar áhyggjur af fjölgun útlendinga á Íslandi og kennir (forvera) ESB um.

„Þetta vandamál munu sennilega birtast upp úr fyrsta maí þegar EB [Evrópubandalagið – Það sem forveri Evrópusambandsins hét þegar Ásgeir sat á Þingi] fresturinn rennur út og fólk frá löndum Austur-Evrópu STREYMIR yfir Vestur-Evrópu.“

Ásgeri var þá spurður hvort honum finnist allt í lagi að Íslendingar geti ferðast frjálst til annarra landa meðan við lokum landinu fyrir öðrum.

„Nú er það svo að við ráðum ekki þessum réttindum heldur Efnahagsbandalag Evrópu.“

Snilld! EES er kennt um flóðbyglju útlendinga sem Ásgeir óttast heitar en allt en ferðafrelsið okkar er málinu óviðkomandi. Það er sko hluti af EES! Nei, Ásgeir! Annaðhvort á að segja upp EES-samningnum eða halda í hann. Við getum ekki reist Kínamúra á okkar eigin landamærum og vænst þess að allir aðrir taki okkur opnum örmum.

Sumir Pólverjar sleppa, Tyrkir úti í kuldanum?

Þáttastjórnendur reyndu nokkru sinnum að fá út úr Ásgeiri, hvaða hópar það voru sem hann síst vildi sjá:

S: „Fólk frá Austur-Evrópu, Tyrklandi, er það verra en …“

Á: Ég hef eytt tímanum í Eystrarsaltsríkjunum sem eru Austur-Evrópulönd. Það er prýðilegt fólk. En eftir því sem að hérna… sem ég hef kynnst þessu fólki… þá sé ég ekki betur en að það falli alveg inn í íslenskt þjóðfélag… [t.d.] Pólverjarnir.

Nú er ég alveg týndur. Ásgeir var áður búinn að lýsa yfir áhyggjum yfir opnun vinnumarkaðar fyrir fólki frá Austur-Evrópu. Síðan talar hann um að hann sé hræddur um að útlendingar samlagist þjóðfélaginu illa og loks segir hann að Pólverjar og aðrir Austur-Evrópubúar samlagist vel. Hvaða rugl er þetta. Þetta er ekki einu sinni rasismi. Þetta er nú bara kjánalegt!

(Takið eftir að Ásgeir svarar ekki spurningunni um hvort Tyrkir séu verri en annað fólk, en Pólverjarnir sleppa í hans augum.)

Að lokum

„Ertu sjálfur á þeirri skoðun að hér sé of mikið af útlendingum?“

„Já.“

Afdráttarlausara svar er ekki hægt að gefa. Ásgeir vill ekki hafa svona marga innflytjendur á Íslandi. Sjálfur mundi ég vilja hafa færri menn á Íslandi sem hugsa eins og Ásgeir. Ekki það að ég óski honum neins ills. Ég vil ekki að hann hverfi eða flytjist til útlanda. Bara að hann samlagist.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.