Jónki, Jónki, lína fimm

Jón Bjarnason þingmaður VG deyr ekki ráðalaus þótt hann fái vonda þjónustu. Hann lætur ekki bjóða sér lyftutónlist og sjálfvirka símsvörun heldur gerir hið eina rétta í stöðunni og heimtar lagasetningu. Þingræðið lengi lifi!

Jón Bjarnason þingmaður Vinstri grænna sló nýjan tón í störfum Alþingis fyrir skemmstu þegar hann gerði biðtíma á þjónustulínu Símans að umtalsefni. Taldi hann mikilli furðu sæta að hafa beðið í hálftíma á línunni en ekkert þokast áfram í átt að þjónustufulltrúanum hinum megin við línuna. Samkvæmt eigin frásögn hringdi Jón í þjónustuverið skömmu fyrir hádegi og lenti á símsvara sem tjáði honum að hann væri númer þrjátíu í röðinni. Eftir þrjátíu mínútur af lyftutónlist, og síendurteknum tilkynningum um að hann væri númer þrjátíu í röðinni, fékk hinn þolinmæði þingmaður loks nóg og lagði á.

Þingmaðurinn hefur ekki sjálfur upplýst hvert erindi hans við þjónustuver Símans var en óhætt er að ætla að það hafi verið brýnt. Mikilvægir menn á borð við alþingismenn gera það tæpast að leik sínum að hanga á „hold“ tímunum saman til þess að spyrja fánýtra spurninga sem svarið er augljóst við. Til þess hafa þeir Alþingi.

Það er vitaskuld óþolandi staða fyrir þingmenn þjóðarinnar – að þurfa að verja klukkustundum saman í töpuð stríð við sjálfvirka símsvörun hjá þjónustufyrirtækjum. Þess vegna brá Jón á það eina ráð sem augljóst var í stöðinni; að gera þetta að þingmáli.

Jón upplýsti um raunir sínar úr ræðustól Alþingis og sagði þá meðal annars að hann hefði „með klækjum“ náð sambandi við aðalskrifstofu Símans. Það leið hins vegar heill dagur og helgi þar til hringt var í hann aftur og hann spurður hvort hann hafi reynt að ná sambandi við þjónustuverið. Jón beindi því spurningu til viðskiptaráðherra: „Ég leyfi mér því að spyrja ráðherra neytendamála hvort þetta sé eðlilegt.“

Við þessu átti ráðherrann fá svör en Jón getur huggað sig við að upplýsingafulltrúi Símans sendi frá sér tilkynningu um málið sem varpar enn minna ljósi á ástand mála. Þar segir meðal annars: „Okkar markmið í þjónustustigi við viðskiptavini er skýlaust að yfirstíga væntingar þeirra á hverjum tíma og það eru þeir sem setja viðmiðin gagnvart okkar markmiðum. Við erum á góðri leið með að ná því í dag og langt í frá að 30 séu á bið hjá okkur.“

Vafalítið líður ekki á löngu þar til Jón Bjanason sendir frá sér nýja fyrirspurn: Hafa verið settar eða kemur til álita að setja kvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksóskiljanleika í svörum við fyrirspurnum þingmanna?

Nema að Síminn verði fyrri til og geri það eina rétta í stöðunni og breyti símsvörun sinni. „Veljið einn fyrir ADSL og heimasíma, tvo fyrir GSM, þrjá fyrir símreikninga og fjóra ef þér eruð Jón Bjarnason í vondu skapi.“

Svo er það vitaskuld borðleggjandi fyrir Jón að fara fram á lög um hversu heitur matur á að vera á boðstólum á veitingstöðum, hversu langan tíma það tekur að láta skipta um dekk á bílnum, hversu langur tími megi líða á milli þess að klósett eru hreinsuð í fyrirtækjum og hversu langar biðraðir megi myndast við afgreiðslukassa í matvöruverslunum. Hér er óplægður akur fyrir athafnasama stjórnmálamenn. Upp með plóginn, Jón.

Góða helgi

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.