Samræmd stúdentspróf eru góð hugmynd

Brátt mun fjöldi framhaldsskólanema ganga til samræmdra stúdentsprófa. Mikið hefur verið rætt og ritað um prófin, flest á neikvæðu nótunum og fremur klént. Rökin eru oftast þau sömu og rök gegn öllu sem kemur úr Menntamálaráðuneytinu: Að það sé illa undirbúið, illa kynnt og „muni gera alla skóla eins“.

Brátt mun fjöldi framhaldsskólanema ganga til samræmdra stúdentsprófa. Mikið hefur verið rætt og ritað um prófin, flest á neikvæðu nótunum og fremur klént. Rökin eru oftast þau sömu og rök gegn öllu sem kemur úr Menntamálaráðuneytinu: Að það sé illa undirbúið, illa kynnt og „muni gera alla skóla eins“.

Menntaskólinn er, í hugum margra, skemmtilegt tímabil og flestir hafa því ákveðnar hugmyndir hvernig það eigi að líta út. Helst nákvæmlega eins og þegar þeir upplifðu það, enda var svo helvíti gaman hjá þeim sjálfum. Margar hugmyndir um breytingar mæta því miklum mótþróa, og eru samræmd stúdentspróf hér engin undantekning. En því miður eru rökin gegn breytingunum oft frekar þunn.

Er til dæmis virkilega hægt að halda því fram samræmd stúdentpróf séu eitthvað sérstaklega illa undirbúin eða verið sé að „þrýsta þeim í gegn“. Hugmyndin er áratugsgömul, búin hafa verið til sýnispróf, prufupróf og valfrjáls stúdentspróf, námsefnið sem prófin taka til hefur legið fyrir í aðalnámsskrá sem verður brátt 7 ára! Framkvæmd prófanna hefur lengi verið frestað vegna þrýstings héðan og þaðan.

Það er miður hve fáir virðast átta sig á því hve nauðsynlegt gæðamat er, í skólakerfinu sem annars staðar. Gott gæðamat gerir okkur kleift að greina vankanta í skólakerfinu og reyna að laga þá. Ef það kemur til dæmis í ljós að ár eftir ár sé Stólabrekkuskóli tveimur heilum undir landsmeðaltali samræmdra prófa eru það skýr skilaboð um að eitthvað sé að. Án þessa yrði mun erfiðara benda á vandann og engin mundi þora að halda öðru fram en að allt væri í himnalagi í Stóló. Af ótta við að særa tilfinningar kennara skólans.

Það er auðvitað ekki þannig að samræmd próf séu langbesta eða eina tækið til gæðamats í menntakerfinu. Kennslukannanir eru annað, enn ein leið er að láta eftirlitsmenn fylgjast reglulega með kennurum, taka niður punkta og gera tillögur að umbótum. Ég held nú reyndar að allt yrði brjálað ef þetta yrði lagt til: Að „eitthvað fólk frá Ráðuneytinu“ kæmi í skólanna til að „njósna um kennarana“. „Er kennurum ekki treyst?“ yrði þá spurt.

En munu samræmd stúdentspróf þá ekki stuðla að minni fjölbreytni í skólakerfinu? Erfitt er að sjá hvers vegna þau sjálf ættu að gera það. Aðalnámsskrá tilgreinir hvað að lágmarki skal kennt í skólunum. Samræmd próf prófa einungis hve vel skólunum gengur að sinna þeim verkefnum. Ekki hvernig er kennt og í hvaða röð, eða hvort um bekkjarkerfi eða áfangakerfi sé að ræða.

Vel má vera að aðalnámsskrá setji skólunum oft þröngar skorður, þótt á hinn bóginn má benda á að flestum kennurum þykir aldrei nóg af faginu þeirra í kjarna, svo líklegast væri hér erfitt að finna jafnvægi sem einhver gæti sætt sig við. En fyrst það er á annað borð búið að ákveða að kenna eitthvað ákveðið þá að fylgjast með hve vel það sé gert. Það er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.