Að hrósa og taka hrósi

Íslendingar gera allt of lítið af því að hrósa. Við eigum það oft til að vera mjög neikvæð og finnum allt að öllu. Þrátt fyrir að þeir hlutir sem gagnrýnum og finnum að, hafi í raun mjög jákvæðar hliðar.

Við eigum ekki að spara hrósið

Hrós eru oftast ofureinföld, en að sama skapi öflug í því að bæta samskipti manna. Auðvitað eru margar ólíkar ástæður til þess að hrósa en við getum samt verið sammála um að hrós skilur alveg örugglega eftir góða tilfinningu. Hrósið þarf samt að vera einlægt og sannfærandi. Sá sem fær hrós upplifir ekki bara notalega tilfinningu heldur líka sá sem hrósar. En hvers vegna er þetta svona góð tilfinning?

Við það að hrósa tengjumst við öðru fólki á heiðarlegan hátt, að því tilskyldu að fólk virkilega meinar það sem það segir og samskiptin einkennast af velvild og gleði út í náungann. Þetta er frumþörf sem oftar en ekki er lítils metin í hinu neikvæða og hraða tækniþjóðfélagi.

Það eru margir huldir kostir við það að hrósa fólki. Það er ótrúlegt hversu mikið smá og einföld athugasemd eins og hrós getur breytt andrúmsloftinu í einni svipan og að sama skapi tilfinningunni fyrir ákveðnu fólki. Hrós getur án efa stuðlað að því að styrkja sambönd okkar við hvort annað, komið sjálfsálitinu upp í hæstu hæðir og aukið sjálfstraustið til muna. Við upplifum gleði og hamingju um leið og við komumst á lagið með það að fara ósparlega með hrósið.

Væmið? Kannski – en þetta er satt.

En hvernig við hrósum skiptir líka máli. Við þurfum að meina það sem við segjum og við þurfum að segja það í fullri einlægni og sýna að við meinum það. Í hvert skipti sem við hrósum þá þurfum við að einbeita okkur algerlega að þeim sem við erum að hrósa og benda á það sem okkur finnst jákvætt eða gott.
Með því að hrósa reglulega uppskerum við jákvætt viðmót til baka sem er ómetanlegt í þeim samskipum sem við eigum við fólk. Þeir leiðinda eiginleikar okkar að finna alltaf það versta og leiðinlega í fólki breytast og við förum að sjá það jákvæða og besta.

Sumir segja að það sé mjög gott að gefa fimm hrós á dag. Að mínu mati er eitt á dag mjög góð byrjun. Sumum er það nánast eðlislægt að hrósa og margir hafa hreina unun að því að hrósa fólki. En það er ótrúlegt hvað hrós getur haft jákvæð áhrif og hreinlega bjargað deginum okkar. En það er ekki nóg að kunna að hrósa heldur verðum við líka að kunna að taka hrósi og ætla ég að ljúka pistlinum með nokkrum dæmum um hvernig ber að forðast að svara þegar okkur er hrósað og svo hvernig best er að þakka fyrir sig.

Þessi svör ber að forðast þegar okkur er hrósað:

• “Nei, ég er það ekki”
• “Það eru aðrir en ég sem eiga þetta skilið”
• “Ertu ekki að ruglast eitthvað?”
• “Þetta var bara heppni”
• “Ég gerði í raun ekkert merkilegt”

Þegar við svörum svona þá erum við ekki bara að neita okkur um ánægju þess að fá hrós heldur erum við líka að hafna ummælum þess sem hrósar. Ef það er vandamál hjá okkur að taka hrósi þá þurfum við að vinna í þeim málum þangað til við lærum að taka hrósi. Það er ekkert rangt við það að njóta þess að taka hrósi, þvert á móti. Við eigum það skilið. (oftast allavega)

Það á ekki að þurfa lengri svör en “þakka þér fyrir” þegar okkur er hrósað. Það er alveg bannað að láta eitthvað neikvætt koma frá okkur. Ef við eigum í basli með að taka hrósi þá er hægt að finna upp á ákveðnum svörum sem þægilegra væri að svara eins og:

• “Ég met það mikils að þetta hrós komi frá þér”
• “Þetta er það besta sem ég hef fengið að heyra í dag og bjargaði algerlega deginum.”
• “Ég vissi ekki að einhver hefði tekið eftir því”
• “Þakka þér, mér finnst þetta líka fallegt, þetta var gjöf og ég met hana mikils”

Reynum nú að finna það jákvæða við hlutina og náungann- það gleður ekki bara náungann heldur okkur líka.

Gangi ykkur vel!

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.