Það er rétt skref að banna myndatökur í dómhúsum landsins

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem hefur að geyma lagaákvæði sem gerir allar myndatökur, og hvers kyns hljóð- og myndupptökur í dómhúsum landsins, á vegum annarra en dómstólanna sjálfra, óheimilar. Augljóst er að frumvarpið felur í sér viðbrögð við þróun sem hefur ágerst í seinni tíð að aðilar dómsmála og vitni eiga það í auknum mæli á hættu að vera myndaðir í bak og fyrir af blaðaljósmyndurum og sjónvarpstökumönnum þegar þeir koma fyrir dómstóla.

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem hefur að geyma lagaákvæði sem gerir allar myndatökur, og hvers kyns hljóð- og myndupptökur í dómhúsum landsins, á vegum annarra en dómstólanna sjálfra, óheimilar. Augljóst er að frumvarpið felur í sér viðbrögð við þróun sem hefur ágerst í seinni tíð að aðilar dómsmála og vitni eiga það í auknum mæli á hættu að vera myndaðir í bak og fyrir af blaðaljósmyndurum og sjónvarpstökumönnum þegar þeir koma fyrir dómstóla.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að alkunna sé að myndatökur þessar, einkum af sakborningum í opinberum málum, séu til þess fallnar að valda þeim sem fyrir þeim verða ama og óþægindum. Hafi sakborningar af þessum sökum mjög freistað þess að hylja andlit sín er þeir ganga í dómsal. Á síðustu árum hafi jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr séu opnaðar á meðan á þinghaldi standi, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Reynslan hafi sýnt að í þeim tilfellum hafi hinn ákærði iðulega freistað þess að hylja andlit sitt einnig við þau tækifæri. Leiði það aftur til þess að hinn ákærði þurfi jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti á meðan á þinghaldinu stendur, í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni. Þyki þessi aðstaða vera til þess fallin að auka á ójafnvægi málsaðila.

Höfundur þessa pistils tekur undir framangreindar athugasemdir með frumvarpinu og er sammála efni þess og tilgangi. Hér verður, að mati höfundar, einkum að hafa í huga að dómstólar eru ákveðið skjól fyrir hinn almenna borgara þar sem hann á rétt á að leyst verði úr réttindum hans og skyldum að undangenginni sanngjarnri og réttlátri málsmeðferð. Dómstólar eru, eða eiga a.m.k. að vera, óháðar og hlutlausar stofnanir sem settar eru á stofn með lögum af hálfu ríkisvaldsins í framangreindum tilgangi. Fyrir dómstólum gilda skýrar leikreglur um málsmeðferð, sönnunarfærslu og aðkomu aðila, vitna, lögmanna og dómara að málum.

Til framangreindra atriða verður að líta þegar frumvarp þetta er skoðað. Í stuttu máli þá eiga aðilar dómsmála, einkum sakborningar sem bornir eru sökum um refsiverða háttsemi, rétt á því að reka erindi sín fyrir dómstólum í friði – sérstaklega í friði fyrir því að þurfa ekki að sæta því að vera festir á filmu og af þeim birtar myndir í fjölmiðlum landsins í þeim tilvikum. Nóg er nú álagið samt á þeim sem koma fyrir dómstóla enda eru oft miklir hagsmunir í húfi þegar mál eru leidd þar til lykta, hvort sem um er að ræða opinber mál eða einkamál.

Í þessu efni verða hagsmunir almennings af því að fá að sjá ljósmyndir af aðilum mála á leið úr og í réttarsali, hvað þá inni í réttarsölum, að víkja fyrir ofannefndum hagsmunum þeirra sem koma fyrir dómstóla. Almenningur, þ.á m. fjölmiðlafólk, hefur kost á því að fylgjast með dómstörfum með því að mæta sjálfur niður í dómhús og fylgjast með þinghöldum. Frumvarpið kemur ekki í veg fyrir það. Þá er unnt að lesa niðurstöður dóma á netsíðum, þar sem nýverið var farið að birta héraðsdóma á netinu, en dómar Hæstaréttar hafa verið birtir þar frá árinu 1999. Ekki er því hægt að segja að aðgengi almennings og fjölmiðlamanna að dómstólum sé lítið.

Þarna á hins vegar að draga mörkin, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þannig er það rétt skref af hálfu dómsmálaráðherra nú að leggja fram þetta frumvarp sem bannar myndatökur í dómhúsum landsins. Rétt er að geta þess að á a.m.k. tveimur öðrum Norðurlöndum, Danmörku og Noregi, eru myndatökur sem þessar bannaðar með vísan til sambærilegra röksemda og fram koma í frumvarpi dómsmálaráðherra.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)