Árangur landsliðsinsStjórn KSÍ hefur ákveðið að endurráða ekki þjálfara karlalandsliðs Íslands, þá Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson. Þeir félagar hafa síðustu misseri unnið að uppbyggingu landsliðsins þar sem yngri leikmenn hafa verið teknir inn í landsliðshópinn. Sömuleiðis er landsliðið farið að spila skemmtilegri knattspyrnu en áður. Var skynsamleg ákvörðun að skipta um menn í brúnni á þessum tímapunkti?

Forystusveit Knattspyrnusambands Íslands ákvað í síðustu viku að endurnýja ekki samninga sína við landsliðsþjálfara A-landsliðs Íslands þá Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson. Ákvörðunin kom sjálfsagt fæstum á óvart enda þjálfarar eru fyrst og fremst dæmdir af þeim árangri sem lið þeirra nær hverju sinni, þ.e. hversu mörg stig liðið nær í í hverri keppni. Það er hins vegar spurning sem eðlilegt er að leita svara við hvort það sé sá eini mælikvarði sem á að fara eftir þegar störf landsliðsþjálfaranna fyrrverandi eru metin.

Þeir félagar tóku við landsliðinu þar sem það var nánast í frjálsu falli niður styrkleikalista alþjóða knattspyrnusambandsins eftir ágætan árangur nokkrum árum áður. Eins og fram hefur komið tóku þeir þá ákvörðun fljótlega þegar ljóst var að liðið hefði misst af lestinni í keppni um sæti á Heimsmeistaramótinu í Þýskalandi að leggja áherslu á að byggja upp nýtt lið og endurnýja landsliðshópinn. Fram hefur komið að þessi ákvörðun var tekin í samráði við forystu KSÍ. Sé litið á þá knattspyrnu sem liðið hefur verið að leika upp á síðkastið leyfi ég mér að fullyrða að þeir voru á réttri leið með að byggja upp skemmtilegt landslið; landslið sem var vel til þess fallið að draga áhorfendur á Laugardalsvöllinn og landslið sem hafði/hefur alla burði til þess að skemmta landanum og ná í hús stigum með tíð og tíma.

Komið hefur fram í rökstuðningi knattspyrnuforystunnar fyrir þeirri ákvörðun að skipta um landsliðsþjálfara, að það sé fjárhagslega mikilvægt fyrir KSÍ að landsliðið nái góðum árangri í þeim mótum sem það tekur þátt í og dylst engum að það er rétt. Það breytir því hins vegar ekki að varla er hægt að búast við því að íslenska landsliðið eigi sæmilega raunhæfa möguleika á því að blanda sér í keppni um sæti á stórmóti nema á tíu til fimmtán ára fresti í besta falli. Þetta helgast einfaldlega af því hversu fámenn við erum. Það hljómar því skynsamlega núna þegar landsliðið hefur, á nokkrum árum, misst marga af sínum máttarstólpum að gefa sér nokkur ár í að byggja upp nýtt lið þar sem nýir leiðtogar fá að mótast. Það sem hljómar hins vegar ekki eins skynsamlega er að skipta um umsjónarmenn þessarar endurnýjunnar þegar hún hefur aðeins verið í gangi í rúmlega eitt ár. Arkitekt hannar byggingu, leggur línurnar, velur efniviðinn en er sjaldnast tekinn af launaskrá áður en raunverulega er byrjað byggja. Þetta virðist hins vegar hafa verið gert núna.

Vissulega er mikilvægt að fá áhorfendur til að mæta á Laugardalsvöllinn og sennilega er mun auðveldara að ná þeim þangað þegar landsliðinu gengur vel. Hitt er svo annað mál að það er fullt af knattspyrnuáhugamönnum sem vilja sjá landsliðið spila þá tegund af knattspyrnu sem það hefur reynt að gera upp á síðkastið. Kvartað er yfir því hversu mörg mörk liðið fær á sig. Á móti fagna aðrir þeim fjölda marka sem liðið skorar og þeim fjölda tækifæra sem það fær í hverjum leik. Áður fyrr fagnaði maður hornspyrnum. Upp á síðkastið fagnar maður færum og marki eða mörkum í nánast hverjum leik og gildir þá einu hvort andstæðingurinn er sterkur eða veikur. Fyrir mitt leyti kýs ég heldur að horfa á leik eins og leikinn við Svía í síðustu viku heldur en leik þar sem þorri leikmanna liggur aftarlega og aukaspyrna á miðjum vellinum flokkast sem áfangasigur.

Ég hefði gjarnan viljað sjá Ásgeir og Loga halda áfram með landsliðið í önnur tvö ár. Jákvæð teikn voru á lofti. Jú, árangurinn í undankeppni HM var afleiddur í stigum talið. Það að fá bara stig út úr leikjum gegn Möltu, og það bara fjögur, er ekki gott, en ef það eykur líkurnar á fleiri stigum og skemmtilegra landsliði fyrir undankeppni EM sætti ég mig glaður við það. Það má heldur ekki gleymast að árangurinn var upp á við. Í síðustu fimm leikjunum í undankeppninni skoraði liðið tíu mörk, en fékk á sig þrettán. Þrír af þessum fimm leikjum voru gegn þremur sterkustu liðum riðilsins og tveir þeirra á útivelli. Þó svo að “næstum því sigur” telji ekki í stigum talið, þá er það árangur út af fyrir sig að eiga í fullu tré við stórar knattspyrnuþjóðir hvað eftir annað. Það tekur tíma að ná árangri, sérstaklega þegar efniviðurinn er jafn strjáll og raun ber vitni á Íslandi. Það er ekkert að því að setja háleit markmið, en þeim verður líka að fylgja raunhæf áætlun um hvernig á að ná þeim og sú verkáætlun verður að vera hönnuð út frá eðli markmiðanna.

Vonandi ber Eyjólfi Sverrisyni gæfa til að leiða landsliðið veginn fram á við á þann hátt sem bæði gleður hinn almenna knattspyrnuáhugamann sem og forystu KSÍ (sem vert er að taka fram hefur gert margt gott í gegnum tíðina, þó svo ég sé ekki sammála þessari tilteknu ákvörðun þeirra). Eyjólfur á ótrúlegan feril að baki sem leikmaður. Farsæll atvinnumaður til fjölda ára án þess að hafa nokkurn tímann leikið í efstu deild á Íslandi. Í þeim anda er hann orðinn landsliðsþjálfari án þess að hafa þjálfað í efstu deild á Íslandi sem út af fyrir sig er athyglisverður árangur. Það er enginn spurning að hann var einn af okkur mikilvægustu leikmönnum um árabil og einn af þeim leikmönnum sem “kunni” að vinna og var óhræddur við stefna á sigur burtséð frá því hver andstæðingurinn var. Árangurinn sem hann náði með U-21 landsliðið var og góður. Vonandi nær hann að yfirfæra hann yfir á A-landsliðið og koma því upp um styrkleikaflokk á næstu tveimur árum. Það væri góður áfangasigur.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)