Að fanga dag

Les einhver netið á aðfangadag? Varla klukkan 10 um kvöldið þegar þessi greyið pistill mun loks birtast. Hugsanlega mun einhver lesa hann á jóladag eða að þessari jólahelgi liðinni. Þá verður hann orðinn númer tvö eða þrjú í röðinni.

Les einhver netið á aðfangadag? Varla klukkan 10 um kvöldið þegar þessi greyið pistill mun loks birtast. Hugsanlega mun einhver lesa hann á jóladag eða að þessari jólahelgi liðinni. Þá verður hann orðinn númer tvö eða þrjú í röðinni.

Það gerir kannski engin kröfu um að neinn skrifi neitt merkilegt á aðfangadag. Vefþjóðviljinn reyndi að nota daginn í dag til að gagnrýna fjölmiðla fyrir fréttaflutning frá Ísrael og pólitískar jólakveðjur félagasamtaka í Ríkisútvarpinu. En jafnvel hinir staðföstu gáfust upp.

Það er samt í raun alveg heilmargt til að fjalla um. Nýr forseti Póllands tók við embætti í gær. Hann boðar nýja stjórnarskrá þar sem, hver skyldi halda, vægi forsetans er aukið. Ný ríkisstjórn flokks hans er að keyra í gegn eingreiðslur vegna barneigna og breytt fjölmiðlalög sem eiga meðal annars að efla „siðgæði“ fréttamanna og tryggja Útvarpi Maríu, öfgakaþólskri útvarpsstöð fleiri tíðnir.

Svo var Kjaradómur að dæma. Það er algjör óþarfi að láta Kjaradóm úrskurða um laun alþingismanna og ráðherra. Þeir ættu að gera það sjálfir. Auðvitað eru dómar kjaradóms oftast ekkert nema leið fyrir þingmenn til að forðast það að taka ábyrgð á sínum eigin launahækkunum. En fyrst að raunin er sú þeir geta snúið við dómum með lagasetningu þá þýðir það auðvitað að þeir bera ábyrgð. Í dag taka þingmenn við flestum kjarabótum dómsins en leika þó alþýðuhetjur af og til þegar dómar hans valda ólgu í þjóðfélaginu.

Annars virðast ekki margir hafa áhyggjur af því að Forsætisráðherra skyldi skrifa dómendum bréf nú og krefjast skýringa. Í öryrkjamálinu þótti þetta hinn versta hegðan. Mér finnst þetta hins vegar dæmi um skjaldbökupopúlisma hans Halldórs í embætti. Alltaf voða áhyggjufullur og með nefið í öllum málum. Davíð var meira eins og strangi skólastjórinn sem allir voru hræddir við. En þegar á líður man maður meira eftir stranga skólastjóranum en unga, hressa gaurnum sem sá um félagslífið.

Jafnvel meðan ekkert alvarlegt er að virðist Halldór ekki geta varist einföldustu árásum og virðist sár og leiður yfir hverri þeirri gagnrýni sem á hann kemur. Slíkur maður væri illa til þess fallinn að stjórna skútunni ef vindar breyttust.

Það voru mistök hjá Sjálfstæðismönnum að gefa eftir forsætisráðherraembættið og þeir ættu að drífa sér í því að ná því aftur. Það að þeir reyni það er raunar álíka líklegt og að þessi pistill muni valda ólgu í pólitíska sviðinu. Það er nefnilega ekki mikið tekið eftir því hvað skrifað er á aðfangadag.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.