Bjór í búðir fyrir 2006!

Baráttumenn frelsis, mannréttinda og almennrar gleði hafa lengi barist fyrir því að afnema einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis á Íslandi.

Menn hugsa stundum um draumalandið Ísland þar sem svo vel er um mann búið að maður geti rölt niður í Select og keypt sér kippu af bjór eftir vinnu. Helst virðist fólk búast við því að það gerist kannski í fyrsta lagi eftir tíu ár.

Greinarhöfundur gerði sér þó grein fyrir því um daginn að þetta er í rauninni ekkert mál. Ef Alþingi, sem er að koma saman, samþykkir lög sem afnema einkaleyfi ÁTVR þá getur Bónus verið með Tuborg á tilboði nær samdægurs (þarf bara að bíða eftir að forsetinn undirriti lögin).

Eftir hverju erum við að bíða?

Þó meirihluti Íslendinga styðji áfengissölu í verslunum þá hefur hið alræmda Félag Íslenskra Bannstuðningsmanna og Leyfisheftenda (FÍBL) náð hreint ótrúlega góðum árangri í því að takmarka frelsi neytenda til að versla þar sem þeir vilja og verslunarmanna að bjóða þær vörur sem þeir vilja selja (séu þær löglegar).

Nokkrir alþingismenn, að frumkvæði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, hafa lagt fram tillögu um afnám einkaleyfisins. Þetta er lagafrumvarp 241 frá 131sta löggjafarþingi. 4. Apríl var samþykkt samhljóða að vísa málinu til annarrar umræðu.Meðflutningsmenn Guðlaugs eru:

Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Birgisson, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,

Böðvar Jónsson, Gunnar Örlygsson.

Það er því ljóst að það eru 15 þingmenn í „góða liðinu“. Það er þó ljóst að nokkrir alþingismenn eru velþekkt FÍBL og þeim hefur oft tekist að fresta afgreiðslu þessa máls.

Nú er mál að ungliðahreyfingar stjórnamálaflokkanna taki sig saman eins og þau hafa gert nokkrum sinnum undanfarin misseri og fari að pressa á þingmenn að láta af andstöðu við frumvarpið. Það þarf að draga það fram í dagsljósið hvaða þingmenn teljast til FÍBL-a og láta þá þurfa að svara til saka í prófkjörum fyrir komandi alþingiskostningar.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.