Á siðaforsendum skólasamfélagsins?

Sú hugsun virðist afar sterk í mörgum að það sem ríkið geri, sé í senn gert af réttsýni og mikilli hlutlægni. Hinir sömu trúa því – gjarnan í fullri einlægni – að athafnir einstaklinga eða einkaaðila séu ævinlega því marki brenndar að skara eld að eigin köku á tilkostnað annarra.

Sú hugsun virðist afar sterk í mörgum að það sem ríkið geri, sé í senn gert af réttsýni og mikilli hlutlægni. Hinir sömu trúa því – gjarnan í fullri einlægni – að athafnir einstaklinga eða einkaaðila séu ævinlega því marki brenndar að skara eld að eigin köku á tilkostnað annarra.

Trúin á hið óskeikula ríkisvald er hættuleg. Í fyrsta lagi vegna þess að ríkisvaldið er síður en svo óskeikult og í öðru lagi þá dregur hún úr athafnavilja einstaklinganna með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið í heild sinni. Í samfélagi, þar sem vilji einstaklinganna til athafna þokar fyrir tiltrú fjöldans á ríkisvaldið, verður ekki framþróun heldur hnignun.

Til allrar hamingju fer þeim óðum fækkandi sem álíta ríkisvaldið upphaf og endi alls, en trúin á óskeikuleika þess er þó býsna rótgróin. Einn þeirra aðila sem hefur óbilandi trú á ríkisvaldið er lögaðilinn Foreldrafélag Melaskóla, en í 1. gr. samþykkta félagsins kemur fram að félagar í því eru allir foreldrar eða aðrir forráðamenn barna í Melaskóla. Undirritaður telst því félagsmaður í þessu ágæta félagi. Fyrir hans hönd og annarra félagsmanna tók stjórn félagsins sig til fyrir rétt rúmri viku og ályktaði um framboð á námsefni í grunnskólum. Ályktunin er svohljóðandi:

Stjórn foreldrafélags Melaskóla lýsir yfir andstöðu við yfirlýstar hugmyndir Landsvirkjunar um samkeppni í grunnskólum og gerð námsefnis í tengslum við hana.
Skorar stjórnin á foreldra, kennara og stjórnendur Melaskóla að standa gegn slíkum hugmyndum.
Stjórn foreldrafélagsins skorar um leið á Landsvirkjun að draga áformin til baka og beina velvilja sínum varðandi námsefnisgerð og fjárframlög til fagaðila> svo sem Námsgagnastofnunar og annarra óhlutdrægra höfunda og útgefenda.
Stjórn foreldrafélagsins fagnar áhuga einkaaðila á stuðningi við námsefnisgerð fyrir grunnskóla að því gefnu að stuðningurinn sé í einu og öllu á siðaforsendum skólasamfélagsins og hafinn yfir allan vafa um hvers konar hagsmunagæslu eða >áróður stuðningsaðilans.

(Feitletranir eru greinarhöfundar).

Nú skal það það tekið fram að stjórn foreldrafélagsins vinnur að mörgu leyti fórnfúst og gott starf í þágu nemenda í skólanum, og kannski þess vegna má líta framhjá því þótt menn fái með þessum hætti útrás fyrir andstyggð sína á Landsvirkjun, sem er sameignarfélag í eigu ríkisins og nokkurra sveitarfélaga.

Hitt er öllu verra þegar komið er fram fyrir hönd allra foreldra í Melaskóla og því beinlínis haldið fram að einungis Námsgagnastofnun eða sambærilegir aðilar séu þess umkomnir að gefa út námsefni á siðaforsendum skólasamfélagsins. Auðvitað kristallast í þessu trúin á óskeikulleika ríkisvaldsins, en Námsgagnastofnun er eins og flestir vita ríkisstofnun sem framleiðir námsefni, þar sem einkaaðilum er ekki enn treyst til þess.

Stjórn Foreldrafélags Melaskóla, þar sem undirritaður er félagsmaður án þess að hafa um það nokkurt val, vill viðhalda þessu fyrirkomulagi, að ríkinu einu sé treystandi til að útbúa námsefni fyrir grunnskólanemendur. Að efnistökum og innihaldi námsefnis sé handstýrt af ritstjórnum Námsgagnastofnunar (ójá, þessi embætti eru til…). Af því einungis opinberir aðilar geta gefið út námsefni á siðaforsendum skólasamfélagsins – eða hvað?

Er ekki stjórn Foreldrafélags Melaskóla að lýsa yfir vantrausti á kennara og skólastjórnendur með þessari ályktun sinni? Er stjórnin að halda því fram að þessir aðilar – frekar en ríkisritstjórarnir hjá Námsgagnastofnun – myndu taka upp á því að kenna námsefni sem væri í senn hagsmunagæsla eða áróður í þágu einhverra aðila út í bæ? Væru það ekki einmitt kennarar og skólastjórnendur sem væru líklegastir til að leggja metnað sinn í að bjóða upp á besta námsefni sem völ væri á?

Auðvitað sýnir þetta mál allt saman fram á að leggja ber Námsgagnastofnun niður, einmitt í þeim tilgangi að auka framboð á námsefni. Einkaaðilar eru nefnilega fullfærir um útgáfu námsbóka, eins og til að mynda að reka fjölmiðla.

En kannski vill stjórn Foreldrafélags Melaskóla endurvekja einkarétt ríkisins til útvarpssendinga, svo að ljósvakinn sé einugis notaður á siðaforsendum fjölmiðlasamfélagsins?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.