Að sjá með hjartanu

„Trúin er ekki fólgin í því að játa eitthvað sem ofbýður skynsemi okkar og reynslan hafnar heldur felst trúin í því að taka ákveðna lífsafstöðu og að taka ákveðin gildi alvarlega,“ segir séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson í árlegri jólahugvekju á Deiglunni.

„Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.“1 Segir í sögunni um Litla prinsinn.

Það er gott að hafa þessi orð í huga nú á tímum þegar allt er skoðað, vegið og mælt og þrautprófað. Við erum efnishyggjufólk og látum ekki segja okkur hvað sem er og viljum trúa okkar eigin augum. Vísindin eru trúarbrögð nútímans og við fórnum miklu á altari þeirra og margir telja öruggt að þaðan komi hjálpræðið og lausnarorðin í brothættum og hættulegum heimi. Og sannarlega eru framfarirnar stórkostlegar og auðvelda okkur lífið á mörgum sviðum. En er það ekki alveg rétt að það mikilvægasta í lífinu er ósýnilegt augunum og verður ekki krufið af vísindunum?

Heimsýn okkar við upphaf 21 aldar er allt önnur en sú veröld sem blasti við fólki sem var á dögum við upphaf síðustu aldar og ég tala ekki um fólk á fyrri öldum. En á hverjum tíma taldi fólk sig í góðri trú og taldi sig bera skyn á umhverfi sitt og hafa höndlað sannleikann. En með nýjum uppgötvunum og skilningi á regluverki heimsins hefur mannkynið kastað gömlum kennisetningum fyrir róða og umfaðmað nýjan skilning og ný sannindi. En maðurinn er samur við sig. Við elskum og hötum. Við gerum á hlut annarra og við fyrirgefum. Við sýnum samúð og skilning en getum verið miskunnarlaus og dómhörð. Þannig var það og þannig er það enn.

Við lesum Biblíuna með gleraugum samtímans og þegar við komum til kirkjunnar okkar á jólunum þá þurfum við ekki að kasta frá okkur þekkingu nútímans um sagnfræði og vísindi og þykjast trúa einhverju sem við teljum okkur vita að getur ekki staðist. Það er gott og jákvætt að ganga inn í hátíðina og njóta jólanna af barnslegri einlægni en það er vissulega ekki nauðsynlegt að vera barnalegur og afneita skynseminni sem er góð Guðs gjöf.

En við skiljum og njótum jólasögunnar þegar við horfum á hana með hjartanu. Trúin er ekki fólgin í því að játa eitthvað sem ofbýður skynsemi okkar og reynslan hafnar heldur felst trúin í því að taka ákveðna lífsafstöðu og að taka ákveðin gildi alvarlega. Jólin eru mikilvæg þegar þau verða tilefni til þess að við reynum að bæta samskipti okkar við samferðafólkið og við reynum að sjá með hjartanu.

Þegar við segjumst trúa á Jesú þá erum við að segja að við viljum hafa fordæmi Jesú frá Nazaret fyrir augum á vegferð okkar og ganga þann veg vonar og kærleika sem hann gekk. Hann sá með hjartanu og lagði líkn með hverri þraut og vildi hjálpa öllum til að þroskast og eflast í öllu góðu og lifa lífinu til fulls.

Þess vegna er vel við hæfi að fagna fæðingu Jesú og kristnið fólk hefur valið þennan tíma þegar skammdegið er mest á norðurhveli jarðar til að undirbúa komu Krist sem kom með ljósið og lífið eins og sólin sem nú hækkar á lofti og daginn tekur aftur að lengja.

Jólin eru nýtt upphaf. Eins og hvert barn sem fæðist er ný byrjun og ný von. Og jólahátíðin á að koma inn í líf okkar með nýja von og fyrirheit og við eigum að æfa okkur í að horfa með hjartanu á það sem mikilvægast er í lífinu. Þegar við gerum það þá eigum við gleðilega jólahátíð.

Guð gefi lesendum Deiglunnar gleðileg jól og farsælt nýtt ár.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)