Kanslarinn Merkel

Eftir pattstöðu síðustu vikna er Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, nýr kanslari Þýskalands. Það þykir tíðindum sæta að nýr leiðtogi sé kjörinn í stórveldinu Þýskalandi enda stígur Gerhard Schröder úr sæti sínu eftir sjö ára valdatíð.

Eftir pattstöðu síðustu vikna er Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, nýr kanslari Þýskalands. Það þykir tíðindum sæta að nýr leiðtogi sé kjörinn í stórveldinu Þýskalandi enda stígur Gerhard Schröder úr sæti sínu eftir sjö ára valdatíð. Schröder er horfinn af sjónarsviðinu og hyggst ekki taka sæti í nýrri ríkisstjórn Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna. Kristilegir demókratar borga þó kanslaraembættið dýru verði þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn hlýtur fleiri og bitastæðari ráðherraembætti, þ. á m. utanríkisráðuneytið og fjármálaráðuneytið.

Þá þykir það ekki síður merkilegt að í fyrsta skipti tekur kona við kanslaraembættinu. Það er verður að segjast að það er fremur dapurlegt að raunveruleikinn sé sá árið 2005 að þetta þyki stórtíðindi og ekki síst það sem kastljós fjölmiðlanna beinist að. Búast má við að Merkel verði meira undir smásjánni heldur en Schröder var eins og oft er með kvenleiðtoga. Strax er farið að nefna hana „þýsku járnfrúna“ og bera hana saman við Margaret Thatcher sem fagnar einmitt áttræðisafmæli sínu í dag.

Hvað sem allri umræðu um kynferði líður þá er prestdóttirin Merkel mjög öflugur einstaklingur. Ekki nóg með að hún sé fyrsta konan til að gegna kanslaraembættinu þá er hún fyrsti kanslari sameinaðs Þýskalands sem kemur frá Austur-Þýskalandi. Merkel fæddist reyndar í Hamborg árið 1954 en flutti svo með fjölskyldu sinni yfir í austurhlutann þar sem hún ólst upp. Merkel lærði síðar eðlisfræði en hóf ekki afskipti sín af stjórnmálum fyrr en í kringum 1990. Það er því óhætt að fullyrða að hún hafi náð mjög langt á fimmtán árum.

The Economist hefur undanfarið spáð í spilinn hvernig kanslari Merkel eigi eftir að reynast. Það er talið veikja stöðu Merkel að kosningaúrslitin í síðasta mánuði voru ekki nógu afgerandi fyrir flokk hennar Kristilega demókrata. Hún verði því vart sami leiðtoginn og Schröder þótti heldur fremur fremst á meðal jafningja.

Verkefnin heima fyrir þykja næg – til dæmis reynir á að henni takist að færa ástandið í atvinnumálum til betra horfs. Þá hefur Þýskaland stóru hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi, bæði utan sem innan Evrópusambandsins. Merkel hefur vakið athygli fyrir yfirlýsta andstöðu sína gegn aðild Tyrklands að Evrópusambandinu.

Hennar fyrsta verk verður þó að vinna að stefnumörkun fyrir nýja stjórn og verður athyglisvert að fylgjast með hvernig henni farnast það. Ef mið er tekið af stappi síðustu vikna við að koma saman stjórn er það e.t.v. fremur erfitt verk sem Merkel bíður við að sætta ólík sjónarmið.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)