Ég þarf nú að fara að rífa mig upp!

Nýr Deiglupenni, Guðrún Pálína Ólafsdóttir, þreytir frumraun sína á Deiglunni í dag með pistli sem fjallar um samfélagslegt feimnismál; þunglyndi. Ritstjórn Deiglunnar býður Guðrúnu Pálínu velkomna í hópinn.

Þetta er dæmigerð hugsun einstaklings sem haldin er einkennum þunglyndis. Út á við getur allt virst vera í lagi, einstaklingurinn sinnir daglegum skyldum á sómasamlegan hátt og á eðlileg samskipti við fólk sem hann umgengst en oft vita aðeins allra nánustu ættingjar um þá sálarkvöl sem einstaklingar með þunglyndi upplifa.

Þunglyndi er sjúkómur sem hefur mikil áhrif á líf og líðan einstaklings en margar rannsóknir benda til þess að sjúkdómurinn stafi meðal annars af skorti á boðefninu seretónín í heila. Einnig koma einkenni þunglyndis oft fram við áföll í lífi fólks til að mynda við dauðsföll nákominna. Þótt ótrúlegt megi virðast fá um 20% kvenna og um 10% karlmanna svo sterk einkenni þunglyndis að þau þurfa að leita sér læknis einhvern tímann á lífsleiðinni. Oft er viðtalsmeðferð nægileg en stundum er lyfjameðferð æskileg, sérstaklega í upphafi. Mjög góðar líkur eru á fullum bata þunglyndis.

Einhverjir kunna að spyrja hver sé munur þess að vera þunglyndur og virkilega leiður tímabundið. Erfitt er að svara því, en óhætt er þó að fullyrða að þegar leiðinn er farinn að hafa svo mikil áhrif á líðan einstaklings að daglegt líf sé tekið að raskast á einhvern hátt, varanlega, að rétt sé að leita sér aðstoðar læknis. Alvarlegt þunglyndi hefur oft önnur líkamleg áhrif eins og til dæmis svefnleysi og/eða þyngdaraukningu eða –tap.

Fyrirsögn þessa pistils segir um margt til um eigin viðhorf einstaklings með þunglyndi. Hans versti óvinur er oft afneitun á vandamálinu sem fyrir liggur og það er afskrifað og skýrt sem aumingjaskapur. Þetta er svo sem ekki skrítið og það einkum af tveimur ástæðum. Sú fyrri er að ein helstu einkenni þunglyndis eru sífelldar sjálfsásakanir og niðurrifshugsanir og því getur verið að einstaklingurinn átti sig ekki á því að hann sé haldinn þunglyndi en hann álítur hugsanir sínar um sjálfan sig sem eðlilegar. Sú síðari er dapleg en hún lýtur að fordómum í samfélaginu. Þrátt fyrir að svo stór hluti þjóðarinnar þjáist einhvern tímann af þunglyndi á lífsleiðinni og raunin er, er lítið talað um hann og fólk felur sjúkdóminn eins og hann sé eitthvað til að skammast sín fyrir. Fólk segir vinum sínum frá því þegar það þjáist af gigt eða öðrum líkamlegum sjúkdómum en veigrar sér við að tala um andlega sjúkdóma og oft er hvíslast og pukrast með það ef fólk leggst inn á spítala vegna slíkra sjúkóma.

Ástæða þessa er einkum þekkingarskortur og skilningsleysi. Það er erfitt fyrir einstakling sem lítur fullkomlega eðlilega út að annarra mati og líður jafnvel hluta af deginum eðlilega að reyna að útskýra að eitthvað ami að honum. Þegar fólk er með hitaverki og hósta virðast allir skilja það. Erfiðara er að skýra andlega vanlíðan sem þó getur haft milu verri áhrif en flensa og stundum leitt til dauðsfalla.

Umræðan um þunglyndi og áhrif þess hefur á undanförnum misserum stóraukist og má hér sérstaklega nefna geðræktarverkefnið sem er forvarnar- og fræðsluverkefni á vegum Landlæknisembættisins, Geðhjálpar, geðsviðs Landsspítala og Heilslugæslunnar í Reykjavík. Opin umræða um þunglyndi og aðra geðsjúkdóma dregur úr fordómum og eykur skilning fólks á sjúkdómnum. Vonandi mun sú vitundarvakning sem orðið hefur, leiða til þess að fleiri þori að tala opinskátt um sjúkdóm sinn.

Heimilda um þunglyndi var aflað á netsíðunni doktor.is þar sem frekar má lesa um sjúkdóminn og aðrar geðraskanir.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.