Sunnudagar

Sunnudagar eru til þess eins að slappa af og búa sig undir andlega áfallið sem hlýst af því að mæta á ný til vinnu á mánudagsmorgni, vitandi að það eru fimm heilir vinnudagar fram að næsta fríi.

Það er ekki laust við að pistlahöfundur hugsi sér jafnan gott til glóðarinnar á laugardagskvöldum þegar ljóst er að sunnudagurinn er á næsta leyti og fátt sem getur komið í veg fyrir að hann líti dagsins ljós. Sunnudagur er eini vikudagurinn sem leyfir fullkomna leti frá morgni til kvölds og jafnvel örlítið lengur. Pistlahöfundur kann vel að láta vekjaraklukkuna hringja svona um tíuleytið, hafi kvöldið á undan ekki verið þeim mun lengra, til þess að eins að slökkva á henni og fara aftur að sofa áhyggjulaus.

Nú kann að vera að þetta dálæti mitt á sunnudögum falli sums staðar í grýttan jarðveg, enda ófáir sem heyja harða baráttu við timburmenn á sunnudegi í kjölfar upplyftingar á laugardagskvöldi. Ekki er laust við slíka tilfinningu í þessum rituðu orðum, enda gærkvöldið undirlagt af Texas Hold’em póker ásamt tilheyrandi öldrykkju. Reyndar skilaði þetta pókerkvöld litlum 500 krónum í vasa pistlahöfundar og því seint sagt að kvöldið hafi ekki borgað sig.

En þrátt fyrir hugsanlega timburmenn er mikilvægt að þeir skyggi ekki á sunnudagsánægjuna. Þvert á móti eru þeir jafnvel ríkari ástæða til þess að liggja undir sænginni fram að kaffi, skreppa þá með góðum félögum á einhvern af sveittari skyndibitastöðum bæjarins, fara svo heim og aftur undir sæng.

Því miður hafa ekki allir sunnudagar verið til gleði. Einn frægasti sunnudagur sögunnar er líklega sömuleiðis einn sá blóðugasti en það er sunnudagurinn 30. janúar 1972. Það var þá sem breskir hermenn hófu skothríð á vopnalausa og friðsamlega mótmælendur í Derry á Írlandi, en þrettán þeirra létust þennan dag og fjöldi annarra særðist. Hermennirnir voru síðar fundnir saklausir þrátt fyrir að hafa drepið þrettán óbreytta borgara í köldu blóði.

Það er þó engin ástæða til þess að dvelja við slíka atburði þótt sorlegir séu, heldur fyrst og fremst hafa hugfast að á sunnudögum skal slappa af. Meira að segja skaparinn mikli mun hafa hvílt sig á sunnudegi, reyndar eftir að hafa skapað heiminn svo hann þurfti líklega á hvíld að halda. En nú er mál að linni – það er jú einu sinni sunnudagur og pistlahöfundur ætlar að sjálfsögðu aftur undir sæng.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)