Reykingabann

Fljótlega má búast við stjórnarfrumvarpi lögðu fram af heilbrigðisráðherra, sem bannar reykingar á veitinga- og kaffihúsum. Bann við því að eigandi veitingahúss leyfi reykingar í húsakynnum sínum, er álíka vitlaust og bann við því að eigandi veitingahúss banni reykingar á veitingahúsi sínu.

Fljótlega má búast við stjórnarfrumvarpi lögðu fram af heilbrigðisráðherra sem ætlað er að banna reykingar alfarið á veitingahúsum, þ.m.t. kaffihúsum. Slíkt bann er nú þegar við líði í nokkrum löndum og hefur valdið því að einhverjir kaffihúsaeigendur hafa misst spón úr aski sínum, eða hætt rekstri. Heilbrigðisráðherra, sem virðist hafa það að vana að gefast upp fyrir öllum kröfum hagsmunahópa, eða hafa „skilning á málefnum“ þeirra eins og það er jafnan kallað, hefur opinberlega tekið vel í þessar hugmyndir. Hann vill hefta ráðstöfunarrétt veitingahúsaeigenda yfir eignum sínum, vegna þess meirihlutinn með Þorgrím Þráinsson tóbaksvörð í broddi fylkingar hafa sagt svo í skoðannakönnunum. Hafa stjórnlyndir menn jafnvel gengið svo langt að kalla það „sjálfsögð mannréttindi“ að eiga rétt á hreinu lofti þegar maður fer að fá sér kaffibolla eða bjór, á stöðum sem aðrir eiga og enginn þvingaði viðkomandi inn á. Eða er viðveruskylda á íslenskum veitingahúsum?

Ríkið þarf ekki – og á ekki – að koma að svona málum. Markaðurinn sér til að þess gerist ekki þörf. Það vill svo heppilega til, að hér á landi máttu stofna til hvers konar löglegs atvinnurekstrar sem þú kýst. Ef upplýsa mætti mannréttindasérfræðingana, þá eru þessi réttindi tryggð borgurum þessa lands í mannréttinindakafla stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, nánar tiltekið í 74. og 75. gr. Þeir geta alveg treyst því að þegar eftirspurnin er til staðar, hvort sem það er eftir reyklausum eða reykfylltum kaffihúsum, þá mun einhver hinna „gráðugu“ kapítalista stofna til slíks rekstrar. Þess má til til dæmis geta að kaffihúsin, Kaffitár, Ömmukaffi og Te&Kaffi eru öll reyklaus! Enga þvingun þurfti til að svo yrði. Slík fjölbreytni til kaffidrykkjuaðstæðna virðist óhugsandi í huga stjórnlyndra manna.

Bann við því að eigandi veitingahúss leyfi reykingar í húsakynnum sínum, er álíka vitlaust og bann við því að eigandi veitingahúss banni reykingar á veitingahúsi sínu.

Reykingafasistarnir hafa þegar náð lögum í gegn er banna jákvætt umtal um tóbak. Næsta skref verður nú fljótlega. Síðan megum við treysta því að reykingar á heimilum manna verða bannaðar, allt með sömu rökum. Næst koma stjórnlyndir menn til að herja á óholla matinn; fyrirbæri sem kallast lýðheilsustöð hefur þegar hafið herferð sína gegn gosi og beðið um auka skattlagningu á þann varning – skatturinn átti síðan að renna til lýðheilsustöðvar, vitaskuld.

Á hverju einasta ári koma upp mál þar sem 63 einstaklingar í steinhúsi við Austuvöll ætla að hafa vit fyrir oss og ráðskast með fé vort. Megi drottinn vaka yfir oss og gefa oss frið.

Höfundur hefur aldrei reykt og þolir almennt illa reykingalykt.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)