Betri menning

Í dag er menningarnótt. Þversögn? Já, þar sem að viðburðurinn stendur frá klukkan 11 til 23 og spannar því tíma sem flestir myndu líklega kalla dag og kvöld. En menningardagur/kvöld hljómar bara alls ekki jafn vel þannig að hver er að kvarta.

Menningin tekur á sig ýmiskonar form

Í dag er menningarnótt. Þversögn? Já, þar sem að viðburðurinn stendur frá klukkan 11 til 23 og spannar því tíma sem flestir myndu líklega kalla dag og kvöld. En menningardagur/kvöld hljómar bara alls ekki jafn vel þannig að hver er að kvarta.

Í ár er tíunda menningarnóttin og því gerir undirrituð fastlega ráð fyrir að þessi menningarnótt eigi á einhvern hátt eftir að bera af. Vel á þriðja hundrað viðburðir skráðir og því hægt að velja úr alls konar menningu. Það er spurning hvort menningin sem verður á boðstólnum í ár verði betri en venjulega út af afmælinu. Menning getur reyndar verið ansi teygjanlegt hugtak og vafasamt að hætta sér út á þá braut að meta gæðin.

Undanfarin ár hafa þúsundir lagt leið sína í miðbæinn á menningarnótt og má eflaust búast við enn fleirum í ár ef við gefum okkur að fleiri hugsi eins og undirrituð og búist við afmælismenningu. Þegar svona mikill fjöldi er samankominn vill það stundum gerast að fólk fari að skála við mann og annan, hin alræmda vínmenning. Þegar fólk skálar í óhófi fara Íslendingar stundum að heilsast með víkingakveðju sem getur endað með glóðurauga og brotnum tönnum, stundum kennt við drykkjubox. En það vill svo heppilega til að á Austurvelli verður Bardagalistasýning frá Aikikai Reykjavík þar sem sýnd verður vörn gegn árásum með og án vopna. Aikido er bardagalist sem hefur að markmiði að leysa úr ágreiningi á friðsaman máta þannig að báðir aðilar komist óskaddaðir frá. Undirrituð telur það því skyldu sína að hvetja fólk til að mæta þangað og reyna að læra eitthvað sem kemur svo að notum seinna um nóttina.

Stundum er sagt að Íslendingar séu upp til hópa kaldranalegir og tilfinningalega lokaðir og til að útskýra það er vísað í uppruna okkar, eins og vetrarhörkur undangenginna alda og súrmatur eigi að hafa orsakað þetta. En nú eru breyttir tímar. Í dag kveikjum við á miðstöðinni í bílnum ef það er kalt og ísskápar hafa tekið við af súr. Og til að flýta enn meir fyrir umbreytingu Íslendingsins kemur menningin til bjargar, svokölluð tilfinningamenning. Hlutabréfamarkaður kærleikans verður opnaður á menningarnótt þar sem gengi er eitt faðmlag á móti einu, og fer hækkandi eftir því sem líður á daginn. Og hið margfræga Tilfinningatorg verður til staðar fyrir þá sem vilja taka sín fyrstu spor sem tilfinningalega opnir einstaklingar undir handleiðslu stjórnanda.

Sumir vilja meina að það sé einhvers konar geðveila að hlaupa sjálfviljugur, þ.e. þegar þú ert ekki að hlaupa frá einhverju sem ógnar þér eða eftir einhverju sem þú ágirnist. Hvað þá að hlaupa 42,2 km vegna þess fyrir mörgum öldum síðan hljóp grískur hermaður í einum spretti frá Maraþon til Aþenu með skilaboð. Þegar hann hafði stunið upp hinum mikilvægu skilaboðunum í einu orði “sigur” hné hann niður dauður! En kannski var hann með slæmt hjarta og það er ekkert að því að hlaupa þessa vegalengd. Fjöldi manns tekur allavega þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á ári hverju sem er orðið fastur liður í íþróttamenningu landsins. Hægt er að velja um vegalengdir og boðið upp á skemmtiatriði á hlaupaleið. Og ef einhver er enn í vafa þá má benda á að risastór mörgæs sér um upphitun.

Hvaða menning stendur upp úr sem sú besta skal ósagt látið. En vonandi eiga sem flestir eftir að njóta menningarnætur og finna menningu við sitt hæfi. Undirrituð mun allavega leggja leið sína í miðborgina og drekka í sig menninguna.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.