Hæfileikar, metnaður og áræði

Kynjakvótar og fléttulistar eru ekki svarið þegar kemur að því efla þátttöku kvenna í stjórnmálum. Svarið felst í að meta að verðleikum hæfileika, metnað og áræði þeirra ungu kvenna sem láta slag standa.

Pólitík er áhugaverður vettvangur. Að vinna að framgangi hugsjóna og hugmynda í lýðræðislegu ferli er í senn spennandi og gefandi. Að láta rödd sína heyrast og hafa þannig áhrif á mótun samfélagsins lyftir tilverunni á æðra plan.

Þó er það svo að fáir leggja það fyrir sig að taka þátt í stjórnmálum. Rannsóknir sýna að stjórnmálaáhugi meðal ungs fólks er mun minni nú en hann var fyrir ekki svo mörgum árum. Einkum virðist tregðu gæta hjá ungum konum til að taka þátt og leggja stjórnmálaþátttöku fyrir sig.

Það þarf mikið hugrekki og einbeittan vilja til að láta gott af sér leiða, til að leggja stjórnmál fyrir sig af alvöru. Vinsælt sé að tala niður til stjórnmálamanna eða um þá í hæðnistón en oft gleymist að þetta fólk hefur gert það að sínu ævistarfi að bæta samfélagið með því að vinna hugsjónum sínum brautargengi – oftar en ekki fyrir mun lægri laun en því stæði til boða annars staðar.

Þar að auki þurfa stjórnmálamenn að þola að um þá sé fjallað sem opinberar persónur. Flestir verða fljótt sjóaðir í þessum efnum en fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum getur verið erfitt og niðurdrepandi að lenda í hringiðu fjölmiðlaumfjöllunar, sem oft á tíðum getur verið mjög persónuleg og meiðandi.

Einhvern veginn er það svo að umfjöllun fjölmiðla um ungt fólk í stjórnmálum er óvægnari en umfjöllun um eldri stjórnmálamenn. Oft er þetta fólk að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum og því miður kjósa margir að binda enda á stjórnmálaþátttöku sína til að forðast hina óvægnu umfjöllun.

En þó eru til dæmi um ungt fólk sem engu að síður lætur slag standa, þrátt fyrir að það lendi í slíku mótlæti sem að framan er rakið.

Fyrir fáeinum dögum lýsti ung kona, Helga Kristín Auðunsdóttir, því yfir að hún sæktist eftir embætti 1. varaformanns í stjórnarkjöri á þingi Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldið verður í Stykkishólmi aðra helgi. Það er stórt skref fyrir unga konu, sem er að ljúka krefjandi háskólanámi, að gefa sig að stjórnmálum með þessum hætti, vitandi hversu óvæginn og miskunarlaus vettvangur stjórnmálanna getur verið.

Heldur óvenjulegt er að frambjóðendur í embætti varaformanns SUS lýsi sérstaklega yfir framboði með þeim hætti sem Helga Kristín hefur gert. En yfirlýsing hennar er ekki einungis til þess fallin að vekja athygli unga sjálfstæðismanna á því tækifæri sem þeir hafa til tefla ungri og frambærilegri konu fram í forystu, heldur er hún skýr skilaboð til annarra kvenna í stjórnmálum:

Ekki bíða eftir að vera skammtað einhverri vegtyllu, takið af skarið og skapið ykkar eigin örlög.

Fléttulistar og kynjakvótar eru ekki svarið. Markmiðið um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum næst einungis ef hæfileikar, metnaður og áræði ungra kvenna á borð við Helgu Kristínu Auðunsdóttur er metið að verðleikum.

Það er von mín að ungir sjálfstæðismenn muni ekki láta sér þetta tækifæri úr greipum renna og að þeir kjósi sér verðugan fulltrúa ungra kvenna til forystu í SUS og sendi þar með þau skilaboð til ungs fólks um allt land að Sjálfstæðisflokkurinn sé vettvangur fyrir ungar konur sem þora, geta og vilja.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.