Æpandi þögn Bandaríkjastjórnar um fangaflug

Nú eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að umræða fór fram á Alþingi um ætlað flug bandarísku leyniþjónustunnar um íslenska lögsögu með fanga sem sætt hafa pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Í þeirri umræðu kom fram hjá Geir H. Haarde utanríkisráðherra að ítarlegra svara hefði verið krafist frá bandarískum stjórnvöldum um þetta flug. Enn bólar hins vegar ekkert á svörum.

Nú eru liðnar tæpar tvær vikur frá því að umræða fór fram á Alþingi um ætlað flug bandarísku leyniþjónustunnar um íslenska lögsögu með fanga sem sætt hafa pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Í þeirri umræðu kom fram hjá Geir H. Haarde utanríkisráðherra að ítarlegra svara hefði verið krafist frá bandarískum stjórnvöldum um þetta flug. Enn bólar hins vegar ekkert á svörum.

Áður en þessi umræða fór fram á Alþingi hafði utanríkisráðuneytið í að minnsta kosti tvígang óskað eftir svörum við þessari fyrirspurn á fundum með fulltrúum úr bandaríska sendiráðiðinu. Þá hafði sendherra Íslands í Washington komið sömu skilaboðum áleiðis til bandaríska utanríkisráðuneytisins. Þegar svör bárust loks frá Bandaríkjastjórn voru þau allloðin og raunar ófullnægjandi. Þau voru nokkurn veginn á þá leið að Bandaríkin virtu fullveldi og lögsögu Íslands í einu og öllu og að þau gerðu ekki ráð fyrir því að Keflavíkurflugvöllur yrði notaður í þeim tilgangi sem um væri spurt en kæmi slíkt til álita myndu þau fyrst eiga um það samráð við íslensk stjórnvöld. Í þessum svörum er þeirri spurningu ekki svarað hvort umræddir fangaflutningar hafi átt sér stað.

Á stjórnarfundi Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldinn var á Akureyri 19. nóvember síðastliðinn var samþykkt ályktun þar sem farið var fram á að íslensk stjórnvöld krefðust skýrra svara frá Bandaríkjastjórn um hvort fangar, sem sætt hefðu pyndingum og ómannúðlegri meðferð, hefðu verið fluttir með flugvélum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, eða annarra aðila á vegum Bandaríkjastjórnar, um íslenska lögsögu. Þá kom fram í ályktuninni að afar mikilvægt væri að öll tvímæli yrðu tekin af um þetta mál. Loks sagði að ef í ljós kæmi fangaflutningar hefðu átt sér stað um íslenska lögsögu bæri íslenskum stjórnvöldum að fordæma slíkt og fá fyrir því fullvissu hjá bandarískum stjórnvöldum að slíkt myndi ekki endurtaka sig.

Eins og áður segir eru nú liðnar um tvær vikur frá því að Geir H. Haarde utanríkisráðherra upplýsti á Alþingi að Bandaríkjastjórn hefði verið krafin svara við framangreindri fyrirspurn. Það er mikil óvirðing í garð Íslendinga í því fólgin að svara ekki þessari skýru og einföldu fyrirspurn. Sérstaklega er óvirðingin mikil í ljósi vináttu og tvíhliða varnarsamstarfs þessara ríkja í rúma hálfa öld. Að því hlýtur að koma að mönnum þrýtur þolinmæðin. Fari svör ekki að berast verða íslensk stjórnvöld hreinlega að fordæma þessa framkomu Bandaríkjastjórnar í garð vinarþjóðar og krefjast tafarlausra, skýrra og skorinorðra svara.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)