Réttarstaða geimfara V

Margvísleg þjóðréttarleg vandmál gætu skapast ef viti bornar ójarðneskar verur myndu birtast jarðarbúum. Alþjóðakerfið þyrfti að bregðast við þessu vandamáli með víðsýnum og opnum hætti.

Eiríkur Tómasson prófessor út úr speisaður

Undirritaður hefur stundum velt því fyrir sér hvernig alþjóðakerfið myndi bregðast við ef viti bornar verur úr geimnum myndu birtast á jörðinni. Þar sem undirritaður er bjartsýnismaður að eðlisfari hefur hann iðulega gert ráð fyrir að þær vildu stofna til friðsamlegra kynna við jarðarbúa. Yrði slíkt afar ánægjulegt og gæti leitt til framþróunar á sviði tækni og vísinda og glætt menningarstarfsemi jarðarbúa. Þó svo að slík tíðindi væru afar ánægjuleg þá skapast viss vandamál í þessu samhengi á sviði alþjóðalaga. Verður hér á eftir nokkur vandamál greind í örstuttu máli.

Fyrsta vandamálið sem jarðarbúar standa frammi fyrir er samskiptalegs eðlis. Grundvallaratriði samningsgerðar er tjáning. Samningsaðilar verða að geta tjáð sig með skiljanlegu móti til að ná samkomulagi. Ef geimverurnar skilja ekki eitthvert tungumál jarðarbúa þyrftu málvísindamenn að taka höndum saman og ráða í tjáningarmáta geimveranna. Verkefnið gæti reynst snúið ef geimverurnar notast við hugsanalestur.

Næsta vandamál á dagskrá (og það ekkert smá vandamál) er hver hefur umboð fyrir jarðarbúa til að semja við geimverurnar. Hefur undirritaður útfært lauslega eina hugmynd í þeim efnum, hljóðar hún svo:

Fjölmennustu og öflugustu ríki heims fengu sinn fulltrúa og síðan fengu stærstu ríkjabandalögin að útnefna sinn fulltrúa. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna væri nefndarmaður og færi fyrir henni. Nefndarmenn yrðu að hafa hagsmuni allra jarðarbúa að leiðarljósi í stað þess að einblína einungis á hagsmuni einstakra ríkja.

Mikilvægt er að útkljá hvaða réttarstöðu geimverur hafa á jörðinni. Ljóst er að gera verður greinarmun á geimverum með óhlutbundna hugsun á háu stigi og geimdýrum. Til bráðabirgða væri hægt að lögjafna réttarstöðu manna yfir á geimverur. Þannig að geimverur nytu sömu réttarstöðu og menn. Geimdýr myndu að sama skapi njóta verndar dýraverndunarlaga til bráðabirgða. Þegar fram í sækti væri hægt að semja sérreglur um réttarstöðu geimvera sem tækju mið af líkamsstarfsemi geimveranna og menningu þeirra, t.a.m. gæti Evrópuráðið samið Geimverusáttmála Evrópu með dómstól í MÍR geimstöðinni.

Jarðarbúar hafa verið svo óforskammaðir að lýsa því yfir að geimurinn sé þeirra eign og skuli nýttur í þeirra þágu. Þessu yrði að breyta. Hægt væri að notast við svipaðar hugmyndir og birtast í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna til að redda málunum. Komið yrði á landhelgi og efnahagslögsögu í kringum plánetur, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Afgangurinn af geimnum yrði ekki á forræði neinnar plánetu. Útfæra yrði þessar hugmyndir með tilliti til viðfangsefnisins og setja svipaðar reglur og birtast í fyrrnefndum Hafréttarsamningi um m.a. löggæslu og mengunarvarnir. Snjallt væri að heimila óslitna eftirför geimskipa út úr efnahagslögsögu pláneta ef geimskip eða áhafnarmeðlimir gerast brotlegir við lög þeirrar plánetu sem um ræðir.

Líklegt er að geimverur og jarðarbúar myndu vilja koma á viðskiptasambandi sín á milli. Góð hugmynd væri að stofna fríverslunar- eða tollabandalag. Einnig væri það góð hugmynd að stofna Geimviðskiptastofnun (Space Trade Organisation). Jarðarbúar og geimverur gætu svo sett á stofn samtök helstu iðnpláneta himingeimsins líkt og helstu iðnríki heims (G8) hafa gert á jörðinni.

Ekki má gleyma að upp geta komið einkaréttarleg vandamál, t.d. ef geimvera ætlar að leigja sér videospólu á jörðinni. Við þann gerning vaknar sú spurning við hvaða reglur eigi að styðjast. Líklegt er að stuðst yrði við reglur þeirrar plánetu sem tengist viðskiptunum hvað mest nema um annað sé samið. Ef geimvera myndi leigja sér videóspólu hjá Bónusvideo t.a.m. yrði líklega stuðst við reglur jarðarbúa, þ.e. íslenskar reglur í þessu tilfelli.

Hægt væri að velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef geimverurnar væru illskeyttir djöflar sem komnar væru til að breyta jörðinni í þrælkunarbúðir. Myndi þá kannski langþráður draumur margra um her Sameinuðu þjóðanna, sem kveðið er á um að skuli komið á laggirnar í 43. gr. sáttmála hinna sameinuðu þjóða, verða að veruleika.

Af ofansögðu er ljóst að það mun hafa víðtæk áhrif á alþjóðalög ef viti bornar verur úr geimnum myndu ákveða á kíkja við á jörðinni. Vonar undirritaður að þær geimverur sem koma til jarðarinnar verði friðelskandi og taki menningu jarðarbúa opnum örmum þannig að ást, friður og kærleikur geti blómstrað í geimnum.