Pólitískt Íslam í Egyptalandi – Múslímska bræðralagið

Trúarlegir stjórnmálahópar sem byggja á kenningum Íslam virðast vera að njóta góðs af lýðræðislegu kosningakerfi í Mið-Austurlöndum eins og sjá má af góðum árangri þeirra í nýliðnum kosningum í Palestínu, Írak og Egyptalandi. Ólöglegu samtökin Múslímska bræðralagið eru í dag stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Egyptalandi sem er fjölmennasta Arabaríkið.

Múslímska bræðralagið (e. Muslim brotherhood) er í grunninn pólitísk trúarsamtök sem vilja að stjórnkerfi byggist á trúarsetningum Íslam og lagði í upphafi áherslu á að berjast gegn hinum vestrænu spillingaráhrifum.

Bræðralagið var stofnað í Egyptalandi á þriðja áratug síðustu aldar en starfsemin hefur dreift sér víða í hinum íslamska heimi. Samtök hafa einnig verið stofnuð í Sýrlandi, Palestínu og Jórdaníu og herskáir hryðjuverkahópar á borð við Hamas, Islamic jyhad og Gamaat Islamiyah eru afsprengi Múslímska bræðralagsins.

Múslímska bræðralagið er í dag stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í Egyptalandi sem er fjölmennasta Arabaríkið. Stjórnvöld viðurkenna bræðralagið þó ekki sem stjórnmálaflokk og skilgreina í raun sem hryðjuverkasamtök.

Í seinustu þingkosningum sem fóru fram í nóvember og desember 2005 hlutu liðsmenn Múslímska bræðralagsins, sem þurftu að bjóða fram sem óháðir vegna þess að samtökin eru ólögleg, samtals 88 þingsæti sem eru tæplega 20 prósent meðan stjórnarflokkurinn NDP (National Democratic Party), sem Hosni Mubarak forseti Egyptalands leiðir, hlaut 68,5 prósent þingsæta. Flokkar í stjórnarandstöðu sem hafa ekki trúarleg tengsl biðu afhroð, og voru þó veikir fyrir. Rúm tíu prósent skiptust milli þeirra og annarra óháðra frambjóðenda.

Trúarlegir stjórnmálahópar sem byggja á kenningum Íslam virðast vera að njóta góðs af lýðræðislegu kosningakerfi í Mið-Austurlöndum eins og sjá má í Palestínu, Írak og Egyptalandi. Í seinustu þingkosningum þessara þriggja landa hafa slíkir hópar náð umtalsverðri kosningu og útlit fyrir að boðskapur þeirra um aukið vægi trúarinnar sem grundvöll stjórnkerfis og dagslegs lífs eigi sér góðan hljómgrunn hjá kjósendum.

Bakgrunnur

Múslímska bræðralagið var stofnað árið 1928 í Egyptalandi af kennaranum Hassan al-Banna sem trúarleg samtök með félagslegar og siðferðilegar umbætur í anda Íslam sem markmið.

Samtökin urðu pólitísk árið 1939. Þegar mest var um miðja öldina voru virkir meðlimir í Múslímska bræðralaginu um hálf milljón af egypsku þjóðinni sem þá taldi tæplega 20 milljónir. Al-Banna taldi að Íslam samtímans hefði tapað félagslegum gildum sínum og vildi snúa aftur til upprunans, sú spilling sem fylgdi vestrænum áhrifum var meðal áhrifaþátta. Hann vildi hafa Kóraninn sem grundvöll alls dagslegs lífs, lög og uppbygging stjórnkerfis meðtalin. Liðsmenn Múslímska bræðralagsins eru súnní múslímar.

Í gegnum tíðina hefur Múslímska bræðralagið í Egyptalandi gengið í gegnum ákveðin þróunarstig. Upphaflega voru þetta samtök sem miðuðu fyrst og fremst að umbótum með fræðslu, menntun og áróðri. Í lok fjórða áratugarins urðu þau pólitísk og liðsmenn urðu meira áberandi í aðgerðum, sumir í hryðjuverkaaðgerðum. Bræðralagið starfaði einnig með uppreisnaröflum á þeim tíma gegn breskum yfirráðum. Árið 1954 voru samtökin lýst ólögleg og ofsótt af stjórnvöldum. Liðsmenn Múslímska bræðralagsins voru fangelsaðir og pyntaðir. Eftir morðið á Sadat, forseta Egyptalands, 1981 áttu fjölmörg slík atvik sér stað. Sama hafði átt sér stað eftir misheppnaða tilraun til að myrða Nasser forseta árið 1954. Þetta ástand varði allt til ársins 1984, þá var Múslímska bræðralagið viðurkennt sem trúarsamtök en undir ströngu eftirliti frá stjórnvöldum. Almenningsálitið í Egyptalandi snerist gegn Íslamistum þegar hryðjuverkaárásir þeirra gerðu það að verkum að ferðaþjónustuiðnaðurinn féll. Stór hluti almennings hefur lifibrauð sitt af ferðaþjónustu sem leiddi til aukins stuðnings við harðari aðgerðir stjórnvalda gagnvart Múslímska bræðralaginu.

Enn eru liðsmenn bræðralagsins fangelsaðir án dóms og laga. Fjöldi manns var til dæmis settur í fangelsi í kosningunum í nóvember og desember.

Á þeim 78 árum sem Múslímska bræðralagið hefur verið starfandi hefur það aldrei verið við völd í neinu ríki fyrir utan mjög stutt og dýrðarlaust skeið í Súdan. En með sigri Hamas samtakanna í Palestínu í janúar hefur orðið breyting á, enda Hamas samtökin nátengd Múslímska bræðralaginu.

Staða í dag

Þrátt fyrir gott gengi Múslímska bræðralagsins í nýliðnum þingkosningunum í Egyptalandi hefur NDP flokkur Mubaraks ennþá þrjá fjórðu hluta þingsæta og getur í krafti þess bæði komið lagafrumvörpum í gegn sem og stjórnarskrárbreytingum. Flokkurinn hefur gefið sig út fyrir að vera umbótasinnaðan og því til stuðnings var lögð fram lagabreytingartillaga sem var samþykkt í maí 2005 þess efnis að margir frambjóðendur gætu boðið sig fram í forsetakosningum í fyrsta skipti í sögu Egyptalands. Stjórnarandstöðuflokkar tóku þessum breytingum fagnandi þangað til það kom í ljós að í lögunum fólst að það var nánast ómögulegt fyrir aðra frambjóðendur en úr NDP flokknum að bjóða sig fram. Leiðtogar stjórnarandstöðu og nokkrir frjálslyndir liðsmenn NDP flokksins lýstu yfir vanþóknun með þetta fyrirkomulag. Fór svo að Mubarak, sem hefur verið forseti síðan 1981, vann yfirburðarsigur.

Þrátt fyrir að Egyptaland sé með stofnanir á borð við dómstóla og þing þá eru völd forsetans óumdeild. Egyptaland er í raun einræðisríki þar sem forseti fer með öll völd. Þingmenn Múslímska bræðralagsins notfæra sér þau tæki sem þeir hafa og nota fyrirspurnir og ræðustól til þess að vekja athygli á og koma sínum málum á framfæri.

Múslímska bræðralagið er að reyna að staðsetja sig sem fjöldaflokk með áherslu á umbætur. Í aðdraganda þingkosninganna reyndu leiðtogar þess að bæta ímyndina með því að lýsa yfir að enginn þyrfti að vera hræddur við Múslímska bræðralagið. Stefna þeirra sneri að lýðræðislegum og pólitískum umbótum á egypsku samfélagi en ekki að Íslamsvæða Egyptaland. Múslímska bræðralagið hafnar ofbeldi formlega en hefur hinsvegar stutt baráttu Hamas gegn hersetu Ísrael á Vesturbakkanum og stendur fyrir fjáröflunum til stuðnings ýmsum íslömskum hópum.

Bræðralagið verður ekki aðeins fyrir árásum frá stjórnvöldum í Egyptalandi heldur hafa Al-Qaeda samtökin, sem eru einnig uppbyggð af súnní múslímum, gagnrýnt Bræðralagið harðlega. Al-Qaeda telur það leiksopp í bandarískri utanríkisstefnu á svæðinu sem miði að því að notfæra sér tryggð almennings við Íslam. Að Bræðralagið skuli taka þátt í kosningum er talið undirlægjuháttur við vestræn gildi.

Hvað er framundan

Gott gengi Múslímska bræðralagsins í seinustu þingkosningum vakti að nýju upp umræðu í Egyptalandi um að gera samtökin lögleg. Með því að halda samtökunum niðri eru stjórnvöld að stuðla að ákveðnum píslarvættisblæ yfir þeim. Ef Múslímska bræðralagið yrði gert löglegt og mætti bjóða fram löglega þá þyrfti það að marka sér skýrari stefnu og vera tilbúið að taka ábyrgð á henni. Það hefur nú gerst með Hamas sem vann yfirburðasigur í þingkosningunum í Palestínu í janúar. Hvernig til tekst hjá Hamas-samtökunum í Palestínu eftir að hafa náð völdum skiptir miklu máli fyrir Múslímska bræðralagið og líkur eru á að það muni styðja við þá stefnu sem Hamas-samtökin munu marka sér, hver sem hún verður.

Góður árangur Múslímska bræðralagsins í þingkosningunum í Egyptalandi sýnir ekki bara aukinn stuðning almennings við þessi trúarlegu samtök heldur markar ákveðin vatnaskil í stefnu samtakanna. Nú berst bræðralagið fyrir auknu pólitísku umboði í stað þess að einungis að berjast fyrir tilverurétti sínum líkt og áður.

Útkoma kosninganna í desember hefur skapað tvípóla stjórnmálaumhverfi í Egyptalandi, NDP flokkur Mubaraks er enn langstærstur en nú í fyrsta skipti hefur Múslímska bræðralagið burði til að teljast alvöru stjórnarandstöðuflokkur. Báðir flokkar gefa sig út fyrir að vera umbótasinnaða en miðað við nýlegar meintar umbótaaðgerðir NDP og stefnubreytingu Bræðralagsins í hófsamari átt er útlit fyrir að hinn síðarnefndi sé meira sannfærandi.

Niðurstöðurnar voru mjög slæmar fréttir fyrir vinstri sinnaða og frjálslynda Egypta sem vilja koma nánast alráða flokki Mubaraks frá völdum en vilja hins vegar ekki heldur að trúarlegir stjórnmálaflokkar nái völdum í landinu. Í nýju tvípóla stjórnmálakerfi Egyptalands eru þeir ekki þátttakendur.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.