Saga Thelmu

Það voru eflaust ófáir sem sátu agndofa yfir Kastljósi þann 11.október síðastliðinn. Thelma sagði þar hispurslaust frá hrikalegri æsku sinni sem barn.

Það voru eflaust ófáir sem sátu agndofa yfir Kastljósi þann 11.október síðastliðinn. Thelma sagði hispurslaust frá hrikalegri æsku sinni sem barn en hún og systur hennar fjórar máttu þola

hrikalegt ofbeldi af föður sínum.

Hjá Vöku-Helgafell er nýkomin út bók Thelmu, Myndin af pabba. Í bókinni segir hún frá ofbeldinu sem átti sér stað á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar sem leið. Thelma fær hjálp hjá færum rithöfundi, Gerði Kristnýju til að rita bókina.

Það er ekki hægt annað en að dást af Thelmu. Ótrúlegur kjarkur varð það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég hlustaði á hluta af sögu hennar í Kastljósi. Þrátt fyrir djúp sár á sálu sinni og hræðilegar minningar kemur hún fram á skjánum og segir alþjóð frá hræðilegri lífsreynslu sinni. Ekki bara reynslu sem hún mátti þola, heldur systur hennar fjórar og móðir. Þær systur voru beittar grófu kynferðislegu ofbeldi af föður þeirra ásamt öðrum barnaníðingum úti í bæ. Faðir þeirra seldi þær ókunnugum heilu næturnar til þess að eiga fyrir fíkniefnum. Hann drap einnig gæludýr þeirra ásamt því að beita móður þeirra grófu líkamlegu ofbeldi.

Oftast eru konur og börn beitt kynferðisofbeldi og árásarmaðurinn nær alltaf karlmaður. Sifjaspell er einn af alvarlegustu glæpum sem beinast gegn börnum og unglingum. Samkvæmt tölum úr ársskýrslu Stígamóta er 98% ofbeldismanna karlar og stúlkur eru í 96% tilvika þolendur þess. Talið er að upplýsingar varðandi sifjaspell gegn drengjum skorti töluvert þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en stúlkur.

Umræðan um kynferðislegt ofbeldi, ekki síst gegn börnum sprettur reglulega upp. Þökk sé fórnarlömbum þessara hrikalegu reynslu. Systurnar í Blátt áfram hafa sýnt ótrúlegan kjark og farið víða og sagt frá reynslu sinni. Thelma kemur núna fram með bók sem margir eiga eftir að lesa.

Kynferðisleg misnotkun gegn varnarlausum börnum er einn af hræðilegri glæpum sem til eru. Varanlegur skaði hlýst af þessum glæp sem fórnarlömb ná ekki alltaf að vinna sig í gegnum. Innan við helmingur fórnarlamba kynferðisofbeldis hefur fengið hjálp annars staðar en á Stígamótum. Helmingur þeirra sem kemur á Stígamót kemur vegna kynferðisofbeldis í æsku.

Ákæruhlutfallið vegna kynferðisofbeldis er mjög lítið. Undanfarin ár hafa einungis um sex til tíu prósent þeirra sem verða fyrir ofbeldinu kært. Sú prósenta er mjög lítil eins og gefur að skilja. Sönnunarfærslan í þessum málum er erfið og sýknað er í helmingi þeirra mála sem dæmt er í. Þetta eru að sjálfsögðu sorglegar tölur.

Miklar deilur spruttu upp í kjölfar frumvarps sem Ágúst Ólafur, þingmaður Samfylkingarinnar kom með á síðasta þingári. Var barist fyrir því að fyrningarákvæðinu í lögum varðandi kynferðislega misnotkun gegn börnum yrði breytt og fyrningarfresturinn afnuminn. Þótti þetta vel við hæfi þar sem að börn skilja oft ekki að verið sé að brjóta stórlega á þeim. Ef þau átta sig á því þá þegja þau oftast þunnu hljóði vegna sektarkenndar eða koma ekki fram fyrr en of seint. Það frumvarp náði því miður ekki fram að ganga og var Allsherjarnefnd Alþingis tvíklofin i málinu þegar frumvarpið var afgreitt þaðan. Frumvarpið komst heldur ekki á dagsrká á síðasta starfsdegi Alþingis í vor.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að umræðan haldi áfram um kynferðislega misnotkun á börnum. Það er mikilvægt að allir sem umgangast börn séu meðvitaðir um þau einkenni sem fylgja slíkri misnotkun. Umræðan hefur opnast til muna síðustu ár og er það bara jákvætt. Það er sannarlega von mín að með góðri og vandaðri umræðu um þetta viðkvæma mál þori fleiri fórnarlömb að stíga fram.

Oft er talað um að þolendur verði gerendur. Það sýndi sig í máli Thelmu að faðir hennar hafði verið beittur miklu ofbeldi í æsku. Það er vitað að drengir leita sér síður aðstoðar en stúlkur eftir sifjaspell. Hvað sem því líður þarf umræðan að halda áfram, ekki bara í fréttum eða Kastljósþáttum. Hún þarf að halda áfram í skólum, inni á heimilum og víðar.

Að lokum hrósa ég Thelmu fyrir þann ótrúlega kjark sem hún hefur. Kjark til að koma fram og segja ítarlega frá sögu sinni. Ekki bara í rituðu máli heldur líka að koma fram fyrir alþjóð og segja frá reynslu sinni.

Ég óska henni innilega til hamingju með bókina. Henni hefur svo sannarlega verið vel tekið.

– Bókin er uppseld.

Heimildir:

www.stigamot.is

www.doktor.is

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.