Ríkisstarfsmenn eru óvinurinn

Eitt sinn heyrði ég utan við mig samtal tveggja manna þar sem annar var að tala um uppgang sinn í opinbera geiranum og gaf hinum yngri, sem var að feta sín fyrstu fótspor í opinbera geiranum ráð. Ég læt hérmeð fylgja njósnir mínar af þessum fundi til að gefa fólki innsýn í hugarheim hins opinbera starfsmanns.

Þessir menn svipa mikið til þeirra tveggja sem í er vitnað í greininni

Eitt sinn heyrði ég utan við mig samtal tveggja manna þar sem annar var að tala um uppgang sinn í opinbera geiranum og gaf hinum yngri, sem var að feta sín fyrstu fótspor í opinbera geiranum ráð. Ég læt hérmeð fylgja njósnir mínar af þessum fundi til að gefa fólki innsýn í hugarheim hins opinbera starfsmanns.

Sá eldri byrjaði:

– „Komdu þér strax inn og reyndu að fá starf sem ‘verkefnastjóri’ yfir mjög illa skilgreindu verkefni. Skilaðu síðan strax inn skýrslu þar sem þú ferð fram á heimild til þess að ráða aðstoðarmann til þess að sinna jafn viðamiklu verkefni“

Ég fór að velta því fyrir mér hversu illa ég þoli opinbera starfsmenn. Það er ekki vegna þess að ég tel að þeir séu vont fólk eða illa uppaldar manneskjur. Það er einfaldlega vegna kerfisins sem þeir vinna í. Kerfið er alger plága á þjóðfélagið.

– „Þegar þú ert kominn með þennan aðstoðarmann þá skaltu fá hann í það verkefni að finna fleiri verkefni svo þú getir réttlætt það að ráða fleiri starfsmenn. Þegar þeir eru komnir þá ert þú allt í einu orðinn stjórnandi og þarft að hækka í launum“.

Kerfið virkar þannig að eftir því sem þú hefur meiri mannráð og fjárráð, þess miklu valdameiri og hærra í kerfinu ertu. Það er því markmið hvers metnaðarfulls manns sem hefur vinnu hjá hinu opinbera að fá eins mikið fé og mögulegt er í sitt svið og hafa eins mikið af starfsfólki og mögulegt er.

– „Fljótlega kemur í ljós að það þarf að bæta vinnuferla, auka kynningarstarf og efla móralinn á vinnustaðnum. Þá geturðu farið í að ráða til dæmis framleiðslustjóra, markaðsstjóra og mannauðsstjóra til deildarinnar og í framhaldinu geturðu titlað sjálfan þig ‘deildarstjóra’“

Stofnanirnar gömlu eru sjást ekki svo mikið lengur. Í stað þeirra eru komnar betur skýrðar „stofur“ sem byrja sem litlar sætar tilkynningar í hornglugga blaðanna: „höfuðborgarstofa opnar dyr sínar fyrir borgarbúum“, „Lýðheilsustofnun tekur til starfa“. En lifna brátt við sem sjálfsstæðar verur sem berjast fyrir tilverurétti sínum og krefjast stöðugt fleiri króna og aura frá skattborgurum. Man síðan einhver eftir að ríkisstofnun hafi verið lögð niður? Reyndar Þjóðhagsstofnun en þjóðin logaði stafnanna á milli á meðan á því stóð. Man einhver í dag hvað Þjóðhagsstofnun gerði?

– „Það er lykilatriði að eyða alltaf meiru heldur en maður fær úthlutað. Þannig tryggir þú að það lítur út eins þú sért sveltur af féi. Ef þú gerðir þá vitleysu að halda þig innan fjárlaga þá skera menn náttúrulega niður hjá þér á næstu fjárlögum“

Nú gæti fólk haldið að ég sé að ýkja. Óskandi að það væri satt. Tökum tvö dæmi:

Þegar fiskistofa var stofnuð heyrðust raddir um að hún ætti að vera staðsett á Akureyri. Það þótti óþarfi því þetta var svo lítið batterý. Þetta litla batterý hefur vaxið af gengdarlausum krafti síðan í stærsta Duracell skrýmsli sögunnar. Sögurnar af eftirlitstækni þessarra 90 manna Stasi deildar minna mann helst á það hvað myndi gerast í kvikmyndinni „James Bond hittir Klaufabárðana“ (í einni sögunni þá faldi starfsmaðurinn sig inn í gámi til þess að njósna með vigtarmönnum, hann þurfti síðan að öskra eins og aumingi þegar menn ætluðu (eðlilega) að loka og læsa þessum gám).

Annað dæmi um ríkisstofnun sem fer eftir formúlu andskotans er Ratsjárstofnun sem er stjórnað af hinum ópólitíska, faglega ráðna Ólafi Erni Haraldssyni. Leyfum Guðmundi Gunnarssyni formanni Rafiðnaðarsambands Íslands að fá orðið:

„Ratsjárstofnun rekur 4 ratsjárstöðvar hér á landi, eina á hverju landshorni. Starfsemin byggist á að mestu á að staðsetja allt flug í okkar heimshluta og senda þennan ratsjárgeisla til flugstjórnarkerfa og varnarkerfis bandaríkjamanna. Fyrstu árin störfuðu 32 tæknimenn auk 4–6 á skrifstofu.

En smá saman hafa verið ráðnir fleiri á skrifstofuna og eru þeir orðnir nú á þriðja tug. Hver silkihúfan upp af annarri, sem öðru hvoru fljúga um landið í einkaflugvélum og athuga hvort ryk sé á hillunum í stöðvunum og nokkur óþarfa húsgögn séu á staðnum. Einnig er búið að ráða umsjónarmenn í stöðvarnar og þeim skipað að vera utan stéttarfélaga. Þetta var að því virtist gert til þess eins að ögra tæknimönnunum. Stöðvarstjórar voru einnig ráðnir. Er einhver undrandi á því að bandaríkjamönnum blöskri þessi rekstur og segi það verði að hagræða? Og hver er hagræðingartillaga skrifstofufólksins: Segjum upp helming tæknimannanna!!!” [leturbreyting: mín]

Hver er þá niðurstaðan, eigum við að hata ríkisstarfsmenn? Nei! Það er eins og skáldið sagði: „Don’t hate the player, hate the Game“

Breytum leikreglunum. Leggjum niður fleiri ríkisstofnanir!

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.