Hvar á ríkið að skera niður?

Mikið var skeggrætt um skýrslu Fitch um íslenskt efnahagsástand nú fyrir stuttu. Viðbrögð manna í fjármálageiranum létu ekki á sér standa og útskýring þeirra á ástandinu var einföld; ríkisvaldið hefur ekki staðið sig. Krafa er um að ríkið eigi að fresta framkvæmdum en hvaða framkvæmdum?

Mikið var skeggrætt um skýrslu Fitch um íslenskt efnahagsástand nú fyrir stuttu. Viðbrögð manna í fjármálageiranum létu ekki á sér standa og útskýring þeirra á ástandinu var einföld; ríkisvaldið hefur ekki staðið sig.

Ekki verður fjallað um gríðarlega skuldaaukningu einkaaðila í þessu sambandi eða hver sé ábyrgð fjármálafyrirtækjanna á þessu öll saman heldur verður skoðað hvað ríkið eigi að gera til að slá á þensluna. Í skýrslunni var fjallað um að tekjuafgangur ríkisins væri ekki nægur og útgjaldaaukning ríkissjóðs væri meiri en góðu hófir gegnir. Krafan er að ríkið fresti stórum framkvæmdum til að slá á þensluna.

Það er góð hugmynd að ríkisvaldið dragi úr útgjöldum. Ekki bara núna heldur alltaf. Af mörgu er að taka en til að einfalda umræðuna skulu nefndar þrjár stórar framkvæmdir sem rétt væri að slá alveg út af borðinu. Það eru Hátæknisjúkrahús, Tónlistarhús og Héðinsfjarðarjarðgöng. Allt eru þetta mál sem stjórnmálamenn telja mjög mikilvæg og hafa haft um þau stór orð og háfleyg. En ef það þarf að skera niður þá er hvergi betra en að gera það í þessum málum.

Fá rök hafa verið með því að byggja þurfi tæknisjúkrahús önnur en þau að mönnum finnst það sniðugt. Ef eyða á peningum á annað borð í heilbrigðisþjónustu væri kannski nær að efla heilsugæslustigið og aðbúnað aldraðra svo eitthvað sé nefnt. Það sama á við um Tónlistarhúsið. Það er ekkert sem kallar á svona íburð, fyrir utan kannski lélegan hljómburð í Háskólabíói og það væri gaman að hafa svona hús í höfninni. Þá að Héðinsfjarðarjarðgöngum. Það er alveg ljóst að jarðgöng á þessu svæði eru ekki arðsöm og, það sem meira er, þau eru algjörlega óþörf. Það eru önnur samgöngumál sem eru meira aðkallandi. Hættum því með þessi göng. Það væri hægt að halda áfram og nefna mörg önnur mál sem mega eiga sig en þetta er ágætis byrjun, örugglega nokkrir tugir milljarðar.

Eflaust munu margir mótmæla þessum tillögum. Rökin munu vera á þá leið að það sé bara ekki hægt að fresta þessu af því að það er búið að ákveða að gera þetta o.s.frv. Það eru léleg rök. Alls staðar er hægt að skera niður en einhver staðar verður að byrja. Það er mikilvægt að allir aðilar komi að því að lagfæra það ójafnvægi sem uppi er í íslensku efnahagslífi. Enginn getur skorast undan. Aðhaldsaðgerðir eru erfiðar og reyna á þol manna. Ríkið verður að axla ábyrgð og gerir það best með því að hætta við rándýr sérhagsmunagæluverkefni.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.