Séní, ekkert minna!

Á tímum eintóna fjöldaframleiddrar dægurtónlistar í neytendapakkningum er gaman að sjá að ferskleikinn er enn til staðar ef menn nenna að kafa aðeins undir yfirborð markaðssetningar og Idol-stjörnuleitar.

Síbylja útvarpsstöðva og annarra fjölmiðla er slík að flesta óar við tilhugsunina eina saman. Þannig virðist sem nýjasta nýtt í huga markaðsmanna og annarra dólga sem hafa það að atvinnu að kynna fyrir neytendum misgóða listamenn sé að koma sínum mönnum að á öllu ljósvakamiðlum í einu: við fylgjumst með stjörnunum fæðast í sjónvarpinu, lesum um ástir þeirra og örlög í vikumtímaritum og erum síðan plötuð til að kaupa afurðir þeirra fyrir jólin, þar sem enginn veit hvað hann á að gefa litlum frændsystkinum í jólagjöf. Allt er þetta samt frekað glatað battrí – sem magnast og eflist á hverju ári þar sem enginn nennir lengur að kynna sér neitt og menn kaupa það sem að þeim er rétt. Öllu sómkæru fólki hlýtur einfaldlega að sundla yfir þessu rugli – alla vegana er fyrir löngu búið að sjóða yfir á pistlahöfundi enda hatar hann þessa þróun eins og pestina.

Raunveruleikaþættir eru fyrir fólk sem á sér engan raunveruleika utan sjónvarpsins, eins og Hallgrímur Helgason lýsir snilldarlega í bókinni Roklandi, sem í framhjálhlaupi má nefna að er stök snilld. Þessi síbyjuvæðing mun á endanum drepa alla skapandi hugsun og er komin langleiðina á að dæma okkur í 8 tíma vist á dag yfir sjónvarpinu.

Á Íslandi er samt lífsmark, þótt stundum þurfi erlenda gesti til að vekja okkur upp af doðanum. Þannig eru systkinin í The White Stripes kynlegir kvistir og tónlist þeirra ber öll höfundareinkenni snillinga. Laglínur þeirra og hrynjandi eru alls ólíkar því sem útvarpshlustendur eiga að venjast. Öfugt við lunga allrar tónlistar sem leikin er á útvarpsstöðvum landsins leita systkinin Jack og Meg White fanga úr gjörvallri tónlistarsögunni svo úr verður einhvers konar óræður bræðingur mismunandi hljóma og tóna. Þjóðlagatónlist, rokk og indí leika í höndum þeirra – eins og ánægðir gestir fengu að heyra undir dynjandi hrynjandi í Laugardalshöll í gærkvöld.

Snilli þeirra systkina rís hæst þegar síst skyldi ætla. Tiltölulega einföld lög hvar þau radda sönginn undir bassatrommu og einhvers konar banjói eru hrein unun á að hlýða – svo ekki sé minnst á útfærslur þeirra á ódauðlegum slögurum eftir Dolly Parton og Burt Bacharach.

Öfugt svo marga minni spámenn taka systkin ekki tökulög upp á arma sína þar sem þau skorti ímyndunarafl til að semja sín eigin. Þvert á móti: tökulög þeirra eru óður til þeirra sem skarað hafa framúr – vísun í það sem vel er gert.

Það er stundum talað um að það sér vor í íslenskri tónlist; slíkur er fjöldi efnilegra tónlistarmanna. Hins vegar getur maður ekki annað en rennt upp í háls og farið í lopasokkana – enda hrýs mér hreinlega hugur við þeirri tónlist sem íslensk útgáfufyrirtæki bjóða upp á jólavertíðinni.

Einhvers konar afdankaðir meðaljónar úr úrkynjuðum sjónvarpsþætti sem geta varla haldið skammlaust lagi – hvað þá spilað á hljóðfæri! – tröllríða landanum fyrir jólin. Og skyldi engan undra: markaðsmennirnir eru bara að svara eftirspurn – og lái þeim hver sem vill. Eftirspurn eftir einhverju auðmeltu og fljótlegu er óendanleg og á sér engin takmörk hvort sem litið er til sjónvarpsefnis eða tónlistar.

Að lokum er rétt að minna íslenska tónleikahaldara á að það er greinilega markaður fyrir það að flytja inn fleiri hljómlistarmenn af svipuðum meiði og The White Stripes.

Kæri jóli! – má ég biðja um Radiohead, The Arcade Fire, The Flaming Lips, Wilco, Bloc Party eða Goldfrapp. Sem eru séní, ekkert minna!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)