Hverjir mega heilaþvo börnin?

Margir hafa bölsótast yfir áformum Landsvirkjunar um að útbúa kennsluefni og samkeppni fyrir grunnskólabörn. Vissulega er nauðsynlegt að velja kennsluefni með gagnrýni en stjórnlyndis- og miðstýringaröflin mega ekki sitja ein að umræðunni.

Allmikið fjaðrafok varð á dögunum þegar upp komst að Landsvirkjun hyggðist verja þónokkrum milljónum til gerðar námsefnis fyrir grunnskóla. Ein helsta ástæðan virðist vera að samhliða mun Landsvirkjun efna til samkeppni hverrar vinningshafar munu taka þátt í lagningu hornsteins að Kárahnjúkavirkjun.

Ólafur Páll Jónsson lektor við Kennaraháskóla Íslands er í hópi hinna ósáttu og ritaði grein um málið þar sem hann rökstyður skoðun sína. Ég bendi fólki á að lesa greinina og rök hans því hér mun ég einbeita mér að hrakningu þeirra.

Fyrsta af fjórum fullyrðingum Ólafs Páls er að Landsvirkjun eigi ekki að búa til námsefni fyrir grunnskóla. Það sé á hendi Námsgagnastofnunar og fyrirtækjum sé nær að styðja við hana. Grundvallaratriði í vísindasamfélaginu sé að skilja hagsmunaaðila frá rannsóknum.

a) Ég tel að þvert á móti hafi einokunarstaða Námsgagnastofnunar haft hamlandi áhrif á gerð námsefnis og mikilvægt sé að auka tækifæri annarra til að starfa á þeim vettvangi. Skólavefurinn er líkast til eitt besta dæmi um slíkt.

b) Þó vísindarökin eigi eðlilega ekki við í grunnskólum er óæskilegt að í námsefni sé tekin afstaða með eða gegn málefnum. Því miður er of oft um slíkt að ræða. Ekki síður hjá efni frá hinni alfriðuðu Námsgagnastofnun.

Næst tiltekur Ólafur Páll að Landsvirkjun eigi ekkert erindi inn í starf grunnskólanna. Umdeildir aðilar og félög, einstök fyrirtæki eða trúfélög eigi þar ekki erindi. Ekki megi skylda börnin til þátttöku í starfi með umdeildum aðilum. Þó séu undantekningar á borð við mjólkurdag Mjólkursamsölunnar og heimsóknum Orkuveitu Reykjavíkur til Rafheima.

c) Hvar á þá að draga mörkin um umdeilda aðila? Mega t.d. fulltrúar í sveitarstjórnum eða varaþingmenn kenna samfélagsgreinar, hvers vegna ætti þeim að vera treystandi einum í stofu með börnunum? Námsefnið liggur þó fyrir augum allra.

d) Ég hef haft verulegar efasemdir um hvernig mjólk er þrengt uppá börn í grunnskólum umfram aðra drykki. Það er staðreynd að margir eru haldnir mjólkurofnæmi og innrás MS og skyldra aðila er grófari ef eitthvað er. Munurinn er einungis fólginn í að MS er Ólafi Páli þóknanleg. Sem dæmi má nefna að í mjög mörgum grunnskólum er notast við töskur merktar mjólkurvörum til að ná í drykki inn í stofur.

e) Í kristinfræðikennslu er ofuráhersla lögð á kristni, þó einhversstaðar hafi nafninu verið breytt í trúarbragðafræði. Sögur biblíunnar eru þar kynntar sem staðreyndir. Ætla menn að halda því fram að „hlutlausir aðilar“ hafi samið biblíunna? Og hvað svo með þróunarkenninguna og sköpunarsöguna?

Þriðja röksemd Ólafs er að grunnskólar séu ekki vettvangur til að velja börn til þátttöku í umdeildum framkvæmdum.

f) Vissulega má taka undir þetta. Hitt er annað mál að skólastjórnendum og kennurum hlýtur að vera treystandi til að leggja mat á námsefnið. Ég treysti þeim a.m.k. betur en ráðuneytum og öðrum miðstýrðum apparötum. Ef kennarar kjósa að nýta sér efnið hljóta þeir að setja það fram á gagnrýninn hátt. Eða hefur lektorinn enga trú á útskrifuðum nemendum sínum?

g) Ef foreldrar eða börnin sjálf eru ósátt við þátttöku barnanna getur Landsvirkjun varla flutt barnið austur gegn þeim vilja. Mannrán eru bönnuð með lögum á Íslandi.

Fjórða og síðasta röksemdin er að börn megi ekki nota sem tæki til að ná markmiðum sem þau varðar ekkert um. Ekki megi brjóta á sjálfstæðu verðmæti barnanna.

h) Við eigum að forðast eins og hægt er að nota börn – eðlilega. Hingað til hafa þau verið notuð með ýmsum hætti. Aðilar sem hafa verið menntayfirvöldum þóknanlegir hafa haft nær ótakmarkaðan aðgang að þeim. Má þar nefna Mjólkursamsöluna, tóbaksvarnarnefnd, atvinnuleikhúsin og fleiri.

Væri ekki besta lausnin að banna algjörlega aðkomu slíkra aðila? Eða eigum við hugsanlega að láta kennara og stjórnendur skólanna um það? Hvernig er kennari í stakk búinn að kenna traust og gagnrýni ef honum er sjálfum ekki treyst og hann þarf ekki sjálfur að beita gagnrýni á viðfangsefnin.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)