Tunglinu stolið

Fjögurra vikna kosningamaraþoni í Póllandi er lokið með fullnaðarsigri þeirra Kaczynski bræðra. Þeir sitja nú með pálmann í höndunum eftir sigur Lech Kaczynski í forsetakosningunum í gær, mánuði eftir að flokkur þeirra sigraði í þingkosningunum. Guð hjálpi okkur öllum.

Fjögurra vikna kosningamaraþoni í Póllandi er lokið með fullnaðarsigri þeirra Kaczynski bræðra. Þeir sitja nú með pálmann í höndunum eftir sigur Lech Kaczynski í forsetakosningunum í gær, mánuði eftir að flokkur þeirra sigraði í þingkosningunum. Guð hjálpi okkur öllum.

Fyrir þá sem ekki þekkja eru þeir Kaczynski bræður eineggja tvíburar sem hafa verið áberandi á ytri hægrivæng pólskra stjórnmála í þrjá áratugi. Þeir urðu reyndar fyrst frægir á hvíta tjaldinu þegar þeir léku í barnamyndinni „„Um tvo bræður sem stálu tunglinu.“

Lengst framan af kosningabaráttunni leit út fyrir að sigur Kaczynski bræðra væri álíka líklegur og tunglþjófnaður einmitt. Því þrátt fyrir að hinn þjóðerniskaþólski boðskapur á sér þónokkurn hljómgrunn meðal pólverja gæti þessi háværi og uppreisnargjarni þjóðarfjórðungur varla nægt til sigurs, hvað þá í forsetakosningum, þar sem hreins meirihluta er krafist.

Lengst af leit út sem Borgaravettvangur, helsti andstæðingur bræðranna á hægrivængnum væri með örugga forystu. Þeim tókst hins vegar að tapa henni niður viku fyrir kosningar. Sömu sögu er að segja um forsetakapphlaupið nema að hér var sveiflan en hraðari. Einungis ein skoðanakönnun, tveimur dögum fyrir kosningar sýndi Lech Kaczynski með ívið meira fylgi en Donald Tusk, ólíkt viðkunnalegri og hófsamari frambjóðanda. Samt sigraði Lech með næstum því 9 prósentustigum!

Hér má tína til ýmsar skýringar. Ein þeirra er sú að „menntavinstrið“ sem undir venjulegum kringustæðum hefði átt að kjósa Tusk, var ekki mikið að láta sjá sig á kjörstöðum nú um helgina. En einnig tókst Kaczynski að höfða til hefðbundinna vinstri- og bændaflokkakjósenda með áróðri gegn því „að Pólland yrði fært frjálshyggjumönnum á silfurfati,“ en stefna hans í efnahagsmálum er mun vinstrisinnaðri. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvernig honum muni takast að halda ýmsum félagslegum kosningaloforðum sem hann slengdi fram á seinustu stundu.

Kannski verður Lech Kaczynski ekki alslæmur forseti. Vonandi mun hin vafasama tillaga bræðranna að nýrri stjórnarskrá sem sniðin er utan um Lech Kaczynski sem forseta og inniheldur guðleg óp í annarri hverri línu aldrei verða að veruleika. Vonandi mun þeim ekki takast að koma of mörgum hatursfullum og íhaldssömum hugmyndum sínum í verk.

Í Varsjá, þar sem Lech Kaczynski hefur verið borgarstjóri í 3 ár fékk Donald Tusk tvo þriðju atkvæða.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.