Verslunarsýki



Neyslurisinn í Bandaríkjunum hefur viðurkennt verslunarsýki eða Compulsive-shopping disorder sem áráttu og setur hana á stall með átröskunum, alkóhólisma og spilafíkn. Bandarískir læknar eru meira að segja farnir að meðhöndla verslunarsjúkt fólk með þunglyndislyfjum.



Finnst þér gott að versla þegar þér líður illa, ert stressaður, kvíðinn eða einmana? Á sér stað einstök vellíðan þegar þú verslar hlut sem þig langar í? Hugsarðu stanslaust um peninga? Lýgurðu því hvað hlutirnir kosta? Finnurðu fyrir samviskubiti eða skammast þín eftir óhóflega eyðslu í búðum? Ertu varnarlaus án kreditkorts? Rökræðirðu við aðra um verslunarvenjur þínar?

Ef þú svarar 4 eða fleiri af ofangreindum spurningum játandi er líklegt að þú eigir við þráláta verlsunaráráttu eða Compulsive-shopping disorder, að stríða. Gjaldþrot, skilnaður og vinaslit gætu verið handan við hornið ef ekki er stigið á bremsuna.

Neyslurisinn í Bandaríkjunum hefur viðurkennt þessa áráttu og setur hana á stall með átröskunum, alkóhólisma og spilafíkn. Kemur svo sem ekki á óvart, enda förum við ekki varhluta af aukinni neyslu undanfarinna ára hér á Fróni. Talið er að 8% Bandaríkjamanna séu haldnir þessari sýki og af þeim séu 90% konur. Bandarískir læknar eru farnir að meðhöndla verslunarsjúkt fólk með þunglyndislyfjum á borð við Cipramil sem er náskylt Prozac og það með góðum árangri. Oftar en ekki er um þunglynda einstaklinga að ræða, eða fólk sem er haldið miklum kvíða sem finna ánægju í því að versla.

Ein orsökin er talin vera blanda af erfðum og umhverfi. Nánar tiltekið að þegar fólk sem býr yfir tilteknum genum lendir í ákveðnum umhverfisaðstæðum, komi hegðunin fram. Já og viti menn! Í samfélagi þar sem gíraffi getur fengið yfirdrátt, dúkka upp einstaklingar með áráttu sem felst í óstjórnlegri notkun plastkorta og eyðslu umfram efni. Það er því ekki skrítið að rannsóknir á þessu sviði séu fáar og ungar.

Sálfræðingar benda einnig á að oft á tíðum fara verlsunarárátta og átraskanir saman. Að orsakir þeirra séu gjarnan þær sömu, þ.e. þrýstingur jafnaldra, þrá eftir velþóknun annarra, auglýsingar og fullkomnunarárátta. Erum enn á ný komin að glansmyndinni í Vouge. Jú þessari sem veldur anorexíu, búlimíu, reykingum og eiturlyfjum. Hugsanlegt. Hver orsökin er, er erfitt að segja en víst er að fylgni er á milli verslunaráráttu og vanlíðan í æsku, innra tóms, ásókn í spennu og svo lengi mætti telja.

Hvað á til bragðs að taka? Nokkur helstu atriðin sem byrja ætti á eru:

– Viðurkenna vandamálið.

– Áður en farið er að versla ætti að gera lista og fá svo einhvern sem maður treystir til að hjálpa sér að versla.

– Versla í búðum en ekki í gegnum sjónvarpið eða internetið, það er allt of auðvelt.

– Ekki nota kreditkort, þau leiða til skuldasöfnunar og jafnvel stjórnleysis.

– Gerðu eitthvað markverðara við tímann þinn.

Þó að eyðslan fari fram úr áætlun eina utanlandsferð, er ekki um vandamál að ræða. Ekki frekar en alkóhólisti verður til á einu kvöldi. Þegar eyðslan verður stjórnlaus og kaupandinn fer að fela varninginn eins og alkóhólistinn felur flöskur, þá er mál að taka til í sínum málum.

Heimildir: BBC news og CNN

Latest posts by Bryndís Harðardóttir (see all)